Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 576. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 972  —  576. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Af þeim málum sem fjallað var um á vettvangi þingmannanefndar um norðurskautsmál á árinu 2010 leggur Íslandsdeild áherslu á eftirfarandi atriði sem segja má að hafi helst verið í brennidepli.
    Fyrst ber að nefna níundu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin var í Brussel í september, en umræða tengd skipulagningu hennar var fyrirferðarmikil á árinu. Mikið var rætt um helstu þemu á dagskrá ráðstefnunnar sem voru sjálfbær nýting lifandi auðlinda á norðurskautssvæðinu, samvinna á sviði menntunar og rannsókna auk eftirfylgni við alþjóðlegt heimskautaár og loftslagsbreytingar. Fulltrúar Íslandsdeildar lögðu áherslu á umræðu um öryggis- og björgunarmál á hafi í ljósi afleiðinga minnkandi hafíss á norðurskautssvæðinu og fyrirsjáanlegrar opnunar nýrra siglingaleiða. Auk þess studdi Íslandsdeild við frumkvæði Íslands við gerð annarrar vísindaskýrslu um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi og mannlíf svæðisins (ACIA) sem liggja á fyrir árið 2014. Þar sem þingmannaráðstefnan var haldin í Evrópuþinginu í Brussel var umræða um hlutverk Evrópusambandsins (ESB) á norðurskautssvæðinu áberandi og ljóst að mikill áhugi er á því innan sambandsins að taka virkan þátt í umræðu og stefnumótun um norðurskautsmál innan sambandsins.
    Í öðru lagi var umræða um umhverfismál með áherslu á loftslagsbreytingar að venju mjög áberandi. Áhersla var lögð á aðlögun samfélaga á svæðinu í ljósi breyttra aðstæðna sem skapast með loftslagsbreytingunum með áherslu á lífsskilyrði og heilsufar íbúa norðurskautsins. Rætt var um mikilvægi þess að samvinna yrði um málefni svæðisins, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá var lögð áhersla á réttindi frumbyggja til náttúruauðlinda á svæðinu auk þeirra áskorana og tækifæra sem fram undan eru og ábyrgð strandríkjanna.
    Í þriðja lagi fór fram umræða um breytingar á starfsreglum þingmannanefndarinnar varðandi formennsku og varaformennsku. Lögð var fram tillaga um það að formennska í nefndinni skiptist á milli aðildarríkjanna og komið yrði á varaformannsembætti. Þessi breyting gæti stuðlað að auknum skilningi þinga aðildarríkjanna á málefnum norðurslóða og verkefnum þingmannefndarinnar. Var í fyrsta sinn kjörið í nýtt embætti varaformanns á fundi nefndarinnar í október og tekin ákvörðun, að tillögu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, um að hefja undirbúning að því að koma á kerfi þar sem formennskan færðist milli aðildarríkjanna með reglulegu millibili. Drög að fyrirkomulagi verða rædd á fyrsta fundi ársins 2011 og ákvörðun tekin um breytingarnar í framhaldinu.
    Af öðrum málum sem voru áberandi í umræðunni hjá nefndinni á árinu 2010 má nefna stefnu aðildarríkjanna í málefnum norðurskautsins, áhersluatriði formennsku Danmerkur í Norðurskautsráðinu og nýtingu orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt á svæðinu.

2. Almennt um þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Meginviðfangsefni hennar er að skipuleggja þingmannaráðstefnu um norðurskautsmáls, fylgja eftir samþykktum hennar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins. Einnig hefur orkuöryggi og nýting orkuauðlinda á sjálfbæran og umhverfisvænan hátt hlotið aukna athygli nefndarinnar síðustu ár.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem viðkomu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið er byggt á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu, heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.
    Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsókn á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, svo sem hækkun yfirborðs sjávar og breytingar á sjávarföllum. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn örari loftslagsbreytinga. Að frumkvæði Íslands er fyrirhugað að ljúka nýrri vísindaskýrslu um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi og mannlíf svæðisins (ACIA) árið 2014.

3. Skipan Íslandsdeildar.
    Aðalmenn Íslandsdeildar voru árið 2010 Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, og Kristján Þór Júlíusson, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Margrét Tryggvadóttir, þingflokki Hreyfingarinnar og Unnur Brá Konráðsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Ritari Íslandsdeildar var Arna Gerður Bang.
    Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins.

4. Fundir þingmannanefndar 2010.
    Þingmannanefndin hélt fimm fundi á árinu. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir því sem fram fór á fundum þingmannanefndarinnar og þingmannaráðstefnunni í Brussel.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Washington, 18. mars 2010.
    Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Íslandsdeildar sótti fundinn, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem fyrirhuguð var í Brussel 13.–15. september 2010 og stefna Bandaríkjanna um málefni norðurskautsins. Hannes Manninen, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum.
    Bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski bauð fundargesti velkomna til Washington og hélt erindi um þróun mála varðandi olíu- og gasauðlindir í Alaska. Hún sagði rannsóknir á orkuauðlindum á norðurskautssvæðinu gríðarlega mikilvægar til þess að stuðla að framþróun á svæðinu. Áætlað er að á grunnsævi Alaska í Tjúktahafi séu 15 milljarðar tunna af olíu og 8 milljarðar tunna í Beauforthafi. Þá áætlar stofnun Bandaríkjanna um jarðfræðilegar athuganir að allt að 30% af gasi og 13% af olíuauðlindum heims sem ekki hafa verið nýttar sé að finna á svæðinu.
    Murkowski lagði áherslu á réttindi frumbyggja til náttúruauðlinda á svæðinu, ekki eingöngu til orkuauðlinda heldur einnig fisk- og dýrastofna sem þeir nýta sér til matar og lífsviðurværis. Hún sagði jafnframt að norðurskautið byði upp á tækifæri til samvinnu og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, hefði staðfest að norðurskautið væri eitt af þeim svæðum sem ríkisstjórn Obama forseta mundi leggja áherslu á í utanríkisstefnu sinni. Loftslagsbreytingar á svæðinu hafa í för með sér erfiðar áskoranir en einnig tækifæri og sagðist Murkowski bjartsýn á að samvinna yrði um málefni svæðisins, með sjálfbæra þróun að leiðarljósi. Þá svaraði Murkowski spurningu nefndarmanna varðandi fullgildingu Bandaríkjamanna á Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna á þann veg að hún teldi afar mikilvægt að hann yrði fullgiltur sem fyrst og að hún væri talsmaður þess á þinginu.
    Næsti dagskrárliður var kynning Davids Baltons, sendiherra og sérfræðings á sviði hafsvæða og fiskveiða í bandaríska utanríkisráðuneytinu, á nýrri stefnu Bandaríkjanna í málefnum norðurskautsins. Balton benti á að það væri langt síðan stefna málaflokksins hefði verið uppfærð og markmiðið við gerð nýrrar stefnu hefði m.a. verið að í henni fælust langtímaskuldbindingar og að hún gæti enst nokkur kjörtímabil. Stefnan fjallar um málaflokkinn á breiðum grunni og tekur m.a. á öryggis- og umhverfismálum. Bolton sagðist líta á norðurslóðir sem svæði samvinnu og friðar og lagði áherslu á mikilvægi þess að Bandaríkin fullgiltu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þá fagnaði hann nýju verkefni Norðurskautsráðsins við gerð nýs samkomulags varðandi leitar- og björgunarmál.
    Næsti dagskrárliður fjallaði um löggjöf Bandaríkjanna um norðurskautið og ræddi Mark Begich öldungardeildarþingmaður um lagafrumvörp varðandi svæðið sem kynnt voru í þinginu í ágúst 2009. Hann sagði frumvörpin ná yfir málefni norðurslóða á breiðum grunni og fjalla m.a. um heilbrigðismál frumbyggja, aðlögun að loftslagsbreytingum, skipaumferð, mengunarvarnir og nýja stöðu sendiherra norðurslóða. Þá sagðist Begich sannfærður um að lagafrumvörpin hefðu stuðlað að því að aukin áhersla hefur verið lögð á málefni norðurskautsins í þinginu. Begich er einnig þeirrar skoðunar að mikilvægt væri að Bandaríkjamenn fullgiltu Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Rætt var um undirbúning ráðstefnu þingmannanefndarinnar sem ráðgerð var í Evrópuþinginu í Brussel 13.–15. september 2010. Pat the Cope Gallagher, þingmaður á Evrópuþinginu, skýrði frá undirbúningsferlinu, fór yfir drög að dagskrá ráðstefnunnar og tilkynnti að boð á ráðstefnuna yrði sent út seinni hluta aprílmánaðar. Samþykkt var tillaga framkvæmdastjóra nefndarinnar um form yfirlýsingar ráðstefnunnar. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, formaður Íslandsdeildar, benti á mikilvægi þess að ráðstefnuyfirlýsingunni yrði fylgt markvisst og skipulega eftir af nefndinni í kjölfar ráðstefnunnar auk þess sem hafa þyrfti í huga kynjajafnvægi við val á fyrirlesurum ráðstefnunnar. Þá tók til máls Don Young, þingmaður frá Alaska, og lagði áherslu á þau fjölmörgu tækifæri sem norðurskautssvæðið byði upp á og sagði það hlutverk nefndarinnar að bera út þann boðskap. Hann sagði siglingar mikilvægar framþróun á svæðinu, en í Alaska væri skortur á höfnum stórt vandamál.
    Öldungardeildarþingmaðurinn John Kerry ávarpaði fundinn og sagðist vonast til þess að bandarísk loftslags- og orkulöggjöf yrði tilbúin til kynningar í lok mars 2010. Á norðurskautinu verði áhrif lofslagsbreytinga fyrst sýnilegar með bráðnun jökla og hafíss og því mikilvægt að leggja áherslu á verndun og stjórnun svæðisins. Kerry benti á mikilvægi menntunar til að takast á við áskoranir framtíðar auk þess sem hann vonaðist til að fullgilding Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna kæmist á dagskrá þingsins á þessu ári.
    Farið var yfir tillögur að skýrsluhöfundum nefndarinnar og var Sofia Rossen frá Danmörku skipuð skýrsluhöfundur um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda á norðurskautinu og Morten Høglund frá Noregi skýrsluhöfundur um samvinnu á sviði menntunar og rannsókna á norðurskautinu auk eftirfylgni við Alþjóðlegt heimskautaár.
    Næsti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sinikka Bohlin frá Svíþjóð sagði nefndarmönnum frá komandi þingkosningum í Svíþjóð í september 2010. Þá verður haldinn fundur um loftslagsmál í Stokkhólmi í apríl með stjórnmálamönnum og vísindamönnum til að fylgja eftir loftslagsráðstefnunni COP15 sem haldin var í Kaupmannahöfn í desember 2009. Enn fremur bauð Igor Chernyshenko frá Rússlandi nefndarmönnum til ráðstefnu um málefni norðurskautsins sem haldin verður í Moskvu 22.–23. apríl 2010.
    Guðfríður Lilja tilkynnti nefndarmönnum að það væri Íslendingum sönn ánægja að halda þingmannaráðstefnu nefndarinnar um norðurskautsmál á Íslandi árið 2012. Þá gagnrýndi hún fyrirhugaðan fund fimm strandríkja á norðurskautssvæðinu sem halda átti í Kanada til að ræða málefni norðurskautsins án þess að öllum átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins auk fulltrúa frumbyggja sé boðið til fundarins en fulltrúum Finnlands, Íslands, Svíþjóðar eða frumbyggja hefur ekki verið boðið til fundarins. Guðfríður Lilja sagði ríka áherslu vera lagða á það á Íslandi að málefni norðurskautsins séu rædd á vettvangi Norðurskautsráðsins. Þá sagði hún skuldavanda íslenska þjóðarbúsins erfiðan stjórnvöldum, þó að jákvæð þróun væri á ýmsum sviðum samfélagsins. Síðasta ár hafi til dæmis verið metár í ferðaþjónustu auk þess sem fiskveiðar gangi vel.
    Josef Motzfeldt, forseti grænlenska þingsins og formaður Vestnorræna ráðsins, sagði nefndarmönnum frá starfi Vestnorræna ráðsins. Í máli sínu gagnrýndi Motzfeldt harðlega ákvörðun Evrópusambandsins um að banna innflutning og sölu á selaafurðum á sambandssvæðinu, þrátt fyrir að bannið hafi undanþegið frumbyggja Grænlands. Bannið hafi haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir frumbyggja norðurskautsins, ekki síst á Grænlandi. Hann hvatti nefndarmenn til að horfa á vistkerfi hafsins á heildrænan hátt. Þá lýsti Motzfeldt yfir vonbrigðum með ákvörðun Kanadamanna um að halda fund um málefni Norðurskautsins í Kanada án þess að bjóða öllum átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins til fundarins heldur eingöngu fimm strandríkjum svæðisins.
    Innanríkisráðherra Bandaríkjanna, Ken Salazar, var gestgjafi hádegisverðar og ávarpaði nefndarmenn. Salazar óskaði eftir hugmyndum frá landsdeildum varðandi það sem betur mætti fara í tengslum við norðurskautið af hálfu Bandaríkjanna og sköpuðust líflegar umræður í kjölfarið.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ósló, 7. júní 2010.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður Íslandsdeildar sótti fund nefndarinnar, auk Örnu Gerðar Bang ritara. Helstu mál á dagskrá voru skipulagning ráðstefnu þingmannanefndarinnar í Brussel 13.–15. september 2010, stefna Noregs um málefni norðurskautsins og áhersluatriði formennsku Danmerkur í Norðurskautsráðinu. Hannes Manninen, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum.
    Lene Espersen, utanríkisráðherra Danmerkur og formaður Norðurskautsráðsins, kynnti nefndarmönnum áhersluatriði Dana í formennsku í Norðurskautsráðinu. Danmörk tók við formennsku í ráðinu af Noregi í apríl 2009 og Svíþjóð mun taka við formennsku í apríl 2011. Formennska í ráðinu verður því í höndum Skandinava í sex ár, sem hefur gert það að verkum að mögulegt hefur verið að samræma ákveðin verkefni til lengri tíma. Espersen sagði helstu áhersluatriði formennsku Danmerkur m.a. vera eftirfylgni við alþjóðlegt heimskautaár, sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda, öryggis- og björgunarmál og loftslagsbreytingar. Grundvallaratriði væri þó að huga að lífsskilyrðum og heilsufari íbúa norðurskautsins.
    Jafnframt ræddi Espersen um hlutverk áheyrnarfulltrúa í Norðurskautsráðinu í ljósi aukins áhuga alþjóðasamfélagsins á svæðinu. Hún sagði að unnið væri að lausn á málinu og markmiðið væri að ná sátt á næsta fundi ráðherranna. Það er skoðun Espersen að það muni styrkja Norðurskautsráðið að hafa áheyrnarfulltrúa sem standi utan norðurskautssvæðisins þar sem það komi m.a. í veg fyrir að umræða um svæðið fari fram á öðrum vettvangi.
    Næsti dagskrárliður var kynning Jonasar Gahrs Støre, utanríkisráðherra Noregs, á stefnu Norðmanna um málefni Norðurskautsins. Í kynningu sinni lagði Støre áherslu á þrjú atriði. Í fyrsta lagi ástæður aukins áhuga á norðurskautssvæðinu, loftslagsbreytingum sem m.a. hafa valdið því að nýjar siglingarleiðir eru að opnast, náttúruauðlindum og samskiptum við Rússland. Í öðru lagi lagði Støre áherslu á grundvöll lagalegs og stjórnmálalegs ástands á svæðinu. Í þriðja lagi ræddi hann um helstu áskoranir og tækifæri fram undan og ábyrgð strandríkjanna.
    Þá hélt Robert Corell, sérfræðingur á sviði loftslagsbreytinga og formaður alþjóðlegs verkefnis um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðið (Arctic Climate Impact Assessment (ACIA)), kynningu á verkefni um stjórnun á norðurslóðum (Arctic Governance Project). Hann sagði verkefnið m.a. leggja áherslu á að innleiða og bæta núverandi stjórnunarkerfi, styrkja Norðurskautsráðið og koma á fót umræðuvettvangi ótengdum stjórnvöldum (non- governmental) til að byggja upp traust og örva umræðu um málefni norðurskautsins. Corell lagði í máli sínu áherslu á mikilvægi núgildandi lagaramma svæðisins, sérstaklega Hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna.
    Í framhaldinu sagði Olav Orheim nefndarmönnum frá ráðstefnu Alþjóðaheimskautaársins sem fyrirhugað var að halda í Lillestrøm 8.–12. júní. Ráðstefnuna sækja 2.400 vísindamenn og er hún sú langstærsta sem haldin hefur verið um heimskautin. Þá var rætt um undirbúning ráðstefnu þingmannanefndarinnar 13.–15. september. Pat the Cope Gallagher, þingmaður á Evrópuþinginu, skýrði frá undirbúningsferlinu, fór yfir drög að dagskrá ráðstefnunnar og sagði boð á ráðstefnuna hafa verið send út. Þórunn Sveinbjarnardóttir lagði til fyrir hönd Íslandsdeildar að Joan Nymand Larsen, frá stofnun Vilhjáms Stefánssonar yrði boðið að halda fyrirlestur á ráðstefnunni.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir sagðist styðja tillögu formanns sænsku sendinefndarinnar varðandi það að formennska í nefndinni skiptist á milli aðildarríkjanna. Það gæti stuðlað að auknum skilningi þinga aðildarríkjanna á málefnum norðurslóða og verkefnum þingmannanefndarinnar. Tekin var ákvörðun um að málið yrði rætt frekar á næsta fundi nefndarinnar og mun formaður sænsku sendinefndarinnar senda nefndarmönnum frekari útfærslu tillögu sinnar.
    Enn fremur kynntu skýrsluhöfundar nefndarinnar framgang vinnu sinnar, þau Sofia Rossen frá Danmörku, höfundur skýrslu um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda á norðurskautinu, og Morten Høglund frá Noregi, skýrsluhöfundur um samvinnu á sviði menntunar og rannsókna á norðurskautinu auk eftirfylgni við Alþjóðlega heimskautaárið. Høglund sagði skýrsluna m.a. leggja til að skipulagður verði sameiginlegur fundur með þeim ráðherrum sem bera ábyrgð á rannsóknum á svæðinu og ráðherrum þeirra landa sem tóku þátt í rannsóknum á Alþjóðaheimskautaárinu í tengslum við ráðstefnu um Alþjóðaheimskautaárið sem fer fram í Montreal 22.–27. apríl 2012. Þá sagði hann áherslu vera á að tryggja hag íbúa svæðisins og það yrði haft að leiðarljósi við frekari rannsóknir á svæðinu. Rossen sagði útgangspunkta sinnar skýrslu byggjast á sjálfbærri þróun, þekkingu, alþjóðlegri samvinnu og frekari rannsóknum.
    Síðasti dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsins innan einstakra aðildarríkja hennar. Sinikka Bohlin frá Svíþjóð sagði nefndarmönnum frá komandi þingkosningum í Svíþjóð og að hún mundi ekki sækjast eftir endurkjöri. Fundurinn í Brussel í september 2010 yrði því hennar síðasti fundur í nefndinni. Enn fremur bauð Igor Chernyshenko frá Rússlandi nefndarmönnum öðru sinni til ráðstefnu um málefni norðurskautsins sem halda átti í Moskvu í september, en fyrirhugað hafði verið að halda ráðstefnuna 22.–23. apríl 2010 en vegna eldgoss í Eyjafjallajökli hafði þurft að fresta henni. Hannes Manninen frá Finnlandi upplýsti nefndarmenn um nýskipaða ráðgjafanefnd um málefni norðurslóða í Finnlandi. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði áherslu vera lagða á það á Íslandi að málefni norðurskautsins væru rædd á vettvangi Norðurskautsráðsins. Hún sagði það því Norðurskautsráðinu ekki til framdráttar þegar haldnir væru fundir til að ræða málefni norðurskautsins án þess að öllum átta aðildarríkjum Norðurskautsráðsins auk fulltrúa frumbyggja væri boðin þátttaka. Slíkur fundur hefði verið haldinn í Kanada fyrr á árinu þar sem hvorki fulltrúum Finnlands, Íslands, Svíþjóðar né frumbyggja var boðið að sitja fundinn.

Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál og fundir þingmannanefndar í Brussel, 13.–15. september 2010.
    Níundu þingmannaráðstefnuna um norðurskautsmál sóttu fyrir hönd Alþingis Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður Íslandsdeildar, og Kristján Þór Júlíusson auk Örnu Gerðar Bang ritara. Ráðstefnan hófst með því að Diana Wallis, varaforseti Evrópuþingsins, og Pat the Cope Gallagher, þingmaður á Evrópuþinginu, ávörpuðu gesti og buðu þá velkomna. Þá ávörpuðu jafnframt ráðstefnuna Maria Damanaki, sem fer með málefni hafsins og fiskveiða í framkvæmdastjórn ESB, Lene Espersen, formaður Norðurskautsráðsins og utanríkisráðherra Danmerkur, og Hannes Manninen, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál.
    Í ræðu sinni sagði Pat the Cope Gallagher það mikilvægt fyrir Evrópusambandið (ESB) að taka virkan þátt í umræðu og stefnumótun um norðurskautsmál. ESB gæti reynst jákvæður kraftur til að takast á við þær margvíslegu áskoranir sem blasa við íbúum svæðisins. Norðurskautið breytist hratt sökum loftslagsbreytinga og afleiðingar bráðnunar hafíss og leysingar snjóa á svæðinu séu m.a. opnun nýrra siglingaleiða og aðgengi að nýjum fiskveiðisvæðum. Þá sé áætlað að 30% af ónýttum olíu- og gasauðlindum heimsins sé að finna á norðurskautssvæðinu. Lene Espersen tók undir orð Gallaghers og sagði jafnframt að það að ráðstefna sem þessi væri haldin utan norðurskautssvæðisins væri í raun tákn fyrir vaxandi áhuga á svæðinu. Þá sagði Espersen frá áhersluatriðum Dana í formennsku í Norðurskautsráðinu en Danmörk tók við formennskunni af Noregi í apríl 2009 og Svíþjóð mun taka við formennsku í apríl 2011. Diana Wallis ítrekaði í ræðu sinni mikilvægi ályktunartillögu Evrópuþingsins frá 2008 um alþjóðasamning til verndar norðurskautssvæðinu.
    Fyrsti hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda á norðurskautssvæðinu og stýrði Þórunn Sveinbjarnardóttir umræðunni ásamt Pat the Cope Gallagher. Karl Falkenberg, yfirmaður þróunarsviðs framkvæmdastjórnar ESB, hélt erindi og ræddi meðal annars um áhrif mengunar á norðurskautssvæðinu á lífríkið og mikilvægi aukins samstarfs. Hann sagði skilning á hefðbundnum aðferðum frumbyggja við ákveðnar tegundir veiða á svæðinu vera til staðar en leggja þyrfti aukna áherslu á frekari samvinnu sem stuðlaði að sjálfbærri þróun. Þá hélt Erik Lahnstein, utanríkisráðherra Noregs, erindi þar sem hann ræddi meðal annars um stefnu Noregs í norðurskautsmálum, helstu áskoranir og tækifæri fram undan og ábyrgð strandríkjanna. Hann lagði áherslu á mikilvægi hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna og gildandi alþjóðasamþykkta á svæðinu.
    Grænlenski þingmaðurinn Sofia Rossen var höfundur skýrslu þingmannanefndarinnar um sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda á norðurskautinu og kynnti hún helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir fundargestum. Hún sagði sjálfbærar veiðar á selum og hvölum, sem alþjóðasamfélagið hefur veitt mikla athygli, mikilvægan þátt í samfélögum norðurskautssvæðisins. Í máli sínu hvatti hún veiðimenn og vísindamenn til að vinna saman að farsælli lausn varðandi sjálfbærar veiðar á svæðinu. Í umræðum um skýrsluna var m.a. rætt um nauðsyn þess að vernda hefðbundnar aðferðir við veiðar frumbyggja og að byggja ætti sjálfbæra nýtingu lifandi auðlinda á rannsóknum en ekki tilfinningasemi. Þá skapaðist umræða um ályktun Evrópuþingsins frá maí 2009 um bann á sölu selskinnsvara í Evrópusambandinu og gagnrýndi Kári Højgaard, formaður Vestnorræna ráðsins, ályktunina harðlega.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um samvinnu á sviði menntunar og rannsókna á norðurskautssvæðinu auk eftirfylgni við alþjóðlegt heimskautaár. Norski þingmaðurinn Morten Høglund var höfundur skýrslu þingmannanefndarinnar um efnið og kynnti hann helstu niðurstöður skýrslunnar fyrir fundargestum. Hann sagði áherslu vera á að tryggja hag íbúa svæðisins og að það yrði haft að leiðarljósi við frekari rannsóknir á svæðinu. Robert-Jan Smiths, yfirmaður rannsókna hjá framkvæmdastjórn ESB, hélt fyrirlestur um efnið auk dr. Joan Nymand Larsen, deildarstjóra hjá stofnun Vilhjálms Stefánssonar. Þórunn Sveinbjarnardóttir spurði Larsen hvaða leiðir væru færar til að vinna bug á þeim hindrunum sem hún nefndi í fyrirlestri sínum að hömluðu rannsóknarvinnnu. Larsen svaraði því til að aukið aðgengi að upplýsingum og gögnum væri nauðsynlegt auk víðtækari skilnings á menningu og lífsskilyrðum íbúa á norðurskautssvæðinu. Þá ræddi Larsen um veika tengingu vísinda og stjórnmála og mikilvægi þess að fjármagn til verkefna væri dreift á sanngjarnan hátt þannig að frumbyggjar hefðu t.d. aðgang að sjóðum jafnvel þótt þeir væru ekki tengdir rannsóknar- eða háskólastofnun.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um loftslagsbreytingar og afleiðingar minnkandi íss á norðurskautssvæðinu. Jacqueline McGlade, forstjóri Umhverfisstofnunar Evrópu, hélt erindi um efnið og ræddi m.a. um niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið hjá stofnuninni á sviði loftslagsbreytinga. Þá kynnti rússneski þingmaðurinn Igor Chernyshenko, höfundur skýrslu þingmannanefndarinnar um efnið, helstu niðurstöður skýrslunnar. Þar var m.a. lögð áhersla á mikilvægi aukinnar viðleitni til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingarnar og milda afleiðingar þeirra á íbúa og dýralíf norðurskautsins.
    Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing sem beint er til ríkisstjórna á norðurskautssvæðinu, Norðurskautsráðsins og stofnana Evrópusambandsins. Þar er m.a. kallað eftir samkomulagi um leitar- og björgunarmál til að tryggja viðeigandi viðbrögð við hugsanlegum slysum í kjölfar opnunar nýrra siglingaleiða og betra aðgengis að niðurstöðum rannsókna frá Alþjóðaheimskautaárinu. Enn fremur var kallað eftir aukinni viðleitni til að draga úr loftslagsbreytingum og afleiðingum þeirra fyrir íbúa norðurskautsins. Íslensku þingmennirnir lögðu áherslu á aukið samstarf norðurskautsríkja um öryggi á hafinu auk stuðnings við frumkvæði Íslands við gerð annarrar vísindaskýrslu um loftslagsbreytingar á norðurskautssvæðinu og afleiðingar þeirra fyrir vistkerfi og mannlíf svæðisins (ACIA) árið 2014. Fyrirhugað er að skýrslan verði byggð á þeirri þekkingu sem rannsóknir Alþjóðaheimskautaársins hafa aflað um samfélög á norðurskautssvæðinu og velferð þeirra á breiðum grunni og mælti Þórunn Sveinbjarnardóttir sérstaklega fyrir þeirri tillögu. Við undirbúning yfirlýsingarinnar var skipuð sérstök nefnd sem hittist á tveimur fundum og fór yfir þær athugasemdir og tillögur sem lagðar voru fram.
    Loks bauð Helgi Hjörvar, alþingismaður og fulltrúi Norðurlandaráðs á ráðstefnunni, þátttakendur velkomna til næstu þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin verður í Reykjavík árið 2012. Fyrsta þingmannaráðstefnan var haldin í Reykjavík 1993 og hafa nú öll aðildarríkin átta auk Evrópuþingsins haldið slíka ráðstefnu, sem skipulögð er á tveggja ára fresti.
    Þingmannanefnd um norðurskautsmál hélt tvo fundi samhliða ráðstefnunni. Á fyrri fundi nefndarinnar 13. september var farið yfir dagskrá ráðstefnunnar og drög að yfirlýsingu hennar. Nefndarmönnum var gefinn kostur á að koma á framfæri athugasemdum varðandi drögin og þeim komið á framfæri við nefnd sem vann að gerð yfirlýsingar ráðstefnunnar. Á síðari fundi nefndarinnar 15. september var Hannes Manninen, fulltrúi finnska þingsins, endurkjörinn formaður nefndarinnar og Björn Willy Robstad, starfsmaður norska Stórþingsins, endurráðinn framkvæmdastjóri. Tillaga formanns sænsku sendinefndarinnar sem lögð var fram á fundi nefndarinnar í Ósló í júní 2010 varðandi að formennska í nefndinni skiptist á milli aðildarríkjanna var rædd og sæst á að ákvörðun um útfærslu tillögunnar yrði tekin á næsta fundi nefndarinnar. Jafnaframt var ákveðið að fyrsti varaformaður nefndarinnar yrði valinn á næsta fundi nefndarinnar og lagði formaður sænsku landsdeildarinnar til að fulltrúi Íslands í þingmannanefndinni tæki við varaformennskunni.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa, 16. nóvember í 2010.
    Þórunn Sveinbjarnardóttir, varaformaður Íslandsdeildar, sótti fund nefndarinnar, ásamt Kjartani Fjeldsted, starfandi ritara. Helstu mál á dagskrá voru kosning nýs formanns og varaformanns nefndarinnar, ný stefna Kanada í norðurskautsmálum og vísindarannsóknir á norðurskautinu.
    Hannes Manninen, formaður nefndarinnar, setti fundinn og voru fyrirliggjandi dagskrárdrög samþykkt. Því næst lá fyrir fundinum tillaga um að samþykkja fundargerð frá síðasta fundi nefndarinnar í Brussel. Þórunn Sveinbjarnardóttir kvaddi sér þá hljóðs og óskaði eftir því að bætt yrði inn í fundargerðina að lagt hefði verið til á fundinum í Brussel að kannaðir yrðu möguleikar á að innleiða kerfi þar sem formennska nefndarinnar færðist milli allra aðildarríkja nefndarinnar með reglulegu millibili. Féllst formaður nefndarinnar á að það yrði gert.
    Því næst gerðu fulltrúar Kanada í nefndinni, þeir Stephen Blaney og Larry Bagnell, grein fyrir stefnu Kanada í norðurskautsmálum, en Kanada kynnti nýja utanríkisstefnu sína gagnvart norðurskautinu í ágúst 2010. Er henni ætlað að standa við hlið svokallaðrar norðuráætlunar Kanada, en hin síðarnefnda lýtur frekar að innanríkismálum Kanada. Byggist hin nýja utanríkisstefna á fjórum meginásum sem eru: að verja fullveldi Kanada á svæðinu, að stuðla að félagslegri og efnahagslegri þróun, að vernda umhverfið og umbætur á sviði stjórnunar og færsla ákvarðanatökuvalds til svæðisins.
    Þá gerði David Hik, forseti alþjóðlegu norðurskautsvísindanefndarinnar (e. International Arctic Science Council, IASC), að umtalsefni hvernig tryggja mætti að afrakstur alþjóðlega norðurskautsársins verði gerður varanlegur, sérstaklega með tilliti til alþjóðlegrar samvinnu á vísindasviðinu og skipta á vísindalegum gögnum. Taldi hann þörf á áætlun um það hvernig best væri að fylgja alþjóðlega norðurskautsárinu eftir og minntist í því sambandi á tillögu Rússa um alþjóðlegan norðurskautsáratug, sem hann taldi að nyti stuðnings innan vísindasamfélagsins. Þá kynnti Hik samvinnu sem nú á sér stað milli vísindanefndar um Suðurskautslandið (e. Scientific Committee on Antarctic Research, SCAR) og Alþjóðanorðurskautsvísindaráðsins.
    Clifford Lincoln, fyrrverandi formaður nefndarinnar, óskaði eftir að ávarpa fundinn. Lagði hann til að boðað yrði til fundar um norðurskautsmál í Kanada á næsta ári til að undirbúa lokaráðstefnu alþjóðlega norðurskautsársins í Montreal 2012 og lýsti yfir að hann hefði þegar yfir að ráða fé sem staðið gæti undir hluta af fjármögnun slíks fundar. Boðið yrði helstu sérfræðingum á sviði norðurskautsmála í þeim tilgangi að ræða þau 2–3 mál sem mikilvægust yrðu í umræðunni á næstu árum og álykta um þau.
    Fékk tillaga Lincolns jákvæðar undirtektir á fundinum, m.a. af hálfu Þórunnar Sveinbjarnardóttur, sem lagði þó áherslu á að setja yrði fundinum mjög afmarkaðan ramma til að hann yrði ekki of almenns eðlis. Sænski þingmaðurinn Ann-Kristine Johansson lýsti yfir stuðningi við tillöguna og Marion Pedersen, áheyrnarfulltrúi Norðurlandaráðs, taldi að ráðið gæti ef til vill útvegað fjármagn til að standa undir hluta af kostnaði við slíkan fund.
    Igor Chernyshenko, annar fulltrúa Rússa, tók til máls og lagði til að fjármunum yrði þegar veitt til undirbúnings alþjóðlegs norðurskautsáratugar. Einnig taldi hann nauðsynlegt að ný stofnun á sviði norðurskautsmála yrði sett á fót og henni falið að samræma starf allra stofnana á sviði norðurskautsmála. Þá tók Morten Høglund, fulltrúi Noregs, undir mikilvægi þess að efla alþjóðlegt vísindasamstarf og taldi að taka þyrfti á þeim vandamálum sem standa í vegi fyrir nemendaskiptum á sviði norðurskautsvísinda.
    Því næst ávarpaði Jose Kusugak, starfandi forseti Nunavut Tunngavik félagsins, fundinn og kynnti samning félagsins við Kanadastjórn um land á svæðum inúíta, en félagið heldur utan um réttindi þeirra um það bil 26 þúsund inúíta frá Nunavut-héraði sem réttindi eiga samkvæmt samningnum. Er samningurinn einn sá yfirgripsmesti sem gerður hefur verið í þessa veru á norðurskautinu.
    Fundurinn var sá næstsíðasti sem Hannes Manninen verður í forsæti fyrir, en hann hefur lýst því yfir að hann muni draga sig í hlé frá finnska þinginu í apríl 2011. Fyrir fundinum lá tillaga um að Morten Høglund frá Noregi yrði kjörinn næsti formaður nefndarinnar og var hún samþykkt einróma. Þá var í fyrsta sinn kjörið í nýtt embætti varaformanns og varð Juliane Henningsen frá Danmörku fyrir valinu í það hlutverk í samræmi við tillögu formanns.
    Í tengslum við formannskjörið lagði Þórunn Sveinbjarnardóttir þó þunga áherslu á að hafinn yrði undirbúningur að því að koma á kerfi þar sem formennskan færðist milli aðildarríkjanna með reglulegu millibili. Hlaut málflutningur Þórunnar talsverðar undirtektir og lýstu m.a. Chernyshenko sem og Pat the Cope Gallagher frá Evrópuþinginu sig hlynnta innleiðingu slíks kerfis. Komu fram óskir um að nefndin ynni drög að fyrirkomulagi fyrir næsta fund sinn í Tromsø.
    Hvað áætlaðan fund nefndarinnar á Íslandi vorið 2011 varðar lagði Þórunn Sveinbjarnardóttir til að hann yrði haldinn dagana 9.–10. júní, og samþykkti nefndin þær dagsetningar.
    Ólína Þorvarðardóttir, sem sótti fundinn sem forseti Vestnorræna ráðsins, sagði fundinum frá þemaráðstefnu ráðsins um fiskveiðistjórnarkerfi, sem haldin var í júní 2010, þar sem meðal annars var hvatt til aukinnar samvinnu ríkja um stjórn veiða úr sameiginlegum fiskstofnum. Þá minnti hún á að Vestnorræna ráðið hefði beitt sér fyrir aukinni samvinnu norðurskautsríkjanna á sviði björgunar á sjó og lýsti yfir ánægju með að á vettvangi Norðurskautsráðsins væri nú bindandi samningur þar að lútandi í sjónmáli.

Alþingi, 8. mars 2011.



Þórunn Sveinbjarnardóttir,


varaform.


Kristján Þór Júlíusson.


Margrét Tryggvadóttir.