Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1282  —  147. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um kosningu rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003 og birtingu skjala og annarra upplýsinga um málið.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og henni hefur borist umsögn frá Menningar- og friðarsamtökum íslenskra kvenna.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi kjósi nefnd fimm alþingismanna, sem hafi vald samkvæmt ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar, til þess að rannsaka aðdraganda og ástæður þess að þáverandi ríkisstjórn Íslands ákvað að lýsa yfir stuðningi við innrás Bandaríkjanna og Bretlands í Írak 20. mars 2003 án nokkurs samráðs við Alþingi. Þá er lagt til að nefndin fái í hendur öll gögn stjórnvalda, þar með taldar fundargerðir, minnisblöð og greinargerðir, sem varpað geti ljósi á þetta ferli. Gögnin verði jafnframt gerð opinber. Nefndin hafi einnig heimild til þess að kalla hvern þann til fundar við sig sem kann að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar. Þá felst í tillögunni að þingmannanefndin njóti aðstoðar skrifstofu Alþingis, en henni verði einnig heimilt að leita eftir utanaðkomandi sérfræðiaðstoð. Nefndarsetan verði ólaunuð en útlagður kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði. Nefndarstarfinu ljúki með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi eigi síðar en 1. júní 2011.
    Um rannsóknarnefndir þingmanna er fjallað í 39. gr. stjórnarskrárinnar sem er svohljóðandi: „Alþingi getur skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál, er almenning varða. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum.“ Á grundvelli þessa lagaákvæðis hafa tvisvar sinnum verið skipaðar rannsóknarnefndir þingmanna.
    Í greinargerð með þingsályktunartillögunni kemur m.a. fram að þáverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra tóku ákvörðun um að setja Ísland á lista bandarískra stjórnvalda yfir þau ríki sem lýstu sérstökum stuðningi við innrásina í Írak 20. mars 2003. Ráðherrarnir báru ákvörðun sína um stuðning Íslendinga við innrásina í Írak ekki undir utanríkismálanefnd Alþingis. Sérstaklega er þó kveðið á um það í 24. gr. laga um þingsköp Alþingis að það skuli gert í slíkum tilvikum en þar segir: „Utanríkismálanefnd skal vera ríkisstjórninni til ráðuneytis um meiri háttar utanríkismál enda skal ríkisstjórnin ávallt bera undir hana slík mál jafnt á þingtíma sem í þinghléum.“ Enn hefur ekki komið fram hvers vegna ráðherrarnir ákváðu að fara á svig við þetta skýra ákvæði í þingsköpum. Þá segir í greinargerðinni að enn hafi ekki komið fram hvort lagt var sjálfstætt mat á rökstuðning innrásarríkjanna fyrir hernaðaraðgerðum sínum í aðdraganda stuðningsyfirlýsingar utanríkisráðherra og forsætisráðherra. Í ljós hefur komið að aðalforsendur bandarískra og breskra yfirvalda fyrir innrásinni stóðust ekki, og forustumenn þessara ríkja hafa viðurkennt þetta. Í Bandaríkjunum, Bretlandi og Hollandi hafa af þessum sökum farið fram sérstakar rannsóknir á aðdraganda ákvarðana um innrásina í Írak.
    Þá kemur fram í greinargerðinni að þáverandi utanríkisráðherra hafi síðar viðurkennt að mjög hafi skort á réttmæti upplýsinga áður en afstaða ráðherranna var tilkynnt. Í því ljósi telja tillöguflytjendur nauðsynlegt að brjóta til mergjar ástæður þess að ríkisstjórn Íslands ákvað í marsmánuði 2003 að lýsa yfir stuðningi við innrásina í Írak. Við þá rannsókn verði samkvæmt greinargerðinni m.a. athugað:
     a.      hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,
     b.      hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,
     c.      hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,
     d.      hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,
     e.      hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,
     f.      hvenær var horfið frá þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,
     g.      hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,
     h.      af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.
    Nefndin tekur undir mikilvægi þess að Alþingi láti rannsaka hvernig staðið var að ákvörðun um stuðning við Íraksstríðið innan ríkisstjórnarinnar. Nefndin bendir á að síðan tillagan kom fram hafa ýmis gögn komið í dagsljósið sem varpað geta ljósi á aðdraganda ákvörðunarinnar. Ber þar einkum að geta skjala í utanríkisráðuneytinu sem málinu tengjast. Samkvæmt fréttatilkynningu frá ráðuneytinu 11. nóvember sl. eru alls 92 skjöl í skjalasafni þess er varða aðdraganda stuðnings Íslands við Íraksstríðið. Þar af voru 67 skjöl gerð aðgengileg á vef ráðuneytisins sama dag. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins sagði jafnframt um þau 25 skjöl sem ekki voru opinberuð að skjölin væru undanþegin aðgangi þar sem þau vörðuðu samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir eða væru vinnuskjöl. Í viðtali við fréttastofu RÚV sama dag bætti utanríkisráðherra enn fremur við að birting þeirra skjala sem ekki voru gerð opinber gæti skaðað rannsóknarhagsmuni og er í fréttinni vísað til þeirrar tillögu um rannsóknarnefnd sem hér er til umfjöllunar.
    Nefndin telur nauðsynlegt að rannsóknarnefnd fari yfir þau skjöl sem enn hvílir leynd á og getið er um hér að ofan til þess að fá skýra heildarmynd af aðdraganda hinnar afdrifaríku ákvörðunar um stuðning við Íraksstríðið og að skjölin verði því næst gerð opinber.
    Nefndin leggur áherslu á að rannsóknarnefnd sú sem hér um ræðir hafi fullar heimildir til skýrslutöku og gagnaöflunar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar og gerir tillögu um orðalagsbreytingu því til undirstrikunar. Þá hefur nefndin kynnt sér form fyrri ályktana Alþingis til stofnunar rannsóknarnefnda þingmanna skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar. Í kjölfar þess gerir nefndin þá breytingartillögu að stafliðir úr greinargerð sem birtir eru hér að framan færist inn í tillögugreinina og er það til samræmis við form fyrri ályktana um rannsóknarnefndir. Loks gerir nefndin tillögu um að rannsóknarnefndin ljúki störfum eigi síðar en 1. desember 2011 með skýrslu sem lögð verði fyrir Alþingi.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með breytingum sem lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Bjarni Benediktsson, Ólöf Nordal og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 6. apríl 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Helgi Hjörvar.


Sigmundur Ernir Rúnarsson.


Þuríður Backman.