Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 583. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Prentað upp.

Þskj. 996  —  583. mál.
Þingskjalsnúmer.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA fyrir árið 2010.

1. Inngangur.
    Fríverslunarsamtök Evrópu (EFTA) og Evrópska efnahagssvæðið (EES) gegna veigamiklu hlutverki sem grunnstoðir íslenskrar utanríkisverslunar. Með aðildinni að EES njóta Íslendingar að langmestu leyti sömu viðskiptakjara og 29 önnur Evrópuríki með um 500 milljóna manna markað. Auk þess að koma að rekstri EES-samningsins hefur EFTA byggt upp net fríverslunarsamninga við ríki utan ESB eða svonefnd þriðju ríki.
    Í starfsemi þingmannanefnda EFTA og EES árið 2010 voru tvö mál einkum í brennidepli. Annars vegar var ítrekað fjallað um alþjóðlegu fjármálakreppuna og viðbrögð við henni, og hins vegar um áframhaldandi gerð fríverslunarsamninga EFTA.
    Frá sjónarhóli Íslands var umfjöllun um alþjóðlegu fjármálakreppuna einkar mikilvæg. Umfjöllun um hana var hvort tveggja í senn almenn og sértæk þar sem athygli beindist að íslenska bankahruninu og afleiðingum þess. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Icesave-málsins. Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndarinnar, bæði er varða bráðabirgðaálit stofnunarinnar um Icesave og gildi neyðarlaganna sem sett voru við bankahrunið.
    Fríverslunarsamningagerð EFTA við ríki utan ESB, svonefnd þriðju ríki, var ofarlega á dagskrá þingmannanefndar EFTA. Stöðnun í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) hefur gert það að verkum að samtök ríkja og einstök lönd beint sjónum sínum að gerð tvíhliða fríverslunarsamninga. EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og eru gildir fríverslunarsamningar EFTA nú 22 talsins. Þingmannanefnd EFTA hefur á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna og beitir sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð slíkra samninga.
    Þá beitti Íslandsdeild sér fyrir því að málefni norðurslóða voru tekin á dagskrá þingmannanefndar EFTA í fyrsta skipti. Sérstök málstofa um norðurslóðamál, skipulögð af Íslandsdeild, var haldin í tengslum við fund þingmannanefndarinnar í Reykjavík í júní 2010.
    Af öðrum stórum málum sem tekin voru til umfjöllunar í þingmannanefndum EFTA og EES árið 2009 má nefna endurskoðun sjávarútvegsstefnu ESB, svæðasamvinnu innan EES, nýsköpun og EES og Evrópuár í baráttunni gegn fátækt.

2. Almennt um þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.
    Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA myndar sendinefnd Alþingis í bæði þingmannanefnd EFTA og þingmannanefnd EES.

Þingmannanefnd EFTA.
    Þingmannanefnd EFTA var stofnuð árið 1977 með það meginhlutverk að vera ráðgefandi fyrir ráðherraráð EFTA. Aðild að EFTA eiga nú Ísland, Noregur, Liechtenstein og Sviss. Þjóðkjörnir fulltrúar þessara ríkja sitja í þingmannanefndinni. Starfsemi nefndarinnar hefur aukist jafnt og þétt, í samræmi við aukin umsvif EFTA, bæði hvað varðar samskipti við ESB og samstarf við svokölluð þriðju ríki, þ.e. ríki utan ESB. Starfssvið nefndarinnar jókst til muna með tilkomu EES-samningsins sem tók gildi 1. janúar 1994. Með gildistöku hans varð nefndin að formi til tvískipt þar sem Svisslendingar ákváðu að standa fyrir utan Evrópska efnahagssvæðið. Nefndin skiptist því annars vegar í fjögur ríki sem aðild eiga að EFTA og hins vegar í þrjú aðildarríki EFTA sem aðild eiga að EES. Þingmannanefnd EFTA fundar þó ávallt í einu lagi, en Svisslendingar sitja sem áheyrnarfulltrúar þegar málefni sem varða EES- samninginn eru tekin fyrir. Í frásögnum af fundum hér á eftir verður fjallað um þessar tvær formlegu þingmannanefndir EFTA sem eina heild.
    Alþingi á fimm fulltrúa í þingmannanefnd EFTA líkt og önnur aðildarríki. Þingmannanefnd EFTA heldur fundi fjórum til fimm sinnum á ári og á tveimur fundum sínum á hún auk þess fund með ráðherraráði EFTA. Nefndin fjallar almennt um starfsemi EFTA, málefni EES og ESB, gerð og framkvæmd fríverslunarsamninga og viðskiptamál í víðu samhengi. Nefndin á einnig samstarf við þing þeirra ríkja sem EFTA hefur gert fríverslunar- eða samstarfssamninga við. Þessi þáttur í starfi EFTA vex stöðugt og eru fríverslunarsamningar nú umfangsmikill hluti starfssviðs EFTA.
    Framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA undirbýr starf nefndarinnar og gefur álit á fjárhagsáætlun Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), auk þess að fjalla um aðkallandi mál. Framkvæmdastjórnin kemur oft fram fyrir hönd þingmannanefndarinnar í samskiptum við þjóðþing þriðju ríkja. Í framkvæmdastjórn mega sitja tveir fulltrúar frá hverju EFTA-ríki en einungis annar þeirra hefur atkvæðisrétt á fundum. Auk formanns hefur af hálfu Íslandsdeildar einn fulltrúi stjórnarandstöðu sótt fundi framkvæmdastjórnarinnar.

Þingmannanefnd EES.
    Þingmannanefnd EES var komið á fót skv. 95. gr. EES-samningsins og er hluti af stofnanakerfi hans. Í þingmannanefnd EES eru 24 þingmenn, tólf frá Evrópuþinginu og tólf frá EFTA-ríkjunum sem aðild eiga að EES (EFTA-hluti sameiginlegrar þingmannanefndar EES). Af þessum tólf fulltrúum á Ísland fjóra, Noregur sex og Liechtenstein tvo. Þingmannanefndin fylgist með framkvæmd og þróun EES-samningsins og gefur álit sitt á EES-málum. Nefndin heldur fundi tvisvar á ári en framkvæmdastjórn hennar hittist á milli funda eftir þörfum. Í framkvæmdastjórninni sitja sex fulltrúar, einn frá hverju EES-aðildarríki EFTA og þrír frá Evrópuþinginu. EFTA-hluti hinnar sameiginlegu þingmannanefndar EES og Evrópuþingið skiptast á um formennsku í nefndinni á milli ára.
    Þingmannanefnd EES lætur til sín taka á öllum sviðum EES-samstarfsins. Hún tekur ákveðin málefni til skoðunar, skrifar um þau skýrslur og samþykkir ályktanir. Skýrslugerð um mál sem tekið er fyrir er í höndum tveggja framsögumanna, annars úr hópi EFTA-þingmanna og hins úr hópi Evrópuþingmanna. Skýrsla framsögumanna er alfarið á þeirra eigin ábyrgð en nefndin samþykkir venjulega ályktun þegar umfjöllun um málið er lokið. Ályktanir nefndarinnar eru sendar til ráðherraráðs EES, sameiginlegu EES-nefndarinnar, Evrópunefnda þjóðþinga ESB, Evrópuþingsins og þjóðþinga EFTA/EES-ríkja. Þingmannanefndin fylgist náið með því hvernig mál sem hún hefur tekið fyrir þróast og þegar hún telur að framvinda mála sé ófullnægjandi tekur hún þau upp aftur. Nefndin beinir einnig sjónum sínum sérstaklega að áhrifum þjóðþinga EFTA-ríkjanna á EES-samninginn og lagasetningu í tengslum við hann. Fulltrúar ráðherraráðs EFTA og embættismenn stofnana EFTA og ESB mæta á fundi nefndarinnar til að skýra frá framvindu mála og svara spurningum nefndarmanna.

3. Skipan Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA.
    Á árinu 2010 skipuðu Íslandsdeild Árni Þór Sigurðsson, formaður, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, þingflokki Samfylkingarinnar, Jónína Rós Guðmundsdóttir, þingflokki Samfylkingarinnar, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingflokki Framsóknarflokks, og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks. Varamenn voru Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, Björgvin G. Sigurðsson, þingflokki Samfylkingarinnar, Skúli Helgason, þingflokki Samfylkingarinnar, Vigdís Hauksdóttir, þingflokki Framsóknarflokks, og Guðlaugur Þór Þórðarson, þingflokki Sjálfstæðisflokks.
    Ritari Íslandsdeildar var Stígur Stefánsson, deildarstjóri alþjóðadeildar.

4. Starfsemi Íslandsdeildar.
    Íslandsdeild var venju samkvæmt mjög virk í starfi þingmannanefnda EFTA og EES á árinu og lét að sér kveða í öllum helstu málum sem komu til umræðu í nefndunum. Íslandsdeild hélt fjóra fundi á árinu. Þar var starfsemi Íslandsdeildar skipulögð og þátttaka í fundum þingmannanefnda EES og EFTA undirbúin.
    Formennska í þingmannanefnd EFTA færist árlega á milli ríkjanna fjögurra og féll Íslandi í skaut á árinu 2010. Árni Þór Sigurðsson var formaður nefndarinnar og þar með einnig annar tveggja formanna þingmannanefndar EES. Stýrði Árni Þór fundum nefndanna og hafði forustu um starf þeirra á árinu.
    Alþjóðlega fjármálakreppan og sér í lagi málefni Íslands henni tengd komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefnda EFTA og EES. Þingmenn Íslandsdeildar gerðu erlendum starfssystkinum grein fyrir stöðu endurreisnaráætlunar íslenskra stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þróun Icesave-máls. Viðbrögð Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA, við bankahruninu komu ítrekað til umræðu á vettvangi þingmannanefndarinnar, bæði er varða bráðabirgðaálit stofnunarinnar um gildi hinna svokölluðu neyðarlaga og bráðabirgðaálit varðandi Icesave-málið, lögmæti þess að gera upp á milli innstæðueigenda hérlendis og erlendis samkvæmt EES-samningnum og skyldur íslenskra stjórnvalda til að standa straum af lágmarkstryggingum til innstæðueigenda.
    Þá kom aðildarumsókn Íslands að Evrópusambandinu ítrekað til tals á fundum nefndanna og gerðu þingmenn Íslandsdeildar grein fyrir þróun umsóknarferlisins.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA í Reykjavík í júní gekkst Íslandsdeild fyrir sérstakri málstofu um norðurslóðamál. Efnistökin voru þríþætt. Í fyrsta lagi var sjónum beint að milliríkjasamstarfi um norðurslóðamál, einkum á vettvangi Norðurskautsráðsins, og stefnumótun Íslands á þessu sviði. Í öðru lagi var fjallað um hagkerfi norðurskautssvæðisins og möguleg tækifæri samfara aukinni auðlindanýtingu á norðurslóðum, einkum á sviði gas- og olíuvinnslu. Í því sambandi var einnig fjallað um nýjar skipaleiðir sem kunna að opnast við minnkun íshellunnar á norðurskautinu og álitamál því samfara. Í þriðja lagi var gerð grein fyrir aukinni samvinnu og áherslu fræðasamfélagsins á málefni svæðisins innan Háskóla norðurskautsins.

5. Fundir þingmannanefndar EFTA og þingmannanefndar EES á árinu 2010.
    Starfsemi nefndanna var með hefðbundnum hætti á árinu 2010. Þingmannanefnd EFTA kom saman til fundar þrisvar sinnum, þar af tvisvar í tengslum við fundi nefndarinnar með ráðherraráði EFTA. Enn fremur átti framkvæmdastjórn þingmannanefndar EFTA fundi með þingnefndum í þjóðþingum Albaníu og Serbíu í tengslum við fullgildingu fríverslunarsamninga EFTA við ríkin tvö.
    Þingmannanefnd EES kom að venju tvisvar saman til fundar á árinu. Fimm skýrslur voru teknar til umfjöllunar á fundum þingmannanefndar EES og ályktanir samþykktar á grundvelli þeirra.
    Hér á eftir er gerð grein fyrir fundum þingmannanefnda EFTA og EES á starfsárinu í tímaröð.

Fundur þingmannanefndar EFTA í Brussel 22.–23. febrúar 2010.
    Tveir fundir tengdir þingmannanefnd EFTA fóru fram í Brussel við þetta tækifæri. Annars vegar fundaði þingmannanefnd EFTA og hins vegar áttu norskir, færeyskir og íslenskir þingmenn hádegisverðarfund með hópi þingmanna úr sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Jónína Rós Guðmundsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á meðal dagskrármála fundarins voru pólitísk þróun í aðildarríkjunum, skýrsla nefndar Evrópuþingsins um innri markaðinn og neytendavernd um hindranir í vegi Sviss til fullrar þátttöku í innri markaðnum, staða í fríverslunarviðræðum EFTA við þriðju ríki, staða EFTA- dómstólsins eftir 16 ára starf og loks yfirstandandi endurskoðun á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.
    Í umræðum um stjórnmálaþróun í aðildarríkjunum greindi Árni Þór m.a. frá viðræðum íslenskra stjórnvalda við ríkisstjórnir Bretlands og Hollands um Icesave og þjóðaratkvæðagreiðslunni sem stóð fyrir dyrum 6. mars 2010. Þá greindi hann frá stöðu umsóknar Íslands um aðild að ESB.
    Kåre Bryn, framkvæmdastjóri EFTA, flutti framsögu um stöðu fríverslunarviðræðna við þriðju ríki, þ.e. ríki utan EFTA og ESB. Hann sagði hóflegrar bjartsýni gæta um að koma mætti hreyfingu á viðræður í svokallaðri Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, WTO, en það mundi fyrst og fremst velta á nýrri viðskiptastefnu Bandaríkjastjórnar sem væri í mótun. Varðandi yfirstandandi tvíhliða fríverslunarviðræður EFTA sagði Bryn að tafir hefðu orðið á viðræðum við Indland í kjölfar kosninganna þar í landi á árinu 2009. Nú færu þær fram af fullum krafti. Hvað Rússland varðar flækti tollabandalag Rússlands við Hvítarússland og Kasakstan sem tók gildi 1. janúar 2010 stöðuna en viðræður stæðu yfir. Saman eru Indland og Rússland langmikilvægustu viðskiptalöndin sem EFTA á í viðræðum við. Af öðrum viðræðum sem stóðu yfir nefndi Bryn Úkraínu og kvaðst vonast til að fríverslunarsamningur yrði tilbúinn til undirritunar seinni hluta árs 2010. Þá hófust fríverslunarviðræður við Hong Kong í janúar 2010 og unnið er að því að koma á viðræðum við Malasíu.
    Þá flutti Erik Lindebo, frá stjórnardeild fiskveiða í framkvæmdastjórn ESB, kynningu á yfirstandandi endurskoðun sjávarútvegsstefnu sambandsins. Framkvæmdastjórnin sendi frá sér grænbók um endurskoðun stefnunnar í apríl 2009. Í bókinni dregur framkvæmdastjórnin upp framtíðarsýn og markmið nýrrar sjávarútvegsstefnu og hefur bókin verið grundvöllur frekara samráðs og viðræðna við hagsmunaaðila um endurskoðun stefnunnar. Framkvæmdastjórnin stefnir að því að skila skýrslu um niðurstöðu þeirra viðræðna í mars 2010 og ítarlegum tillögum 2011 en gert er ráð fyrir að hin nýja sjávarútvegsstefna taki gildi í ársbyrjun 2013. Í grænbókinni er viðurkennt að mistekist hafi að ná markmiðum núverandi sjávarútvegsstefnu um sjálfbærar veiðar, stofnar hafi verið gróflega ofveiddir, fiskveiðifloti sambandsríkjanna sé allt of stór, brottkast sé mikið vandamál og niðurgreiðslur til greinarinnar eru bæði of háar og óskilvirkar.
    Í umræðum sem fylgdu kynningunni spurðist Árni Þór fyrir um samstarf framkvæmdastjórnarinnar og Evrópuþingsins um endurskoðunina og áhrif þingsins í þessu sambandi. Valgerður Bjarnadóttir spurðist fyrir hvers vænta mætti um örlög reglunnar um hlutfallslegan stöðugleika í endurskoðuninni en reglan byggist á því að miðað er við reynslu undangenginna ára þegar kvótum á einstökum svæðum er úthlutað. Lindebo svaraði því til að gott samstarf væri við sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins og að umsögn hennar yrði einkar mikilvæg þegar endanlegar tillögur framkvæmdastjórnarinnar verða lagðar fram. Um regluna um hlutfallslegan stöðugleika sagði Lindebo að búist væri við að reglan yrði áfram við lýði en hún yrði þó að skoðast í samræmi við þær endanlegu tillögur sem mótaðar verða um nýja sjávarútvegsstefnu.
    Eins og fyrr sagði áttu norsku og íslensku þingmennirnir úr þingmannanefnd EFTA sérstakan hádegisverðarfund með fulltrúum úr sjávarútvegsnefnd Evrópuþingsins. Auk þess sat áheyrnarfulltrúi Færeyja í þingmannanefnd EFTA fundinn. Carl Haglund, varaformaður sjávarútvegsnefndarinnar, var gestgjafi hádegisverðarins en með honum voru Patrao Neves, skýrsluhöfundur nefndarinnar um grænbók framkvæmdastjórnarinnar um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar, og fjórir aðrir nefndarmenn. Evrópuþingmennirnir greindu fyrst frá breytingum á ákvarðanatökuferli innan ESB eftir gildistöku Lissabonsáttmálans en með sáttmálanum færast fleiri svið, þar á meðal sjávarútvegsstefna, undir svokallað samákvörðunarferli (e. codecision procedure). Í samákvörðunarferlinu hefur Evrópuþingið jafna stöðu á við ráðherraráðið til að móta nýja löggjöf en framkvæmdastjórnin sendir tillögur sínar til beggja stofnana. Neves skýrsluhöfundur sagði að í skýrslu nefndarinnar um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar yrði væntanlega mælt með því að hverfa frá miðstýrðu fiskveiðistjórnarkerfi alls sambandsins til minni og mismunandi kerfa þar sem hvert svæði ákvæði hvaða kerfi hentaði því best innan ramma sameiginlegrar stefnu og markmiða. Þar sem um staðbundna stofna er að ræða innan fiskveiðilögsögu 2–3 ríkja er eðlilegt að þau ríki sjái um að stjórna nýtingu slíkra stofna.
    Fiskveiðikerfi Noregs, Íslands og Færeyja komu nokkuð til umræðu, sérstaklega þegar rætt var um lækkun niðurgreiðslna í sjávarútvegi ESB. Aðildarríkin skiptast í tvær fylkingar þegar að niðurgreiðslum kemur, um helmingur vill afnema þær með öllu með aðlögunartíma en hinn helmingurinn vill halda þeim við lýði í breyttri mynd. Árni Þór sagði Íslendinga löngu hafa afnumið niðurgreiðslur í greininni enda væri sjávarútvegur undirstöðuatvinnugrein sem hagkerfið byggði á. Hann sagðist hlynntur kerfisbreytingum í Evrópu þar sem niðurgreiðslum yrði smám saman hætt enda skekktu þær samkeppnisstöðu gagnvart sjávarútvegi sem ekki nyti slíkra styrkja. Þá væri æskilegt að taka ákvarðanir um stjórn fiskveiða eins nálægt auðlindinni og unnt er og það ætti sérstaklega við um staðbundna fiskstofna.

34. fundur þingmannanefndar EES í Vaduz 29.–30. mars 2010.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundinn Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, auk Sigrúnar Brynju Einarsdóttur, starfandi ritara Íslandsdeildar. Helstu dagskrármál fundarins voru þróun EES-samningsins, ársskýrsla um framkvæmd EES-samningsins, skýrsla um EES og sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB og skýrsla um svæðisbundið samstarf sveitar- og héraðsstjórna innan EES. Þá voru framsögur varðandi fjármálaþjónustu á EES-svæðinu. Loks var matvælaframleiðandinn Hilcona heimsóttur.
    Embættismönnum var boðið á fund nefndarinnar til að ræða þróun og framkvæmd EES- samningsins og eftirfylgni ályktana sem samþykktar voru á undangengnum fundi þingmannanefndar EES. Framsögu höfðu Thomas Näcke frá fastanefnd ESB gagnvart Sviss og Liechtenstein, Nikulás prins í Liechtenstein, formaður fastanefndar EFTA, Lars Olof Hollner frá framkvæmdastjórn ESB og Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA, ESA. Í framsögum þeirra kom m.a. fram að umsókn Íslands um aðild að ESB hefði valdið nokkurri spennu á milli EFTA-ríkjanna. Í tilefni af því tók Árni Þór Sigurðsson fram að Ísland væri fyllilega skuldbundið EFTA- og EES-samstarfinu og mundi vera það þar til íslenska þjóðin hefði tekið afstöðu til ESB-aðildar í þjóðaratkvæðagreiðslu að aðildarviðræðum loknum.
    Töluvert var rætt um skuldbindingar Íslendinga vegna Icesave-reikninganna. Í því sambandi sagði Per Sanderud m.a. að hátt í 50 bankar hefðu kvartað til ESA á þeim grundvelli að Íslendingar virtu ekki reglur innri markaðarins. Það væri hins vegar afstaða ESA að heimilt væri að setja innstæðueigendur framar öðrum kröfuhöfum. Árni Þór sagði að Icesave- deilan hefði vissulega dregist mjög á langinn þrátt fyrir að menn hefðu lagt mikið á sig til að reyna að leysa hana. Íslensk yfirvöld hefðu lýst sig reiðubúin að greiða skuldbindinguna sem slíka, en tekist væri á um skilyrði og vexti auk þess sem lagaleg óvissa væri enn til staðar. Hann nefndi líka tengslin milli Icesave-deilunnar og aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) sem Íslendingar væru mjög óánægðir með og væru ekki samkvæmt leikreglum AGS. Ástandið á Íslandi væri mjög erfitt og afstaða Norðurlandanna sérstaklega væri skaðleg fyrir annars góð samskipti Íslands við þau. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson tók undir með Árna Þór og kvaðst vilja leggja áherslu á að ekki væri rétt að segja að Íslendingar ætluðu að endurgreiða Bretum og Hollendingum þar sem sú afstaða fæli í sér að fjármagn hefði komið til Íslands, en svo hefði ekki verið. Það væri líka ljóst að engin ríkisábyrgð hefði verið á innstæðum. Málið snerist um að íslenska ríkið væri beðið um að bæta ríkisstjórnum Bretlands og Hollands það sem þær hefðu endurgreitt þegnum sínum vegna tapaðs fjár á Icesave-reikningum. Hann sagði að málið allt hefði haft skaðleg áhrif á samskipti Íslands við Bretland og Holland og benti á að margir Íslendingar væru nú andvígir ESB-aðild. Þorgerður K. Gunnarsdóttir tók undir með Árna Þór og Sigmundi Davíð og beindi þeirri spurningu til Per Sanderud hvort einhverjar kvartanir hefðu borist ESA frá íslenskum einkafyrirtækjum eða hvort ESA hygðist skoða samkeppnisaðstöðu á Íslandi sérstaklega, svo sem á tryggingamarkaði. Sanderud svaraði því til að ESA fylgdist vel með stöðu mála á Íslandi en engin kvörtun hefði borist enn. Þá tók Pat the Cope Gallagher fram að engin tengsl væru milli Icesave-málsins og ESB-umsóknar Íslands.
    Harry Quaderer og Zuzana Brzobohatá gerðu grein fyrir ársskýrslu um framkvæmd EES- samningsins árið 2009 og lögðu fram drög að ályktun. Í máli þeirra kom m.a. fram að ánægja ríkti með aukið hlutverk þjóðþinga innan ESB samkvæmt Lissabonsáttmálanum. Árni Þór benti á að ráðlegt gæti verið að skoða á næstunni áhrif sáttmálans á aðildarríkin. Þá sagði Svein Roald Hansen að Stórþingið hygðist opna skrifstofu í Brussel á næstunni eins og þing aðildarríkja ESB hafa gert. Að umræðu lokinni var ályktun samþykkt.
    Næst var tekin til umræðu skýrsla um svæðasamvinnu innan EES-svæðisins, en Svein Roald Hansen og Indrek Tarand höfðu framsögu um hana. Í máli þeirra kom fram að með samstarfinu mundi skilningur og þekking aukast og samskiptarásir skapast. Árni Þór kvaðst vera afar ánægður með skýrsluna, hann hefði talað fyrir gerð hennar um nokkurra ára skeið og fagnaði því að nú væri kominn formlegur vettvangur fyrir þessi mál. Hann hvatti Svisslendinga til að taka þátt í samstarfinu og ganga til liðs við hin ríkin. Að umræðu lokinni var ályktun á grunni skýrslunnar samþykkt.
    Loks var tekin til umræðu skýrsla um endurskoðun á sjávarútvegsstefnu ESB frá sjónarhóli EES. Harald Nesvik og Pat the Cope Gallagher höfðu framsögu um skýrsluna, en hjá þeim kom m.a. fram að afar mikilvægt væri að takast á við ofveiðivandamálið á ESB-svæðinu og að nauðsynlegt væri að endurhugsa sjávarútvegsstefnu ESB frá grunni. Íslandsdeild bar fram tillögu á fundinum um orðalagsbreytingu á hluta ályktunargreinar skýrslunnar þess efnis að í stað þess að þar segði að lögð væri áhersla á að svæðisbundið skipulag skipti ekki máli fyrir allar fiskveiðar, þar sem t.d. botnfiskur dreifðist yfir mörg svæði, og til væru samningar við þriðju ríki um sameiginlega fiskveiðistjórn, væri tiltekið að „sumar tegundir botnfisks“ dreifðust víða milli svæða. Með þessu vildu Íslendingar leggja áherslu á að ekki væri með öllu útilokað að einhver fiskveiðistjórn á uppsjávarstofnum gæti verið svæðisbundin þar sem það gæti verið mikilvægt fyrir lítil ríki. Töluverðar umræður spunnust um þetta atriði. Valgerður Bjarnadóttir sagði m.a. að eftirfylgni við grænbók ESB væri mjög mikilvæg fyrir Íslendinga. Sjávarútvegsmál yrðu augljóslega gríðarlega mikilvæg í aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og væru viðkvæm fyrir Íslendinga. Hún fagnaði því að framkvæmdastjórn ESB liti til þekkingar Íslendinga í sjávarútvegsmálum og kvað Íslendinga vera sammála því viðhorfi að aukin svæðisvæðing (regionalisation) í stjórn fiskveiða leiddi til betri nýtingar stofna. Hún benti á að hlutfallslegur stöðugleiki væri mikilvægur fyrir Íslendinga ekki síður en sum aðildarríki ESB og sagði að þrátt fyrir mismunandi aðstæður í sjávarútvegi eftir löndum þyrfti starfsemin að vera á jafnréttisgrundvelli og því væri mikilvægt að losa atvinnugreinina smátt og smátt undan niðurgreiðslum. Loks ítrekaði Valgerður mikilvægi þess að losna við brottkastsskylduna úr sjávarútvegsstefnu ESB. Pat the Cope Gallagher tók undir það og sagði að ekki ætti að þurfa að bíða eftir nýrri sjávarútvegsstefnu ESB til að taka á brottkastinu heldur þyrfti það að gerast strax. Að umræðu lokinni var ályktun á grunni skýrslunnar borin undir atkvæði og samþykkt með breytingartillögu Íslandsdeildar.
    Loks komu Katja Gey frá forsætisráðuneytinu í Liechtenstein og Mike Lauber frá fjármálaeftirlitinu í Liechtenstein til fundarins. Þau gerðu grein fyrir ýmsum álitamálum varðandi fjármálaþjónustu og eftirlit með henni á EES-svæðinu, sérstaklega í ljósi fjármálakreppunnar, og svöruðu ýmsum spurningum fundarmanna í framhaldinu.

Fundir þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk tengdra funda í Reykjavík 23.–25. júní 2010.
    Í tengslum við 50 ára afmælishátíð EFTA í Reykjavík funduðu þingmannanefnd og ráðherra EFTA en auk þess átti þingmannanefndin sameiginlegan fund með ráðgjafanefnd EFTA og eiginlegan nefndarfund. Árni Þór Sigurðsson stýrði fundum nefndarinnar. Af hálfu Íslandsdeildar sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Jónína Rós Guðmundsdóttir og Guðlaugur Þór Þórðarson, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á sameiginlegum fundi þingmannanefndar og ráðgjafarnefndar EFTA var sjónum einkum beint að norðurslóðamálum. Þrír gestir ávörpuðu fundinn. Fyrst fjallaði Jónas Allansson frá utanríkisráðuneyti um milliríkjasamstarf um norðurslóðamál, einkum á vettvangi Norðurskautsráðsins, og stefnumótun Íslands á þessu sviði með vísan í skýrslu utanríkisráðherra til Alþingis frá maí 2010. Næst fjallaði Embla Eir Oddsdóttir frá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar um hagkerfi norðurskautssvæðisins og möguleg tækifæri samfara aukinni auðlindanýtingu á norðurslóðum, einkum á sviði gas- og olíuvinnslu. Einnig var fjallað um nýjar skipaleiðir sem kunna að opnast við minnkun íshellunnar á norðurskautinu og álitamál því samfara. Loks fjallaði Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri, um aukna samvinnu og áherslu fræðasamfélagsins á málefni svæðisins innan Háskóla norðurskautsins. Greindi hann jafnframt frá námsbrautum sem í boði eru við Háskólann á Akureyri á þessu sviði, einkum er varðar þjóðarétt tengdan heimskautasvæðunum. Þá var á fundinum kynnt niðurstaða vinnuhópa EFTA um hvort og hvernig bæri að koma ákvæðum um umhverfisvernd og vinnuvernd inn í fríverslunarsamninga samtakanna við svokölluð þriðju ríki utan EFTA og ESB.
    Á fundi þingmannanefndar EFTA var fjallað um nýstofnaðan samráðsvettvang sveitar- og svæðisstjórna EFTA, stefnuna Evrópa 2020, störf Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) og stjórnmálaþróun í aðildarríkjunum. Tonnie Erik De Koster frá framkvæmdastjórn ESB kynnti Evrópu 2020 sem er stefnumótun ESB um hvernig hefja eigi Evrópu upp úr yfirstandandi efnahagskreppu. Stefnan var samþykkt af leiðtogaráði ESB 17. júní sl. Stefnan er þrískipt: að hagþróun byggist á nýsköpun og þekkingariðnaði; að hagvöxtur verði sjálfbær, þ.e. skilvirkur og umhverfisvænn sem styrki samkeppnisstöðu Evrópu; og að vöxturinn tryggi mikla atvinnusköpun sem stuðli að félagslegum og landfræðilegum jöfnuði. Markmið stefnunnar er m.a. að árið 2020 verði atvinnustig í aldurshópnum 20–64 ára 75%, framlög til rannsókna og þróunar nemi 3% af vergri landsframleiðslu ESB-ríkjanna, losun gróðurhúsalofttegunda hafi minnkað um 20%, menntunarstig álfunnar hækki, bæði með því að minnka brottfall úr framhaldsskólum og auka hlutfall háskólamenntaðra, og að minnsta kosti 20 milljónum Evrópubúa verði lyft upp úr fátækt.
    Þá kynnti Per Sanderud, forseti ESA, stöðu mála í störfum eftirlitsstofnunarinnar fyrir þingmannanefndinni, m.a. þeim málum sem snúa að íslenska bankahruninu. Sanderud sagði heildarkröfur vegna hrunsins nema um 80 milljörðum evra og þar af yrði tap kröfuhafa um 70 milljarðar. Bráðabirgðaálit ESA um lögmæti svonefndra neyðarlaga þar sem röð kröfuhafa bankanna var breytt og innstæðueigendur teknir fram fyrir almenna kröfuhafa væri að íslensk stjórnvöld væru í fullum rétti með þá aðgerð. Hins vegar væri það bráðabirgðaálit stofnunarinnar varðandi Icesave-málið að íslenskum stjórnvöldum bæri skylda til að greiða út lágmarksinnstæðutryggingar og það hvernig gert væri upp á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda bryti í bága við EES-samninginn. Guðlaugur Þór Þórðarson mótmælti Sanderud og sagði enga mismunun hafa átt sér stað á milli innstæðueigenda eftir þjóðerni. Innlendar innstæður hafi verið ábyrgðar án tillits til þjóðernis innstæðueigenda. Hann gerði jafnframt athugasemd við álit ESA um að íslenska ríkið hefði lögformlega skyldu til að greiða lágmarkstryggingu innstæðueigenda og benti á orðalagsbreytingar í tilskipun ESB um innstæðutryggingar. Sanderud sagði einungis miðað við gildandi lög hvað þetta varðar.
    Í umræðu um stjórnmálaþróun í aðildarríkjunum gerði Árni Þór Sigurðsson grein fyrir ákvörðun leiðtogaráðs ESB frá 17. júní 2010 um að hefja aðildarviðræður við Ísland, minnkandi stuðning við ESB-aðild samkvæmt skoðanakönnunum, og vinnu við að koma á fót sameiginlegri þingmannanefnd Íslands og ESB en stofnun slíkra þingmannanefnda er fastur hluti af aðildarviðræðuferli. Þá greindi Árni Þór frá gangi efnahagslegrar uppbyggingar landsins og sagði að þótt mjög erfið verkefni væru framundan væru einnig jákvæð teikn á lofti, hagvöxtur hefði mælst tvo undangengna ársfjórðunga og atvinnuleysi væri minna en búist hefði verið við.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og ráðherra EFTA var annars vegar fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, og hins vegar um framkvæmd EES-samningsins en það eru fastir dagskrárliðir á slíkum fundum. Fríverslunarsamningum hefur fjölgað ört á undanförnum árum. Á fundinum flutti Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra framsögu um stöðu og horfur fríverslunarsamninga EFTA. Í máli hans kom m.a. fram að fríverslunarsamningur EFTA við Úkraínu hefði verið undirritaður fyrr sama dag og jafnframt að samningur við Perú biði tilbúinn undirritunar. Fleiri fríverslunarsamningar væru í bígerð og væri t.d. unnið að því að hefja viðræður við Rússland, Malasíu og Indónesíu. Auk þess yrði yfirstandandi viðræðum haldið áfram við Indland og Hong Kong. Guðlaugur Þór Þórðarson spurðist fyrir um möguleika á fríverslunarsamningi EFTA við Bandaríkin og svaraði Doris Leuthard, viðskiptaráðherra Sviss, því til að í ljósi þess að Bandaríkjaþing hefur ekki viljað fullgilda fríverslunarsamning sem stjórnvöld gerðu við Kólumbíu væri mjög á brattann að sækja í samningagerð við Bandaríkin.
    Í umræðum þingmanna og ráðherra EFTA um framkvæmd EES-samningsins var nokkuð rætt um áminningarbréf ESA til íslenskra stjórnvalda frá 26. maí 2010 þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að Ísland væri skuldbundið til að tryggja greiðslu á lágmarkstryggingu í samræmi við tilskipun um innstæðutryggingar til breskra og hollenskra sparifjáreigenda. Íslenskum yfirvöldum var veittur tveggja mánaða frestur til að svara áminningarbréfinu en slíkt bréf er fyrsta skref ESA í samningsbrotamálum. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson sagði bréf ESA hafa slæm áhrif á samningsstöðu Íslands í Icesave-málinu og undarlegt að stofnunin hefði tekið upp hjá sér að senda út slíkt bréf á viðkvæmum tímapunkti. Sigmundur Davíð ítrekaði að Íslendingar væru tilbúnir að greiða það sem eftir stæði þegar bú Landsbankans hefur verið gert upp þrátt fyrir að ekki væri um lagalega skuldbindingu að ræða. Samningar yrðu þó að vera sanngjarnir þannig að gagnaðilinn græddi ekki á þeim. Síðar í EES-umræðunni spurðist Guðlaugur Þór Þórðarson fyrir um stöðu Færeyja sem lýst hafa vilja til að ganga í EFTA. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra svaraði því til að möguleg aðild Færeyinga að EFTA hefði ekki verið rædd á fundi ráðherranna og undirstrikaði að Færeyingar hefðu ekki sótt formlega um aðild að samtökunum.

Fundir sendinefndar þingmannanefndar EFTA í Albaníu og Serbíu í 26.–29. október 2010.
    Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Fundirnir í Tirana og Belgrad voru haldnir samfara fullgildingarferli sem stóð yfir á fríverslunarsamningum EFTA við ríkin tvö. Markmið heimsóknarinnar til höfuðborganna tveggja, þar sem rætt var við þingnefndir og stofnanir, var að fjalla um hvernig styrkja mætti viðskiptatengsl EFTA við Albaníu og Serbíu eftir gildistöku samninganna og kynna sér framtíðarstefnu ríkjanna um aðild að Evrópusambandinu.
    Á fundunum í Albaníu var einkum fjallað um samskipti EFTA og Albaníu og umsókn Albaníu um aðild að Evrópusambandið sem afhent var í apríl 2009. Einnig var rætt um orkubúskap Albaníu, uppbyggingu vatnsaflsvirkjana og möguleika á að auka vistvæna orkuframleiðslu; áhrif alþjóðlegu fjármálakreppunnar á Albaníu; aðgerðir stjórnvalda í Albaníu til þess að laða að erlenda fjárfestingu; og samstarf Albaníu við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn.
    Á fundunum í Serbíu var sömuleiðis fjallað um samskipti EFTA og Serbíu og umsókn Serbíu um aðild að Evrópusambandið sem afhent var í desember 2009. Þá var fjallað um stjórnmálaástandið og samskipti ríkja á vestanverðum Balkanskaga og málefni Kósóvó frá sjónarhóli Serba; framkvæmd efnahagsáætlunar Serba og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins; og áhrif kreppunnar í Grikklandi á nágrannaríkin á Balkanskaga.

Fundur þingmannanefndar og ráðherra EFTA auk tengdra funda í Brussel og Genf 22.–23. nóvember, og fundur þingmannanefndar EES í Strassborg 24.–25. nóvember 2010.
    Fundur þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA fór fram í Brussel en fundur þingmanna og ráðherraráðs EFTA, sem af hálfu annarra ríkja en Íslands er skipað viðskiptaráðherrum, fór fram í Genf. Fundur þingmannanefndar EES var haldinn í Evrópuþinginu í Strassborg. Af hálfu Íslandsdeildar þingmannanefndar EFTA sóttu fundina Árni Þór Sigurðsson, formaður, Valgerður Bjarnadóttir, varaformaður, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Jónína Rós Guðmundsdóttir, auk Stígs Stefánssonar ritara.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og utanríkisráðherra EES/EFTA í Brussel var einkum rætt um stöðu og rekstur EES-samningsins. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra flutti framsögu af hálfu ráðherranna og greindi frá því að á haustfundi þeirra hefði helst verið fjallað um Evrópa 2020 stefnu Evrópusambandsins um nýsköpun og hagvöxt í álfunni, löggjöf um sameiginlega markaðinn, og innleiðingu Lissabonsáttmála ESB. Öll hafa þessi mál mikil áhrif á EES, sér í lagi Evrópa 2020 sem er svar ríkja ESB við fjármálakreppunni. Þá greindi Össur frá umræðum á vettvangi EES-ráðsins um stöðu alþjóðamála, þar sem rædd var afstaðan til Rússlands, Kína og Miðausturlanda. Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, sagði það áskorun að viðhalda athygli á EES á meðan ESB einbeitir sér að innleiðingu Lissabonsáttmálans, viðbrögðum við fjármálakreppunni, stöðu evrunnar og stækkunarmálum en bætti við að það tækist bærilega.
    Í umræðum sem fylgdu framsögum ráðherranna ræddi Árni Þór Sigurðsson um sjálfbæran orkubúskap sem forsendu hagvaxtar til framtíðar og spurðist fyrir um umræður um orkunýtingu og orkusparnað á vettvangi EES-ráðsins. Össur svaraði því til að sérstaklega hefði verið fjallað um endurnýjanlega orkugjafa og möguleika í Mið-Evrópu til jarðhitanýtingar þar sem sérfræðiþekking Íslendinga gæti nýst. Þorgerður K. Gunnarsdóttir spurðist fyrir um umræðu í Rússlandi um norðurslóðamál og áform Rússa um auðlindanýtingu á norðurskautinu. Støre sagði Norðmenn í forustu um olíu- og gasvinnslu í Norðurhöfum og nefndi vinnslu í Barentshafi í því sambandi. Mest af ónýttum auðlindum eru þó á yfirráðasvæði Rússa sem hafa takmarkaða tækniþekkingu til vinnslu á hafi úti við þær erfiðu aðstæður sem þar ríkja. Stór hluti auðlindanna væri á landi og yrðu þær væntanlega unnar fyrst. Rússar horfðu vissulega til orkunýtingar á svæðinu sem aflvélar hagvaxtar í framtíðinni.
    Á sameiginlegum fundi þingmanna og ráðherraráðs EFTA í Genf var einkum fjallað um þróun í samstarfi EFTA við þriðju ríki og gerð fríverslunarsamninga, en það er fastur dagskrárliður á slíkum fundum. Á undanförnum árum hefur tvíhliða eða svæðisbundnum fríverslunarsamningum fjölgað ört vegna lítils árangurs í Doha-samningalotu Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO). EFTA hefur verið í fararbroddi á þessu sviði og hafa engin ríkjasamtök náð meiri árangri í gerð fríverslunarsamninga að Evrópusambandinu undanskildu. Á fundinum flutti Johann N. Schneider-Ammann, efnahagsráðherra Sviss, framsögu um stöðu og horfur fríverslunarsamninga EFTA. Í máli Schneider-Ammann kom m.a. fram að formlegt viðræðuferli um fríverslun EFTA við Rússland, Hvíta-Rússland og Kasakstan hefði hafist fyrr sama dag. Fríverslunarsamningur við Rússa yrði einn sá mikilvægasti í sögu EFTA en auk þess stæðu yfir samningaviðræður við Indland sem vonast væri til að verði lokið á árinu 2011. Jafnframt stæðu yfir samningaviðræður við Hong Kong auk þess sem í undirbúningi væri að hefja viðræður við Indónesíu, Bosníu og Hersegóvínu og Svartfjallaland. Þá væri unnið að hagkvæmniathugun á fríverslun EFTA og Víetnam en slíkar athuganir eru algengur fyrirboði formlegra samningaviðræðna.
    Árni Þór Sigurðsson, formaður þingmannanefndar EFTA, flutti framsögu fyrir hönd nefndarinnar og lagði áherslu á að þingmenn EFTA hefðu á undanförnum árum stutt dyggilega við gerð fríverslunarsamninga samtakanna. Þingmannanefnd EFTA hefur í því skyni beitt sendinefndum og þingmannaheimsóknum til þess að kynna og afla stuðnings við gerð fríverslunarsamninga. Árni Þór spurðist fyrir um hvort ný ákvæði um umhverfisvernd og vinnuvernd, sem kynnt voru á ráðherrafundi EFTA í júní og til stendur að setja inn í fríverslunarsamninga, hefðu verið tekin upp í yfirstandandi samningaviðræðum og hvernig þeim hefði verið tekið. Schneider-Ammann svaraði því til að of snemmt væri að segja nokkuð til um reynsluna af hinum nýju ákvæðum.
    Fundur þingmannanefndar EES fór fram í Evrópuþinginu í Strassborg. Helstu dagskrármál fundarins voru þróun og staða EES-samningsins, Evrópa 2020 stefnan, Evrópuár gegn fátækt og viðskiptabann ESB á selaafurðir.
    Að vanda var fulltrúum stofnana Evrópusambandsins og ríkisstjórna EES/EFTA-ríkjanna boðið á fund nefndarinnar til að fjalla um EES-samninginn. Nikulás Hannigan, varafastafulltrúi Íslands gagnvart Evrópusambandinu, flutti framsögu fyrir hönd formennsku sameiginlegu EES-nefndarinnar og EES-ráðsins. Hann sagði EES-samninginn virka vel og að hraði innleiðingar EES-gerða í EES/EFTA-ríkjunum væri vel viðunandi. Gianluca Grippa frá framkvæmdastjórn ESB sagði að enn þyrfti að finna lausn á útistandandi málum varðandi innstæðutryggingar á EES. Hann ræddi líka aðildarumsókn Íslands að ESB og gerði stuttlega grein fyrir fyrstu framvinduskýrslu framkvæmdastjórnarinnar í því sambandi sem væri jákvæð. Þá væri Noregur að gera sína eigin stóru úttekt á virkni EES og það gæfi tilefni til viðræðna um hvernig gera mætti samstarfið skilvirkara. Per Sanderud, forseti Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA), gerði grein fyrir helstu málum á borði stofnunarinnar, m.a. gagnvart Íslandi í kjölfar bankahrunsins. Íslensk stjórnvöld hefðu frest til 6. desember 2010 til að svara bráðabirgðaáliti ESA varðandi Icesave-málið um það hvernig gert var upp á milli innlendra og erlendra innstæðueigenda bryti í bága við EES-samninginn. Þá væri í athugun hvort ESA hæfi formlega rannsókn á endurfjármögnun íslensku bankanna.
    Þorgerður K. Gunnarsdóttir var höfundur skýrslu um Evrópa 2020 stefnuna og nýsköpun á EES ásamt Evrópuþingmanninum Paul Rübig. Í framsöguræðu sinni lagði Þorgerður áherslu á að við niðurskurð til þess að bregðast við fjármálakreppunni bæri að forðast að skera niður framlög til rannsókna og þróunar sem væru forsenda þekkingarþjóðfélags og hagvaxtar til langframa. Framlög til þessara mála væru umtalsvert lægri í Evrópu en í Bandaríkjunum og Japan og að markmið Evrópa 2020 stefnunnar um að 3% af vergri landsframleiðslu (VLF) álfunnar yrði varið til þróunar og rannsókna árið 2020 mundi skapa 3,7 milljónir nýrra starfa. Þorgerður kvað framlög á Íslandi til þróunar og rannsókna hafa náð 3% af VLF fyrir bankahrun en síðan þá hefðu þau því miður dregist saman. Loks bentu Þorgerður og norski þingmaðurinn Svein Roald Hansen á að ein leið til að auka hagvöxt í Evrópu væri að auka atvinnuþátttöku kvenna. Atvinnuþátttaka kvenna á Norðurlöndum væri sú mesta sem þekktist og en þar fælist stefna stjórnvalda í fjölskyldumálum m.a. í því að skapa skilyrði sem gerðu samþættingu fjölskyldulífs og þátttöku á vinnumarkaði mögulega.
    Sérstök vinnuskýrsla var lögð fram að frumkvæði Norðmanna um bann ESB við verslun með selaafurðir. Norsk stjórnvöld hafa mótmælt banninu harðlega og kvartað til Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar yfir því sem þau telja brot ESB á alþjóðlegum viðskiptareglum. Í umræðu um málið lögðu Þorgerður K. Gunnarsdóttir og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson áherslu á rétt þjóða til þess að nýta náttúruauðlindir sínar og sögðu það skjóta skökku við að Evrópuþingið gagnrýndi Norðmenn sem stunda sjálfbærar selveiðar og byggja veiðikvóta á nákvæmum vísindarannsóknum á stærð selastofna. Þá væri það ekki þingsins að taka sér vald til þess að ákveða hvaða dýraveiðar væru siðlegar og hverjar ekki, og að ekki mætti láta tilfinningar kæfa almenna skynsemi sem hlyti að samþykkja sjálfbæra og ábyrga nýtingu dýrastofna.

6. Ályktanir þingmannanefndar EES árið 2010.
          Ályktun um ársskýrslu um framkvæmd EES-samningsins árið 2009, samþykkt í Vaduz 29. mars 2010.
          Ályktun um EES og sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB, samþykkt í Vaduz 29. mars 2010.
          Ályktun um EES og svæðasamvinnu, samþykkt í Vaduz 29. mars 2010.
          Ályktun um Evrópu 2020: Nýsköpun og EES, samþykkt í Strassborg 25. nóvember 2010.
          Ályktun um Evrópuár 2010 í baráttu gegn fátækt, samþykkt í Strassborg 25. nóvember 2010.

Alþingi, 9. mars 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form.


Valgerður Bjarnadóttir,


varaform.


Jónína Rós Guðmundsdóttir..



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.


Þorgerður K. Gunnarsdóttir.