Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 136. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 994  —  136. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um fjarskipti, nr. 81/2003, með síðari breytingum.

Frá samgöngunefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Sigurberg Björnsson og Maríu Rún Bjarnadóttur frá innanríkisráðuneytinu, Róbert Bragason og Sigfús Björnsson frá IMC Íslandi ehf., Auði Ingu Ingvarsdóttur frá Skiptum hf., Dóru Sif Tynes, Guðjón Bjarna Hálfdánarson og Hrannar Pétursson frá Og fjarskiptum ehf., Hrafnkel V. Gíslason, Þorleif Jónasson og Björn Geirsson frá Póst- og fjarskiptastofnun. Umsagnir bárust frá IMC Íslandi ehf., Isavia ohf., Póst og fjarskiptastofnun, Skiptum hf., fjarskiptaráði slysavarnafélagsins Landsbjargar og Og fjarskiptum ehf.
    Með frumvarpinu er áætlað að gera breytingar á ýmsum ákvæðum fjarskiptalaga. Í almennum athugasemdum með frumvarpinu segir að svo að Ísland megi vera í fremstu röð tæknivæddra ríkja með aðgengilega, hagkvæma og örugga fjarskiptaþjónustu sé nauðsynlegt að tryggja að íslenskt lagaumhverfi fylgi eftir þeirri hröðu tækniþróun og öru breytingum sem eru helsta einkenni fjarskiptamarkaðarins. Þeim breytingum sem ætlunin er að leiða í lög með frumvarpinu má skipta í þrjá hluta. Í fyrsta lagi er áætlað að gera breytingar á fjarskiptaáætlun með það að markmiði að samræma áætlanagerð innan innanríkisráðuneytisins, sem og að samræma hana við aðra áætlanagerð hins opinbera. Í öðru lagi er áætlað að gera breytingar á reglum um stjórnum á úthlutun tíðna í þeim tilgangi að auka hagkvæmni og skilvirkni stjórnunar tíðnimála. Í þriðja og síðasta lagi er áætlað að einfalda stjórnsýslu er varðar fjarskiptabúnað og koma í veg fyrir réttaróvissu á því sviði og bæta við nýmælum í þágu almannahagsmuna.
    Nefndin tók málið til umfjöllunar á haustþingi. Í nóvember og desember 2010 fékk nefndin kynningu á málinu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, tók á móti gestum og ræddi málið. Þegar líða tók að jólum lá ljóst fyrir að nefndinni tækist ekki að ljúka umfjöllun um málið fyrir jólahlé Alþingis. Brugðu þá nokkrir nefndarmanna á það ráð að flytja frumvarp til breytinga á fjarskiptalögum (394. mál) í þeim tilgangi að tryggja að ríkissjóður yrði ekki af tekjum þar sem frumvarp það sem hér er rætt um yrði ekki að lögum fyrir áramót en gera nefndinni á sama tíma fært að fjalla betur um málið að jólahléi loknu. Frumvarpið sem nefndarmennirnir fluttu varð að lögum nr. 146/2010 með samþykkt þess á Alþingi 18. desember 2010.
    Í umsögnum sem og í máli gesta á fundum nefndarinnar komu fram ýmis sjónarmið sem nefndin tók til skoðunar og íhugaði við meðferð málsins. Nokkur sjónarmið og athugasemdir tók nefndin til sérstakrar skoðunar.

Heildarsamræmi Evrópugerða o.fl.
    Fram kom sú gagnrýni að frumvarpið fæli í sér innleiðingu á Evrópugerðum sem ekki væru orðnar hluti samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Þó væru téðar gerðir ekki innleiddar í heild heldur væru einstaka ákvæði þeirra tekin út en öðrum sleppt og af þeim sökum væri hætta á að heildarsamræmi gerðanna glataðist, áherslur þeirra skekktust og markmið þeirra næðu ekki fram að ganga. Þá kom fram sú skoðun að ýmis ákvæði frumvarpsins stönguðust á við gildandi EES-rétt. Á móti var nefnt að sú Evrópugerð sem einkum hafi verið litið til við samningu frumvarpsins sé ekki heildstæð löggjöf heldur breytingagerð sem breytir núgildandi reglum á ýmsum stöðum í regluverkinu. Engu að síður sé mikilvægt að taka tillit til nýrra ákvæða í regluverki sambandsins sem varða slík atriði en að öðrum kosti fáist ekki samræmi við þróun evrópskra reglna. Sérstaklega hafi verið gætt að því að taka heildstætt tillit til umhverfis tíðnimála í öllum nýjum Evrópugerðum sem um málið fjalla, m.a. við útfærslu 3. gr. frumvarpsins þar sem sérstaklega er tekið fram að við töku ákvarðana skuli m.a. tekið tillit til hvata og áhættu við fjárfestingar. Þá var tekið fram að leitað hefði verið óformlegs álits ESA, eftirlitsstofnunar EFTA, og í framhaldinu hefðu öll ákvæði er stönguðust á við gildandi EES-rétt verið felld úr frumvarpinu á vinnslustigi þess. Að síðustu kom fram að tíðar breytingar á fjarskiptalögum orsökuðust m.a. af breytingum á regluverki vegna svokallaðs alþjónustugjalds og rekstrargjalds Póst- og fjarskiptastofnunar sem ætluð væru til þess að standa straum af kostnaði við alþjónustukvöð annars vegar og rekstur stofnunarinnar hins vegar. Gjöldin eru endurskoðuð árlega og stundum leiðir það til lagabreytinga.
    Að mati nefndarinnar mætast hér gagnstæð sjónarmið. Annars vegar sjónarmið um að haga beri innleiðingu Evrópugerða þannig að tryggt sé að þær fari ekki gegn þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands og að slíkri innleiðingu beri að haga á þann veg að tryggt sé að íslenska ríkið glati ekki rétti í því ferli að óskoðuðu máli. Hins vegar sjónarmið um að taka verði tillit til örrar þróunar og tækniframfara á sviði fjarskiptamála enda leiði þær stundum til þess að knýjandi verður að uppfæra löggjöf á sviði fjarskiptamála. Þannig verði ekki hjá því litið að nauðsynlegt kunni að vera að tryggja tæknilega getu og hagræðingu fjarskiptafyrirtækja með lagasetningu þegar tilefni verður til.
    Nefndin bendir á að samkvæmt reglum Alþingis um þinglega meðferð EES-mála er gert ráð fyrir aðkomu þingsins að upptöku Evrópugerða í EES-samninginn. Hefur aðkoman þann tilgang helstan að tryggja yfirsýn Alþingis yfir ákvæði EES-samningsins. Þá fjallar Alþingi um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara skv. 103. gr. EES-samningsins. Rétt er einnig að vekja athygli á að í ályktunum rannsóknarnefndar Alþingis um fall íslensku bankanna 2008 kemur m.a. fram að stefnumörkun Alþingis við innleiðingu Evrópugerða geti haft veruleg áhrif á aðstæður atvinnurekstar innanlands sem aftur kunni að hafa áhrif á stöðu íslenska ríkisins. Á fundi nefndarinnar kom fram að verulegar líkur væru á að svonefndur fjarskiptapakki ESB verði hluti af EES-samningnum innan tíðar. Þegar til þess kemur mun Alþingi þurfa að fjalla um og taka afstöðu til innleiðingar margra reglna úr honum í íslensk lög. Nokkrar reglna frumvarpsins eiga rót sína að rekja til framangreinds fjarskiptapakka.
    Að öllu framangreindu sögðu er það álit nefndarinnar að ekki verði hjá því komist að gera breytingar á frumvarpinu. Þó vekur nefndin athygli á því að aðeins stjórnarskrá, stjórnskipunarvenjur og meginreglur stjórnskipunarréttar setja löggjafanum beinar skorður við efnislega útfærslu laga. Meðal annars er almennt viðurkennt að kenningin um tvíeðli þjóðaréttar og landsréttar hafi rótfestu í íslenskri stjórnskipun. Af þeim sökum er mat á þörf innleiðingar erlendra reglna í innlend lög ávallt í höndum þingsins. Vera kann að nauðsyn krefji að innleiða slíkar reglur í innlend lög. Kann slíkt að eiga sérstaklega vel við þegar um sérlöggjöf er að ræða sem byggist á sérfræðilegum grunni.
    Tillögur nefndarinnar um breytingar fela að meginstefnu í sér brottfellingu þeirra ákvæða sem í raun fela í sér beina innleiðingu ákvæða Evrópugerða sem ekki eru þegar orðnar hluti EES-samningsins. Þess er þó gætt við framsetningu tillagnanna að heildarsamhengi fjarskiptalaga verði ekki skert og markmiðum frumvarpsins verði náð eftir því sem fært er í þessu ljósi. Nefndin leggur til breytingar á 1., 2., 4., 6. og 7. gr. frumvarpsins.
    
Stjórnarskrárvernd tíðniréttinda.
    Í umsögnum kom fram sú skoðun að hvort sem tíðnir teljast til beinna eða óbeinna eignaréttinda væri ljóst að skerðing á tíðniréttindum fæli í sér skerðingu á lögvörðum hagsmunum sem valdið gæti tíðnihöfum tjóni. Þá kom fram það álit að ekki yrði með einfaldri lagaheimild komist hjá rétti til bóta þegar um skerðingu á stjórnarskrárvörðum réttindum væri að ræða. Fyrir nefndinni kom á móti fram að ekki væri að fullu ljóst að sjónarmið umsagnaraðila gætu talist réttmæt. Var í þessu samhengi sérstaklega vísað til niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur frá 27. september 2001 í máli dómstólsins nr. 11139/2009 (Míla ehf. gegn íslenska ríkinu). Í því máli krafðist Míla ehf. þess að viðurkennd yrði skaðabótaskylda íslenska ríkisins vegna afturköllunar Póst- og fjarskiptastofnunar á tíðniréttindum Mílu ehf. Var kröfugerðin reist á því að ákvörðun Póst- og fjarkskiptastofnunar hefði verið ólögmæt og að tjón Mílu ehf. væri jafnvirði þess kostnaðar sem fyrirtækið þurfti að leggja út í til þess að bregðast við henni. Dómstólinn benti á að til þess að bótaskylda ríkisins yrði viðurkennd þyrfti Míla að sýna fram að tjónið mætti rekja til ákvörðunar stofnunarinnar. Í forsendum dómsins kemur fram að löggjafinn hafi tekið afstöðu til breytinga á tilteknu tíðnisviði svo að nýrri fjarskiptatækni yrði komið að og að slíkt hafi ekki dulist Mílu. Af þeim sökum leit dómurinn svo á að um eðlilegan kostnað væri að ræða sem fylgdi óhjákvæmilegum breytingum og tæknilegri þróun sem íslenska ríkið gæti ekki borið skaðabótaábyrgð á gagnvart Mílu ehf.
    Það er mat nefndarinnar að þrátt fyrir að tíðniréttindi teljist til tímabundinna hagnýtingarréttinda og tíðnihafar njóti þannig ákveðins einkaforræðis yfir þeim, þá komi eignaréttarákvæði stjórnarskrárinnar ekki í veg fyrir að Alþingi beiti löggjafarvaldinu þeim til takmörkunar. Alþingi hefur frelsi til að hlutast til um fyrirkomulag slíkra réttinda að því tilskildu að jafnræðis og meðalhófs sé gætt. Nefndin telur óumdeilt að ætlunin með frumvarpinu er að festa í lög heimildir til skerðingar tíðniréttinda þegar slíkt getur talist málefnalegt enda eru stjórnvöld við töku ákvarðana ávallt bundin af lágmarksreglum stjórnsýslulaga og meginreglum stjórnsýsluréttar. Í ljósi þess fordæmis sem fyrir liggur og birtist í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur álítur nefndin að útfærsla frumvarpsins sé ekki í andstöðu við ákvæði stjórnarskrár. Þá áréttar nefndin að sú skylda hvíli á Póst- og fjarskiptastofnun að byggja ákvarðanir sínar á málefnalegum sjónarmiðum.

Lögmæti íþyngjandi ákvarðana.
    Í umsögnum kom fram sú athugasemd við ákvæði 6. gr. frumvarpsins að það færi í bága við lögmætisreglu stjórnsýsluréttar, þ.e. þá meginreglu að íþyngjandi stjórnvaldsákvarðanir verði að eiga sér skýra lagastoð. Bent var á að alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að verði að lögfesta í landsrétt til þess að þær hafi réttaráhrif gagnvart borgurunum. Á móti hefur komið fram að augljóst megi telja að breytingar á tækni hérlendis eigi sér yfirleitt aðdraganda í breyttri notkun tíðnisviða á alþjóðavísu. Markmið fjarskiptalaga er m.a. að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti hér á landi og efla virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.
    Nefndin telur að þær kröfur sem lögmætisregla stjórnsýsluréttar gerir til skýrleika lagaheimilda hljóti að taka mið af markmiði þeirra laga sem undir eru hverju sinni. Sé litið til forsendna framangreinds dóms Héraðsdóms Reykjavíkur í máli Mílu ehf. gegn íslenska ríkinu má sjá að dómstóllinn virðist einmitt telja löggjafann hafa ákveðið svigrúm til þess að bregðast við breytingum á tækni þegar þær stafa frá alþjóðlegum samþykktum. Nefndin áréttar á ný að ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar verða að byggjast á málefnalegum sjónarmiðum.

Stjórnvaldsfyrirmæli – framsal lagasetningarvalds.
    Að mati eins umsagnaraðila brýtur ákvæði 7. gr. frumvarpsins í bága við meginregluna um að innleiða beri þjóðréttarlegar skuldbindingar í landsrétt eigi þær að hafa réttaráhrif gagnvart borgurunum. Hann telur að ekki fáist staðist að Póst- og fjarskiptastofnun verði með lagaheimild fengið vald til þess að ákveða að ákvarðanir alþjóðastofnana verði bindandi hér á landi.
    Nefndin bendir á að framangreind meginregla byggist á kenningunni um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar. Póst- og fjarskiptastofnun verður, a.m.k. hvað tíðnimál varðar, að teljast verulega sérhæfð stofnun. Viðurkennt er að löggjafanum sé heimilt að framselja vald sitt til reglusetningar, m.a. þannig að kveðið sé á um útfærslu með stjórnvaldsfyrirmælum. Í þeim tilvikum þegar setja á reglur og við reglusetninguna reynir ekki á pólitískt mat hefur slíkt framsalt verið talið réttlætanlegt. Með því móti hefur verið talið að sérþekking á sérfræðilegum efnum nýtist betur. Í því ljósi má benda á að nefnt hefur verið að fullkomlega óraunhæft sé að innleiða allar tæknilegar alþjóðagerðir sem lúta að skipulagi tíðnirófsins og því sé nauðsynlegt að málum sé komið við á þann máta sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá bendir nefndin á að ætlunin er að afmarka þann ramma sem Póst- og fjarskiptastofnun er ætlaður til ákvarðanatöku með því að heimild hennar nái aðeins til gerða er varða skipulag og nýtingu tíðnirófsins en ekki annarra þátta. Einnig kveður ákvæðið aðeins á um heimild stofnunarinnar til að taka ákvarðanir um bindandi gildi alþjóðagerða og verður því vart annað talið en að frelsi stofnunarinnar til mats á grundvelli tæknilegra þarfa í samræmi við markmið fjarskiptalaga geri það að verkum að ekki er til staðar raunverulega hætta á að farið sé í bága við kenninguna um tvíeðli landsréttar og þjóðaréttar.

Jafnræði aðila við úthlutun tíðnisviða – ákvæði til bráðabirgða.
    Sú athugasemd kom fram í umsögn um málið að samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu væri gert ráð fyrir að ákveðin fyrirtæki sem þurfi að fá tíðniheimildum sínum endurúthlutað á næsta ári greiði á ný eins konar auðlindagjald af því tilefni. Bent var á að slíkt væri í ósamræmi við þá framkvæmd sem tíðkast hefði við nýlegar tíðniúthlutanir þar sem ekkert slíkt gjald hefði verið tekið. Umsagnaraðilinn taldi slíka gjaldtöku því ekki vera í samræmi við kröfur stjórnarskrárinnar um jafnræði í lagasetningu. Á móti var á það bent að úthlutun tíðniheimildar til símafyrirtækis á síðasta ári án gjaldtöku hafi verið almenn og í þeim málefnalega tilgangi að jafna samkeppnisstöðu þess fyrirtækis gagnvart keppinautum á markaði. Sama fyrirtæki hafi áður greitt umtalsvert gjald fyrir heimild til að veita svokallaða UMTS-farsímaþjónustu á meðan aðrir aðilar hafi fengið úthlutað öðrum tíðnisviðum án gjaldtöku og hafi þá verið litið til þess að um eflingu og þéttingu á útbreiðslu væri að ræða.
    Það er álit nefndarinnar að þegar litið er til markmiðsákvæða fjarskiptalaga verði að telja það málefnalegt, m.a. að teknu tilliti til samkeppnislegra sjónarmiða, að innheimta það gjald sem áætlað er á grundvelli bráðabirgðaákvæðis frumvarpsins.
    Eins og fram hefur komið fluttu nokkrir nefndarmanna frumvarp á haustþingi sem varð að lögum nr. 146/2010. Lögin fela í sér að gjaldtökuheimild var bætt við fjarskiptalög með bráðabirgðaákvæði. Er framangreint bráðabirgðaákvæði nær samhljóða ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu. Af þeim sökum leggur nefndin til breytingar á frumvarpinu þar sem þegar er kveðið á um slíka gjaldtökuheimild í núgildandi fjarskiptalögum.

Samspil ákvæða o.fl.
    Meðal umsagnaraðila kom fram sú skoðun að tiltekin ákvæði frumvarpsins væru í mótsögn hvort við annað. Þannig væri lagt til í a-lið 4. gr. frumvarpsins að Póst- og fjarskiptastofnun verði gert fært að setja þau skilyrði fyrir notkun tíðna að úthlutun þeirra taki aðeins til ákveðinnar þjónustu eða tækni ásamt útbreiðslu- og gæðakröfum þegar við á. Á sama tíma geri 7. gr. frumvarpsins m.a. ráð fyrir að ekki skuli binda notkun tíðna við ákveðna tækni nema það sé nauðsynlegt í ýmsum nánar tilgreindum tilgangi en einnig að ekki skuli binda notkun tíðna við ákveðna þjónustu nema þörf sé á því til að uppfylla almenn markmið stjórnvalda eða til að tryggja samræmi við alþjóðlegar samþykktir sem Ísland er aðili að. Á móti var nefnt að tilvitnuð ákvæði væru í raun og veru ekki í mótsögn hvort við annað, enda væri þeirri reglu sem vísað væri til í 7. gr. frumvarpsins ekki ætlað að vera án undantekninga. Þannig væri stefnt að því að tæknilegt hlutleysi verði meginregla laganna en eftir sem áður gert ráð fyrir að hægt verði að binda tiltekin tíðnisvið við ákveðna tegund þjónustu, sé talin sérstök þörf á því.

Ópöruð tíðnibönd.
    Sú gagnrýni kom fram á frumvarpið að í bráðabirgðaákvæði væri ekki minnst á ópöruð tíðnibönd en aðeins kveðið á um pöruð bönd. Viðkomandi töldu að með því skapaðist hætta á að framgangur nýrrar tækni sem vinnur með ópöruðum vinnsluhætti yrði heftur á gildistíma ákvæðisins. Á móti var á það bent að frumvarpinu væri ekki ætlað að útiloka að Póst- og fjarskiptastofnun gæti úthlutað tíðnum óparað enda kæmi það beinlínis fram í orðalagi bráðabirgðaákvæðisins að tekið yrði gjald fyrir hvert úthlutað megarið af tíðnisviði. Þá væri tafla í greinargerð frumvarpsins sett upp í dæmaskyni en hún taki mið af þeirri staðreynd að algengast sé að tíðnir séu paraðar saman. Var sérstaklega tekið fram að sú tafla væri eingöngu til leiðbeiningar og að hún komi ekki til með að binda hendur stofnunarinnar við úthlutan á stökum tíðnum.

Samskiptaáætlun.
    Að auki gerðu einstakir nefndarmenn athugasemdir við hugtaka- og orðanotkun í frumvarpinu. Þannig var bent á að orðið „samskiptaáætlun“ væri í raun ekki fyllilega lýsandi fyrir þá stefnumarkandi áætlun sem ráðherra væri ætlað að leggja fram. Þess væri getið í 1. gr. frumvarpsins að í slíkri áætlun skyldi gera grein fyrir ástandi og horfum og meta þarfir samfélagsins varðandi fjarskipti. Þá væri ráðherra heimilt að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
    Skilningur nefndarinnar er sá að orðið fjarskipti eins og það er notað í fjarskiptalögum taki til aðferða sem viðhafa má í þeim tilgangi að eiga samskipti. Þannig megi segja að fjarskipti verði vart viðhöfð nema samskipti eigi sér stað en samskipti geti átt sér stað þrátt fyrir að fjarskipti komi þar ekki við sögu. Slíkt hlýtur enda stoð í orðskýringu 16. tölul. 3. gr. fjarskiptalaga þar sem orðið fjarskipti er skilgreint sem hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum, með þráðlausri útbreiðslu eða öðrum rafsegulkerfum. Má af lestri frumvarpsins sjá að tilgangur frumvarpshöfunda er ekki að gera orwellska áætlun um samskipti manna á milli heldur áætlun um uppbyggingu, öryggi og nýtingu fjarskiptakerfa sem ættu að auka tíðni og magn jafnvel hreinskiptnustu samskipta manna á milli. Nefndin leggur til breytingar á kaflaheiti I. kafla og 1. gr. frumvarpsins í þeim tilgangi að ráða bót á framangreindum krankleika.

    Í ljósi framangreindrar umfjöllunar leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      1. gr. orðist svo:
                  3.–5. mgr. 2. gr. laganna orðast svo:
                  Ráðherra leggur á fjögurra ára fresti fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um fjarskiptaáætlun þar sem mörkuð skal stefna fyrir næstu tólf árin. Í fjarskiptaáætlun skal gera grein fyrir ástandi og horfum hvað varðar fjarskipti í landinu, og meta og taka tillit til þarfa samfélagsins fyrir bætt fjarskipti. Skilgreina skal markmið stjórnvalda sem stefna ber að og þannig leggja grunn að framþróun íslensks samfélags. Markmiðin skulu stuðla að aðgengilegum og greiðum, hagkvæmum og skilvirkum, öruggum og umhverfisvænum fjarskiptum. Heimilt skal í fjarskiptaáætlun að skoða fjarskipti heildstætt í tengslum við aðra þætti samskipta, svo sem rafræn samskipti og samskipti sem byggjast á póstþjónustu.
                  Í fjarskiptaáætlun skal leggja áherslu á að:
              1.      ná fram víðtæku samstarfi markaðarins, neytenda, opinberra stofnana og ráðuneyta um stefnumótun er varðar fjarskipti og skyld svið,
              2.      styrkja samkeppni á fjarskiptamarkaði og auka samkeppnishæfni Íslands,
              3.      tryggja öryggi almennra fjarskiptaneta innan lands og tengingar Íslands við umheiminn,
              4.      ná fram hagkvæmri notkun fjármagns og hámarka jákvæð áhrif fjarskiptatækni á hagvöxt,
              5.      ná fram samræmdri forgangsröðun og stefnumótun, og skal forgangsröðun byggjast á mati á þörf fyrir úrbætur á landinu í heild og í einstökum landshlutum,
              6.      stuðla að atvinnuuppbyggingu, eflingu lífsgæða og jákvæðri byggðaþróun.
                  Í fjarskiptaáætlun skal jafnframt mörkuð aðgerðaáætlun til næstu fjögurra ára, og leggur ráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um slíka áætlun. Aðgerðaáætlun skal endurskoðuð á tveggja ára fresti og má þá leggja nýja þingsályktunartillögu fyrir Alþingi, en það skal gert eigi sjaldnar en á fjögurra ára fresti. Í fjögurra ára áætlun skal gera grein fyrir fjáröflun og útgjöldum eftir einstökum verkefnum eins og við á. Fjarskiptaáætlun og fjögurra ára áætlun hennar taka gildi þegar Alþingi hefur samþykkt þær sem þingsályktanir.
     2.      Fyrirsögn I. kafla verði: Fjarskiptaáætlun.
     3.      2. gr. orðist svo:
                   Eftirfarandi breytingar verða á 7. gr. laganna:
                  a.      Á undan 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Fjarskiptatíðnir innan íslensks yfirráðasvæðis og númer úr íslenska númeraskipulaginu eru auðlindir undir stjórn íslenska ríkisins. Úthlutun á tíðnum og númerum felur í sér tímabundna heimild til skilyrtra afnota sem hvorki leiðir til eignarréttar né varanlegs nýtingar- og ráðstöfunarréttar.
                  b.      Á eftir 1. mgr. kemur ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Póst- og fjarskiptastofnun skal birta opinberlega upplýsingar um öll réttindi til notkunar á tíðnum og númerum og rétthafa þeirra. Tíðniheimildir sem veittar eru til eigin nota má undanskilja birtingu, svo og upplýsingar um tíðniheimildir sem sanngjarnt og eðlilegt er að leynt fari vegna mikilvægra öryggis-, fjárhags- eða viðskiptahagsmuna rétthafa.
     4.      4. gr. falli brott.
     5.      4. mgr. 6. gr. falli brott.
     6.      B-liður 7. gr. falli brott.
     7.      Ákvæði til bráðabirgða falli brott.
     8.      Í stað orðsins „samskiptaáætlun“ í fyrirsögn frumvarpsins komi: fjarskiptaáætlun.

    Ólína Þorvarðardóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 7. mars 2011.



Björn Valur Gíslason,


form., frsm.


Róbert Marshall.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.



Guðmundur Steingrímsson.


Árni Johnsen.


Lilja Rafney Magnúsdóttir.



Ásbjörn Óttarsson.


Mörður Árnason,


með fyrirvara.