Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 147. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1283  —  147. mál.




Breytingartillögur



við till. til þál. um kosningu rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar um aðdraganda ákvörðunar um stuðning Íslands við innrásina í Írak árið 2003 og birtingu skjala og annarra upplýsinga um málið.

Frá utanríkismálanefnd.



     1.      Orðin „sem hafi vald“ í 1. málsl. 1. mgr. falli brott.
     2.      Lokamálsliður 1. mgr. orðist svo: Nefndin hafi það vald sem heimilað er í 39. gr. stjórnarskrárinnar til þess að kalla hvern þann til skýrslugjafar sem kann að geta upplýst um tildrög ákvörðunarinnar.
     3.      Á eftir 1. mgr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
             Nefndin athugi meðal annars:
                  a.      hvort sérstök beiðni barst um þennan stuðning, hver beiðandinn var og að hverjum beiðnin beindist innan íslenska stjórnkerfisins,
                  b.      hvaða upplýsingar bárust ríkisstjórninni um forsendur innrásarinnar og hvaðan,
                  c.      hvaða mat var lagt á þær upplýsingar af hálfu sérfræðinga á vegum ríkisstjórnarinnar og hverjir önnuðust það mat,
                  d.      hvernig ákvörðunin var tekin innan ríkisstjórnarinnar og stuðningsflokka hennar,
                  e.      hvers vegna ákveðið var að hafa ekki samráð við Alþingi samkvæmt landslögum, 24. gr. þingskapalaga, og hvaða ráðherra bar ábyrgð á því að það var ekki gert,
                  f.      hvenær var horfið frá þeirri stefnu ríkisstjórnarinnar að gefa bæri vopnaeftirlitsmönnum Sameinuðu þjóðanna meiri tíma til að ljúka störfum og að hernaðaraðgerðir gegn Írak kölluðu á nýja ályktun öryggisráðsins,
                  g.      hvernig ákvörðun ríkisstjórnarinnar var komið á framfæri við umheiminn, hverjum voru send boð um þessa ákvörðun og með hvaða hætti,
                  h.      af hverju sagt var frá ákvörðuninni í Washington en hún ekki kynnt íslensku þjóðinni með fréttatilkynningu, á blaðamannafundi eða eftir öðrum viðurkenndum samskiptaleiðum stjórnvalda og almennings.
     4.      Í stað dagsetningarinnar „1. júní 2011“ í 2. mgr. komi: 1. desember 2011.