Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 693. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1212  —  693. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 24/2000, um kosningar til Alþingis.

Flm.: Valgerður Bjarnadóttir, Birgitta Jónsdóttir, Björgvin G. Sigurðsson,


Helgi Hjörvar, Magnús Orri Schram, Margrét Tryggvadóttir, Mörður Árnason,
Oddný G. Harðardóttir, Róbert Marshall, Skúli Helgason,
Þór Saari, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    2. mgr. 62. gr. laganna hljóðar svo:
    Kosning utan kjörfundar fer svo fram að kjósandi stimplar eða ritar bókstaf þess lista, eða nafn eða nöfn þeirra frambjóðenda af listum, sem hann vill kjósa, allt upp í tvöfalda tölu þingmanna í viðkomandi kjördæmi.

2. gr.

    82. gr. laganna hljóðar svo:
    Kjósandi greiðir atkvæði á þann hátt að hann markar með ritblýi kross í ferning fyrir framan bókstaf lista á kjörseðlinum eða setur kross fyrir framan eitt nafn eða fleiri á framboðslista eða listum, allt upp í tvöfalda tölu þingmanna í viðkomandi kjördæmi.
    Hver kjósandi hefur eitt atkvæði. Skipti hann atkvæði sínu á fleiri en einn frambjóðanda, hljóta þeir sama brot atkvæðis.

3. gr.

    B- og c-liðir 100. gr. laganna orðast svo:
b.    ef hvorki verður séð við hvern lista er merkt eða hverja frambjóðendur merkt er við eða ef ekki verður séð með vissu hvort það sem stendur á utankjörfundarseðli getur átt við nokkurn af listum sem í kjöri eru eða nokkurn eða nokkurra af frambjóðendum,
c.    ef merkt er við fleiri listabókstafi en einn eða skrifaðir fleiri en einn listabókstafur á utankjörfundarseðil enda sé ekki merkt við neina frambjóðendur.

4. gr.

    1. mgr. 105. gr. laganna orðast svo:
    Í kjördæmi skal telja atkvæði framboðslista með eftirfarandi hætti:
     1.      Fyrst skal telja þá kjörseðla, þar sem merkt er við listabókstaf, en engar merkingar gerðar við einstaka frambjóðendur.
     2.      Þá skal telja þá kjörseðla þar sem merkt hefur verið við einstaka frambjóðendur hvort sem auk þess hefur verið merkt við lista eða ekki. Á hverjum þessara kjörseðla skal telja saman atkvæði eða atkvæðisbrot greidd einstökum frambjóðendum á sama lista, sbr. 2. mgr. 82. gr.
     3.      Atkvæðatala lista er samtala atkvæða eða atkvæðisbrota greidd listanum skv. 1. og 2. tölul.

5. gr.


    110. gr. laganna orðast svo:
    Til þess að finna, hverjir frambjóðendur hafa náð kosningu á hverjum lista, skal landskjörstjórn reikna frambjóðendunum atkvæðatölu á eftirfarandi hátt:
     1.      Ákvarða skal röðunartölu hvers lista og er hún tvöföld tala þeirra sæta er komu í hlut listans samkvæmt kosningaúrslitum, sbr. 107. og 108. gr.
     2.      Skipta skal atkvæði óbreytts kjörseðils, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 105. gr., milli efstu manna viðkomandi lista, jafnmargra og nemur röðunartölu listans, eins og greinir í 3. og 4. tölul.
     3.      Frambjóðandi sem skipar 1. sæti á óbreyttum kjörseðli, sbr. 2. tölul., fær eina hlutdeild í atkvæðinu. Sá í 2. sæti fær það brot úr atkvæðishlutdeild að í nefnara sé röðunartala en í teljara sú tala að frádregnum einum. Síðan lækkar teljarinn um einn við hvert sæti. Atkvæðinu skal síðan skipt á milli þeirra sem tilgreindir eru í 2. tölul. í hlutfalli við atkvæðishlutdeildirnar.
     4.      Leggja skal saman persónuleg atkvæði eða atkvæðisbrot hvers frambjóðanda, sbr. 2. tölul. 1. mgr. 105. gr. Við þá útkomutölu skulu lögð atkvæði frambjóðandans skv. 2. tölul. Útkoman er atkvæðatala frambjóðandans.
    Sá frambjóðandi á hverjum lista, sem fær hæsta atkvæðatölu skv. 1. mgr., hlýtur 1. sæti listans. Sá frambjóðandi, sem fær næsthæsta atkvæðatölu, hlýtur 2. sætið og þannig koll af kolli uns lokið er úthlutun þingsæta svo og sæta varamanna. Nú fá tveir eða fleiri frambjóðendur jafnháa atkvæðatölu og skal þá hluta um röð þeirra á listanum.

6. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hér er lagt til að kosningalögum verði svo breytt að kjósandi eigi þrjá möguleika á því hvernig hann nýtir atkvæði sitt í kjörklefanum: 1) að merkja við listabókstaf, enda fellir hann sig þá við þá röð, sem fram hefur verið sett á röðuðum lista; 2) að merkja við einn frambjóðanda, og nýtist þá atkvæðið þeim lista, sem frambjóðandinn sem atkvæðið hlýtur á sæti á; og 3 ) að kjósandi eigi rétt á að skipta atkvæði sínu á svo marga frambjóðendur sem fjöldi þingmanna í viðkomandi kjördæmi segir til um og geti hann þá kosið einstaklinga af hvaða lista sem vera skal. Kjósi menn með þeirri aðferð skiptast atkvæði milli lista í þeim hlutföllum, sem kjósandi hefur ákveðið.
    Setjum svo að atkvæði greidd lista skiptist þannig að 3.000 séu greidd listanum einum, en ekki merkt við frambjóðendur, en 3.300 atkvæði hafi verið greidd frambjóðendum listans persónulega. Samtalan er 6.300 atkvæði sem ráða því hversu mörg þingsæti listinn hlýtur. Niðurstaða gæti verið að hún gæfi tvö þingsæti. Þrjú þúsund atkvæði greidd listanum skiptust sem persónuleg atkvæði á hina fjóra efstu menn listans samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þeir hinir sömu gætu hafa fengið einhver hinna 3.300 persónulegu atkvæða að auki. Hafi hins vegar frambjóðandi neðar á listanum fengið fleiri persónuleg atkvæði en samanlögð atkvæði einhvers þessara fjögurra efstu þá flyst hann ofar og gæti hreppt þingsæti. Sjá eftirfarandi dæmi:


Dæmi I.
X Listi A Listi B Listi C Listi D Listi F
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
    Hér er um að ræða ímyndað kjördæmi sem hefur fimm þingmenn, í kjördæmis- og jöfnunarsætum. Kjósandinn hefur kosið lista A og þar með fellt sig við röðun hans. Atkvæði kjósandans kemur til með að skiptast á milli þeirra efstu manna listans jafmargra og nemur tölu þingsæta og varaþingsæta listans. Skipting atkvæðisins fer í grundavallaratriðum eftir sömu reglu og í gildandi lögum en einungis hvað þessa óbreyttu kjörseðla varðar.

Dæmi II.
Listi A Listi B Listi C Listi D Listi F
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn X Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
    Hér hefur kjósandi kosið einstakling á lista. Sá eða sú hlýtur þá heilt atkvæði, og jafnframt hlýtur B-listi þetta atkvæði.

Dæmi III.
Listi A Listi B Listi C Listi D Listi F
Nafn Nafn X Nafn X Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn X Nafn Nafn
Nafn X Nafn Nafn Nafn X Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn X Nafn Nafn X Nafn
Nafn Nafn Nafn X Nafn Nafn
X Nafn Nafn X Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
Nafn Nafn Nafn Nafn Nafn
0,1 0,1 0,3 0,3 0,2
    Hér hefur kjósandi kosið að skipta atkvæði sínu í tíu staði, sem er hámark þar sem þingmenn kjördæmisins eru fimm; og enn fremur kosið að dreifa því milli lista. Listarnir hljóta þá þau brot úr atkvæði (í þessu tilfelli hljóta A, og B 1/10 hver eða samtals 2/10 og C og D 3/10 hver eða samtals 6/10 og loks fær F 2/10 eða samtals 10/10 = 1) og kjósandi hefur jafnframt kosið tíu einstaklinga.
    Þessi tillaga er einungis um kosninga- og talningaraðferðina og hefur ekki önnur áhrif á kosningalöggjöfina.
    Í máli innanríkisráðherra hefur komið fram að ekki mun verða lagt fram frumvarp um persónukjör á þessu þingi. Þingmenn hafa því ákveðið að leggja fram frumvarp þetta, sem er ólíkt stjórnarfrumvarpi sem lagt var fram á síðasta þingi að því leyti að með þessu frumvarpi er gert ráð fyrir kjósendur geti valið frambjóðendur þvert á flokka.
    Frumvarpið er í efnisatriðum samhljóða frumvarpi sem Vilmundur Gylfason flutti á Alþingi í febrúar 1983, eða fyrir rétt rúmum tuttugu og átta árum. Möguleikar kjósenda til að hafa áhrif í kjörklefanum hafa lítt sem ekkert aukist hér á landi frá því sem þá var.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Kosning utan kjörstaðar er löguð að þeirri almennu reglu sem verið er að leggja til.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að kjósandi geti merkt X við lista; við frambjóðanda á lista; eða við frambjóðendur á einum eða fleiri listum, allt upp í svo marga frambjóðendur sem fjöldi þingmanna og varaþingmanna í viðkomandi kjördæmi segir til um.

Um 3. gr.


    Ákvæði um gilda seðla breytt til að rúma það sem leyfa á, að velja frambjóðendur og það af mörgum listum. Séu frambjóðendur valdir skiptir listamerking engu máli. Því er heldur ekki fett fingur út í það þótt merkt sé við lista ásamt frambjóðendum og það við fleiri en einn lista.

Um 4. gr.


    Atkvæði eru tvenns konar: Annars vegar eru hrein listaatkvæði, þar sem kjósendur hafa ekki merkt við neina frambjóðendur. Listaatkvæðin skiptast á milli efstu frambjóðenda hvers lista með nánast sama hætti og í gildandi lögum. Hins vegar eru persónuleg atkvæði greidd einstökum frambjóðendum. Sé svo gert skiptist atkvæði kjósandans jafnt á milli þeirra frambjóðenda sem hann hefur merkt við.
    Heildaratkvæðatala lista er fengin með því að leggja saman listaatkvæði hans og persónleg atkvæði greidd frambjóðendum listans.
    Úthlutun þingsæta, jafnt kjördæmissæta sem og jöfnunarsæta, tekur mið af þessum atkvæðatölum. Þar breytir engu að atkvæðatölurnar eru e.t.v. ekki heiltölur.

Um 5. gr.


    Atkvæði einstakra frambjóðenda eru sett saman úr persónulegum atkvæðum hvers og eins auk hlutdeildar í listaatkvæðum. Atkvæði greidd lista skiptast jafn á milli efstu manna listans, jafnmargra og nemur tvöfaldri þingsætatölu listans, það er tvöfaldri tölu kjördæmissæta og jöfnunarsæta.
    Sætum lista er síðan útdeilt til frambjóðenda hans í þeirri röð sem ræðst af framangreindum atkvæðatölum frambjóðendanna.