Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 119. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 974  —  119. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá utanríkismálanefnd.


    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Bergþór Magnússon frá utanríkisráðuneyti og Glóeyju Finnsdóttur frá umhverfisráðuneyti. Utanríkismálanefnd óskaði álits umhverfisnefndar á tillögunni og er álit nefndarinnar birt sem fylgiskjal með nefndaráliti þessu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB. Sex mánaða frestur, samkvæmt EES-samningnum, til að aflétta stjórnskipulegum fyrirvara var veittur til 5. ágúst 2009. Framsetning tillögunnar telst að mati nefndarinnar í samræmi við 4. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála frá 1. október 2010.
    Markmið tilskipunarinnar er að setja reglur um meðhöndlun úrgangs frá jarðefnavinnslu, við meðferð og geymslu á steinum og steinefnum og frá námuvinnslu. Einnig fjallar tilskipunin um gerð úrgangsáætlana, starfsleyfi, fjárhagslega ábyrgð og fleira. Tilskipunin gildir ekki um annan úrgang en þann sem stafar beint af námuvinnslunni né heldur um úrgang frá námuvinnslu á hafsbotni. Óvirkur og ómengaður úrgangur er einnig undanþeginn nokkrum ákvæðum hennar, m.a. ákvæðum um leyfisskyldu, upplýsingar til almennings og fjárhagslega ábyrgð.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu námuúrgangsstaðir hafa starfsleyfi og verða undir eftirliti stjórnvalda, sem halda einnig skrá yfir úrgangsstöðvar fyrir námuúrgang sem hefur verið lokað. Sú regla gildir að úrgang frá námuiðnaði skal meðhöndla á þann hátt að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi. Framkvæmdaraðili eða sá sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skal sjá til þess að áhrif úrgangs séu sem minnst á umhverfi og heilsu manna, einnig eftir lokun námunnar, og að meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði byggist á bestu fáanlegu tækni. Hanna skal námu eða úrgangsstöð með tilliti til hættunnar svo hægt sé að fyrirbyggja umhverfisslys.
    Almenningur skal upplýstur um hvaða staðir hafa sótt um leyfi til urðunar/geymslu á námuúrgangi og um viðbragðsáætlanir vegna mengunarhættu. Þá skal almenningur hafa möguleika á að gera athugasemdir.
    Samkvæmt tilskipuninni skulu námuúrgangsstaðir sem þurfa starfsleyfi og eru starfandi 1. maí 2008 uppfylla skilyrði hennar fyrir 1. maí 2012.
    Innleiðing tilskipunarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi og fjallar frumvarp umhverfisráðherra um breytingu á lögum um meðhöndlun úrgangs, nr. 55/2003, með síðari breytingum (186. mál, þskj. 203) að hluta til um það efni. Frumvarpið er nú til meðferðar í umhverfisnefnd.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Birgitta Jónsdóttir og Valgerður Bjarnadóttir voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Álfheiður Ingadóttir.


Bjarni Benediktsson.



Helgi Hjörvar.


Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.



Þórunn Sveinbjarnardóttir.




Fylgiskjal.


Álit


um till. til þál. um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

Frá umhverfisnefnd.


    Nefndin hefur að beiðni utanríkismálanefndar, dags. 17. nóvember 2010, tekið til umfjöllunar tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009 um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn (119. mál).
    Samkvæmt 21. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, er samþykki Alþingis áskilið ef samningur felur í sér afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef hann horfir til breytinga á stjórnarhögum ríkisins. Síðarnefnda atriðið hefur verið túlkað svo að samþykki Alþingis sé áskilið ef gerð þjóðréttarsamnings eða breyting á honum kallar á lagabreytingar hér á landi.
    Með þingsályktunartillögunni er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 18/2009, frá 5. febrúar 2009, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2006/21/EB um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og breytingu á tilskipun 2004/35/EB.
    Markmið með tilskipun 2006/21/EB er að setja reglur um meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði og fjallar hún einnig um gerð úrgangsáætlana, starfsleyfi, fjárhagslega ábyrgð og fleira. Einnig breytir gerðin tilskipun 2004/35/EB um umhverfisábyrgð þannig að námuiðnaði er bætt inn í viðauka III í þeirri tilskipun. Tilskipun 2006/21/EB gildir ekki um annan úrgang en þann sem stafar beint af námuvinnslu né heldur um úrgang frá námuvinnslu af landi (hafsbotni). Almennt gildir að úrgang frá námuiðnaði skal meðhöndla á þann hátt að hann hafi ekki skaðleg áhrif á heilsu manna og umhverfi. Framkvæmdaraðili eða sá sem ber ábyrgð á meðhöndlun úrgangs frá námuiðnaði skal sjá til þess að áhrif úrgangs frá námuiðnaði byggist á bestu fáanlegu tækni, skylt er að gera úrgangsáætlun sem miðar að því að lágmarka úrgang og ákveða meðhöndlun, endurnýtingu eða förgun á námuúrgangi og hafa skal sjálfbærni í huga við áætlanagerð. Tilskipunin gerir einnig þær kröfur að almenningur skuli vera upplýstur um hvar hefur verið sótt um leyfi til urðunar eða geymslu námuúrgangs og hafi möguleika á að gera athugasemdir. Jafnframt eru sett ýmis önnur ákvæði varðandi námuúrgangsstaði, t.d. ákvæði um flokkun þeirra, hönnun, að stjórnun sé í höndum þjálfaðra aðila, ákvæði um eftirlit með starfseminni, lokun og vöktun eftir lokun.
    Vegna innleiðingar gerðarinnar þarf að breyta lögum nr. 55/2003, um meðhöndlun úrgangs. Setja þarf inn ákvæði m.a. um að framkvæmdaraðilar skuli gera úrgangsáætlanir og skilgreina nánar hvenær námur þar sem úrgangur er meðhöndlaður eru flokkaðar sem urðunarstaðir. Í kjölfar lagabreytinga þarf að setja nýja reglugerð um úrgang frá námuiðnaði eða breyta reglugerð um meðhöndlun úrgangs. Einnig þarf að breyta fylgiskjali I í lögum um hollustuhætti og mengunarvarnir, nr. 7/1998, þannig að námuúrgangsstaðir séu þar tilgreindir.
    Við umfjöllun nefndarinnar kom í ljós að engin starfsemi á Íslandi fellur undir gildissvið tilskipunarinnar. Hins vegar telur nefndin mikilvægt að reglur þær er fram koma í tilskipuninni séu til staðar ef upp koma þær aðstæður í framtíðinni að starfsemi sem fellur undir gildissviðið hefst hér á landi.
    Nefndin hefur fjallað um málið og tekið afstöðu til þingsályktunartillögunnar. Er niðurstaða nefndarinnar að leggja til að utanríkismálanefnd samþykki tillöguna án breytinga.

Alþingi, 10. des. 2010.

Mörður Árnason, form.,
Ólína Þorvarðardóttir,
Birgir Ármannsson,
Álfheiður Ingadóttir,
Vigdís Hauksdóttir,
Skúli Helgason.