Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 13. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1171  —  13. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið. Á fund hennar komu Ólafur Friðriksson frá sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneyti, Pálmi Vilhjálmsson frá Auðhumlu svf. og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Erna Bjarnadóttir frá Bændasamtökum Íslands. Umsagnir bárust frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Landssambandi kúabænda. Þingmál sama efnis var áður lagt fram á 138. löggjafarþingi. Þá skiluðu umsögnum Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, Bændasamtök Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands, Neytendasamtökin, Samkeppniseftirlitið, Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Viðskiptaráð Íslands. Þá var þingmál svipaðs efnis lagt fram á 135. löggjafarþingi. Af því tilefni bárust umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Byggðastofnun, Bændasamtökum Íslands, Mjólku, Samkeppniseftirlitinu og Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði.
    Með frumvarpinu er stefnt að því að fella brott 19., 22., 24., 26. og 27. gr. búvörulaga. Skv. 19. gr. laganna skal innheimta verðmiðlunargjald á heildsölustigi af afurðum nautgripa og sauðfjár auk þess sem kveðið er á um tiltekna ráðstöfun tekna af gjaldtökunni. Í 22. gr. laganna er kveðið á um innheimtu verðtilfærslugjalds af hverjum innvegnum mjólkurlítra í afurðastöð innan greiðslumarks. Umsjón og framkvæmd gjaldheimtunnar er ákvörðuð í 24. gr. laganna og í 27. gr. þeirra koma fram heimildir til innheimtu gjaldanna auk þess sem ráðherra er veitt heimild til setningar reglugerða um nánari útfærslu innheimtunnar, framkvæmd uppgjörs og tímabil, gjalddaga, álagningu samkvæmt áætlun o.fl.
    Í athugasemdum við frumvarpið kemur fram að megintilgangur þess sé að draga úr millifærslukerfi í landbúnaði og gera verðlagningu gagnsærri. Þá megi ætla að með því móti verði skilyrði fyrir samkeppni bætt og innlendum mjólkurafurðastöðvum gert betur kleift að takast á við samkeppni frá útlöndum. Að auki muni skilgreindur opinber stuðningur við landbúnað lækka um allt að 400 millj. kr.
    Flestir umsagnaraðila hafa fagnað framlagningu frumvarpa þessa efnis, hvatt til samþykktar eða ekki gert sérstakar athugasemdir við efni þeirra. Þó hafa Neytendasamtökin, Samkeppniseftirlitið, Alþýðusamband Íslands og Mjólka ekki talið gengið nægilega langt í því að örva samkeppni á framleiðslu- og heildsölumarkaði landbúnaðarvara með breytingum á búvörulögum. Hafa framangreindir aðilar m.a. bent á nauðsyn þess að afnema 13., 52. og 71. gr. laganna.
    Á fundum nefndarinnar kom m.a. fram að verðmiðlun og verðtilfærslur á landbúnaðarvörum séu í raun og veru orðnar óþarfar. Upphaflega hafi þessar aðferðir verið hugsaðar til þess að halda niðri verði á þeim landbúnaðarvörum sem efnaminni fjölskyldur neyttu í meira mæli en aðrar og verja rekstrarstöðu einstakra mjólkursamlaga. Var á það bent að þörf fyrir slíkt hafi gufað upp á síðustu árum vegna sterkari stöðu neytenda, breytts neyslumynsturs og fækkunar á starfandi afurðastöðvum. Af þessum sökum leiði aðferðirnar í dag til bjögunar á samkeppni og ósamræmis á milli raunkostnaðar við framleiðslu vara og verðlagningar. Þá var athygli nefndarinnar vakin á því að verðlagsnefnd búvara hafi dregið úr verðmiðlun og verðtilfærslu í áföngum að undanförnu enda hafi samsetning kostnaðar við framleiðslu og heildsölu landbúnaðarafurða breyst. Að auki hafi legið fyrir um nokkurn tíma að stefnt væri að þeim breytingum sem frumvarpið felur í sér.
    Sú athugasemd barst nefndinni að hugsanlega gengi frumvarpið fulllangt að því leyti að ekki væri ráðlegt að fella 4. mgr. 24. gr. og 27. gr. laganna brott enda væri verðskerðingargjald af hrossakjöti mikilvægur hlekkur, m.a. þegar kæmi að markaðssetningu hrossa- og kindakjöts og að nauðsynlegt væri að til væru úrræði til að treysta þá gjaldtöku.
    Nefndin tekur undir að í raun séu opinber verðmiðlun og verðtilfærsla að miklu leyti orðin óþörf tæki og að tímabært sé að fella heimildir til þeirra brott úr lögum. Þá bendir nefndin á nauðsyn þess að þáttur samkeppni í framleiðslu og sölu á búvörum sé efldur á sanngjarnan hátt þannig að ekki verði raskað því jafnvægi og sátt sem ríkt hefur á búvörumarkaði. Ber að taka tillit til þess að búvörumarkaðurinn byggist á áratuga framkvæmd og samningum sem stjórnvöld gera til tiltölulega langs tíma. Hvorki framleiðendur né neytendur njóta góðs af því að grundvöllur hans sé brotinn upp á einni nóttu og eðlilegt sé að breytingar verði í eðlilegu samhengi við framþróun og samsetningu samfélagsins og markaða. Af þeim sökum er það álit nefndarinnar að breytingar verði að eiga sér stað skref fyrir skref. Nefndin vekur athygli á að þeir umsagnaraðilar sem athugasemdir hafa gert við málið hafa ekki í raun haft nokkuð efnislegt við það að athuga heldur aðeins gagnrýnt að ekki skyldi gengið lengra. Þá tekur nefndin undir að þörf sé á að gæta þess að ganga ekki of langt í að skerða möguleika til markaðssetningar á landbúnaðarafurðum og leggur til breytingar því til samræmis.
    Í ljósi alls framangreinds leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    1. gr. orðist svo:
    19. gr., 22. gr., 1.–3. mgr. 24. gr. og 26. gr. laganna falla brott.

    Ólína Þorvarðardóttir, Helgi Hjörvar og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. mars 2011.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Björn Valur Gíslason.


Atli Gíslason.



Einar K. Guðfinnsson.


Sigurður Ingi Jóhannsson.


Jón Gunnarsson.