Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 237. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1297  —  237. mál.




Frumvarp til laga



um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

(Eftir 2. umr., 11. apríl.)



I. KAFLI


Almenn ákvæði.
1. gr.

Markmið og gildissvið.


    Markmið laga þessara er að veita eigendum innstæðna í innlánsstofnunum og viðskiptavinum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu vernd gegn greiðsluerfiðleikum viðkomandi fyrirtækis.
    Til að unnt sé að veita þá vernd sem kveðið er á um í 1. mgr. er innlánsstofnunum og fyrirtækjum í verðbréfaþjónustu skylt að greiða iðgjald til Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta sem veitir vernd samkvæmt lögum þessum.

2. gr.

Orðskýringar.


    Í lögum þessum merkir:
     1.      Innlánsstofnun: Viðskiptabanki eða sparisjóður sem stundar starfsemi skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, og hlotið hefur starfsleyfi hér á landi.
     2.      Innstæða: Inneign á reikningi í eigu viðskiptamanns hjá innlánsstofnun, að meðtöldum áföllnum vöxtum og verðbótum, og millifærsla í hefðbundinni almennri bankastarfsemi, sem innlánsstofnun ber að endurgreiða samkvæmt lögum og umsömdum skilmálum, og hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun. Lántökur innlánsstofnunar, eiginfjárreikningar, heildsöluinnlán og safnreikningar, aðrir en reikningar innlánsleiða vörsluaðila lífeyrissparnaðar, teljast ekki til innstæðna.
     3.      Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu: Fjármálafyrirtæki sem hlotið hefur starfsleyfi til að stunda starfsemi á grundvelli 6. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki.
     4.      Verðbréf: Verðbréf eins og þau eru skilgreind í lögum um verðbréfaviðskipti, nr. 108/ 2007, sem eru í vörslu eða umsýslu fjármálafyrirtækis og því ber að endurgreiða eða standa skil á samkvæmt skilmálum er gilda um samskipti fyrirtækisins og fjárfestis samkvæmt lögum eða samningum.
     5.      Verðbréfaviðskipti: Verðbréfaviðskipti skv. 1. gr. laga um verðbréfaviðskipti.
     6.      Reiðufé: Fé í eigu fjárfestis í evrum eða gjaldmiðli annarra aðildarríkja sem er í vörslu fyrirtækis í verðbréfaþjónustu í tengslum við fjárfestingarstarfsemi.
     7.      Aðildarríki: Ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu eða Færeyjar.
     8.      Vörsluaðili lífeyrissparnaðar: Aðili skv. 3. mgr. 8. gr. laga um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, nr. 129/1997, sem hefur heimild til að stunda starfsemi skv. II. kafla sömu laga.
     9.      Innlánsleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar: Fjárfestingarleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar sem eingöngu hefur heimildir til að ávaxta fé sitt á innlánsreikningi samkvæmt fjárfestingarstefnu sinni.
     10.      Heildsöluinnlán: Innlán þar sem samið hefur verið sérstaklega um kjör og tímalengd viðkomandi innlána annaðhvort beint við viðkomandi innlánsstofnun eða fyrir milligöngu miðlara á peningamarkaði. Slík innlán standa almennum sparifjáreigendum almennt ekki til boða og skilmálar þeirra eru ekki staðlaðir.
     11.      Safnreikningar: Eigin reikningur fjármálafyrirtækis þar sem fjármálagerningar eða hlutdeild viðskiptavinar er skráð. Inneign á safnreikningum telst ekki til innstæðu nema annað leiði af lögum þessum þar sem ekki er um að ræða sérgreindan reikning í eigu innstæðueiganda.

II. KAFLI
Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta.
3. gr.
Sjóðurinn.

    Með tryggingar samkvæmt lögum þessum fer Tryggingarsjóður innstæðueigenda og fjárfesta, hér eftir nefndur sjóðurinn. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun sem starfar samkvæmt lögum þessum. Lög um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur gilda ekki um sjóðinn. Sjóðurinn nýtur ekki ríkisábyrgðar á skuldbindingum sínum í skilningi laga um ríkisábyrgðir, nr. 121/1997.
    Sjóðurinn er undanþeginn greiðslu tekjuskatts, eignarskatts og skatts á fjármagnstekjur. Sama á við um aðra skatta sem byggjast á sömu álagningarstofnum. Þá verður sjóðurinn hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.
    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. er heimilt að gera aðför í samræmi við ákvæði laga um aðför, nr. 90/1989, í eignum þeirrar deildar sjóðsins sem tekið hefur lán skv. 8. gr., komi til vanskila.

4. gr.
Stjórn og framkvæmdastjóri.

    Efnahags- og viðskiptaráðherra skipar þriggja manna stjórn sjóðsins og ákveður þóknun stjórnar. Skal einn stjórnarmaður skipaður án tilnefningar og skal hann vera formaður, einn stjórnarmaður skal tilnefndur af Seðlabanka Íslands og einn tilnefndur af Samtökum fjárfesta . Varamenn skulu tilnefndir á sama hátt.
    Stjórnarmenn skulu uppfylla óhæðis- og hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra við sjóðinn eða semja við lögaðila um rekstur og vörslu hans. Jafnframt er henni heimilt að semja við þriðja aðila um umsjón greiðslna úr sjóðnum. Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996, eiga ekki við um stjórn eða starfsmenn sjóðsins.
    Framkvæmdastjóri sjóðsins eða framkvæmdastjóri lögaðila, ef við á, skal uppfylla óhæðis- og hæfisreglur laga um fjármálafyrirtæki.
    Stjórnarmenn og framkvæmdastjóri sjóðsins eru bundnir þagnarskyldu í samræmi við ákvæði laga um fjármálafyrirtæki. Sama á við um starfsmenn lögaðila sem stjórn sjóðsins kann að semja við um ákveðna þætti í rekstri sjóðsins.

5. gr.
Ársfundur.

    Ársfund skal halda fyrir lok mars ár hvert. Á ársfundi skulu endurskoðaðir ársreikningar sjóðsins lagðir fram til kynningar, gerð grein fyrir fjárfestingarstefnu sjóðsins og helstu atriðum í starfsemi hans á liðnu ári. Reikningsár sjóðsins er almanaksárið.
    Fundurinn skal auglýstur opinberlega og eiga rétt til fundarsetu fulltrúar þeirra innlánsstofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem greiða iðgjöld til sjóðsins, fulltrúar hagsmunasamtaka þeirra, fulltrúar hagsmunasamtaka viðskiptamanna þeirra, svo og fulltrúar opinberra aðila.

6. gr.
Starfsemi sjóðsins.

    Sjóðurinn starfar í þremur sjálfstæðum deildum. Innstæðudeildir eru tvær, A-deild og B-deild. Jafnframt starfar við sjóðinn verðbréfadeild. Deildirnar hafa aðskilinn fjárhag og reikningshald og bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hver annarrar.
    Fyrirtæki sem er skylt að greiða iðgjöld til sjóðsins bera ekki ábyrgð á skuldbindingum hans umfram það sem kveðið er á um í lögum þessum.
    Rekstrarkostnaður greiðist af eignum sjóðsins í samræmi við hlutfall hverrar deildar í heildarkostnaði.
    Fjármálaeftirlitið heldur sérstaka skrá um fyrirtæki sem er skylt að greiða iðgjöld til sjóðsins. Skal skráin uppfærð jafnóðum og breytingar verða og birt á vefsíðum Fjármálaeftirlitsins og sjóðsins.

7. gr.
Greiðsluskylda sjóðsins.

    Sjóðnum er skylt að greiða viðskiptavini innlánsstofnunar eða fyrirtækis í verðbréfaþjónustu sem greiðir iðgjöld til sjóðsins fjárhæð sem nemur vernd sjóðsins skv. 12. og 20. gr. enda hafi greiðsluskylda sjóðsins orðið virk vegna:
     1.      álits Fjármálaeftirlitsins um að innlánsstofnun eða fyrirtæki í verðbréfaþjónustu teljist ekki fært um að inna af hendi greiðslu á andvirði innstæðu, verðbréfa eða reiðufjár sem viðskiptavinur hefur krafið fyrirtæki um endurgreiðslu eða skil á í samræmi við þá skilmála er gilda, eða
     2.      úrskurðar héraðsdóms um að innlánsstofnun eða fyrirtæki í verðbréfaþjónustu hafi verið tekið til slita skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.
    Álit Fjármálaeftirlitsins skv. 1. tölul. 1. mgr. skal liggja fyrir svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en fimm virkum dögum eftir að það fær staðfestingu á að aðstæður sem lýst er í 1. tölul. 1. mgr. séu fram komnar hjá innlánsstofnun. Framangreint á þó ekki við gagnvart verðbréfadeild sjóðsins en þá skal álit Fjármálaeftirlitsins liggja fyrir innan þriggja vikna.
    Nú telur Fjármálaeftirlitið eða Seðlabanki Íslands að fjármálafyrirtæki sem er skylt að greiða iðgjöld til sjóðsins sé í slíkri stöðu að gæti leitt til þess að greiðsluskylda sjóðsins yrði virk og skal það þá þegar tilkynnt sjóðnum.

8. gr.
Lán.

    Stjórn sjóðsins er heimilt að lána á milli sjóðsdeilda fjárhæð sem nemur allt að 50% af kröfu sem gerð er á hendur viðkomandi sjóðsdeild, þó ekki umfram 100 millj. kr. Lánið skal endurgreiðast innan 36 mánaða. Ráðherra er heimilt að setja í reglugerð nánari ákvæði um lán á milli deilda.
    Beri brýna nauðsyn til er stjórn sjóðsins heimilt að taka lán dugi eignir sjóðsins ekki til að standa undir lágmarksskuldbindingum hans.
    Lán sjóðsins samkvæmt þessari grein eru undanþegin stimpilgjaldi.

9. gr.
Innra öryggi.

    Stjórn sjóðsins skal tryggja að reglulega sé farið yfir innri verkferla sjóðsins og að tölvubúnaður sé fullnægjandi þannig að sjóðurinn geti staðið við skuldbindingar sínar samkvæmt lögum þessum. Skýrsla þessu til staðfestingar skal send Fjármálaeftirlitinu sem getur sett nánari reglur um úttekt verkferla eða rekstur og viðhald tölvukerfa samkvæmt þessari grein.
    Séu einstök verkefni falin öðrum skal stjórn sjóðsins ganga úr skugga um að viðkomandi uppfylli ákvæði 1. mgr.

III. KAFLI
Innstæður.
10. gr.
Iðgjald.

    Innlánsstofnanir skulu greiða iðgjöld til A-deildar frá því að þær hefja starfsemi skv. a-lið 1. tölul. 1. mgr. 3. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Iðgjöld skulu vera samtala almenns iðgjalds skv. 2. mgr. og iðgjalds sem er reiknað á grundvelli áhættustuðuls skv. 3. mgr.
     Almennt iðgjald skal nema sem svarar 0,3% á ári af öllum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun öðrum en þeim sem eru undanþegnar tryggingavernd skv. 14. gr. eða 0,075% á ársfjórðungslegum gjalddaga.
     Auk iðgjalds skv. 2. mgr. greiðir innlánsstofnun breytilegt iðgjald í samræmi við áhættustuðul sem Fjármálaeftirlitið gefur hverri innlánsstofnun. Áhættustuðull skal lægst hafa gildið 0 og hæst gildið 1 og skal iðgjald skv. 2. mgr. margfaldað með áhættustuðlinum eins og hann er í lok þess ársfjórðungs sem iðgjald er greitt fyrir.
    Gjalddagar eru fjórir á ári, einn fyrir hvern ársfjórðung, síðasta virkan dag í febrúar, maí, ágúst og nóvember.
     Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber sjóðnum að innheimta viðbótariðgjald ef eign A-deildar dugir ekki til að standa undir greiðslu þegar greiðsluskylda sjóðsins verður virk vegna atvika sem getur í 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. Einnig er sjóðnum heimilt að innheimta viðbótariðgjöld til að standa straum af kostnaði, afborgunum og greiðslum vaxta af lánum skv. 8. gr. Iðgjald samkvæmt þessari málsgrein skal þó aldrei vera hærra en nemur 0,6% af tryggðum innstæðum hjá viðkomandi innlánsstofnun.
    Iðgjöld eru óendurkræf.
    Eigi síðar en 30 dögum eftir lok hvers ársfjórðungs skulu innlánsstofnanir hafa veitt sjóðnum upplýsingar um samtölu þeirra eigna og atriða sem álagning skv. 2.–3. mgr. byggist á. Skulu upplýsingarnar veittar í því formi sem sjóðurinn ákveður. Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem fjármálafyrirtæki hafa afhent samkvæmt grein þessari. Sjóðurinn tilkynnir innlánsstofnunum upphæð iðgjalds a.m.k. sjö dögum fyrir gjalddaga.
    Standi innlánsstofnun ekki skil á upplýsingum sem henni ber að veita skv. 7. mgr. er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald innlánsstofnunar skv. 2.–3. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöfaldri síðustu álagningu ársfjórðungslegs iðgjalds viðkomandi innlánsstofnunar og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
     Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber stjórn sjóðsins að lækka iðgjöld skv. 2. mgr. þegar eignir A-deildar nema að lágmarki 4% af heildarinnstæðum sem tryggðar eru.
    Sjóðnum er heimilt að innheimta iðgjöld í þeirri mynt sem innstæða er í.

11. gr.
Vanskil á greiðslu iðgjalds.

    Greiði innlánsstofnun sem er skylt að greiða iðgjald til sjóðsins ekki ársfjórðungslegt iðgjald á gjalddaga skv. 4. mgr. 10. gr. leggst á iðgjaldið 5% álag fyrir hvern liðinn dag umfram gjalddaga, í fimm daga. Hafi fyrirtæki ekki staðið skil á iðgjaldi og álagi að þeim tíma liðnum tilkynnir stjórn sjóðsins um vanskil fyrirtækisins til Fjármálaeftirlitsins.
    Verði vanskil á greiðslu iðgjalds innlánsstofnunar er stjórn sjóðsins heimilt að láta færa fjármuni sem nema þeim innlánum sem orðið hafa til hjá hlutaðeigandi innlánsstofnun frá gjalddaga á reikning hennar hjá Seðlabanka Íslands þar til iðgjald hefur verið greitt.
    Sé innlánsstofnun svipt heimild til að taka við innlánum eða starfsleyfi í heild raskast ekki hagsmunir þeirra sem nutu tryggingaverndar við sviptingu starfsleyfis í samræmi við ákvæði þessa kafla.

12. gr.
Greiðslur úr A-deild.

    Greiðslur til hvers einstaks innstæðueiganda úr A-deild skulu nema heildarfjárhæð tryggðra innstæðna hans í hlutaðeigandi innlánsstofnun, þó aldrei hærri fjárhæð en nemur jafnvirði 100.000 evra (EUR) í íslenskum krónum. Sjóðurinn verður ekki krafinn um frekari greiðslu. Rétthafi í innlánsleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar telst innstæðueigandi samkvæmt þessari grein.
    Hlutaðeigandi innlánsstofnun eða þrotabúi hennar er skylt að afhenda sjóðnum allar þær upplýsingar sem sjóðurinn telur nauðsynlegar til að meta rétt hvers innstæðueiganda og vörsluaðila á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. eða þegar úrskurður er kveðinn upp um töku bús fyrirtækis til slitameðferðar.
    Nú er innstæðueigandi rétthafi í innlánsleið vörsluaðila lífeyrissparnaðar og skiptist þá greiðsla tryggingarfjárhæðar á milli vörsluaðila og hans í sama hlutfalli og hlutur hans í reikningi vörsluaðila af heildarinnstæðum hans hjá viðkomandi innlánsstofnun nemur. Vörsluaðili ráðstafar fénu samkvæmt skilagrein sjóðsins og greiðir til rétthafa í samræmi við skilmála samnings þeirra á milli.
    Áður en greiðsla skv. 1. mgr. er innt af hendi skal sjóðurinn staðreyna að innstæðueigandi hafi ekki fengið innstæðu sína að hluta, eða öllu leyti, greidda frá viðkomandi innlánsstofnun og dragast þær greiðslur að fullu frá greiðslum úr sjóðnum sem nemur fjárhæð greiðslunnar.
    Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann án sérstakrar framsalsyfirlýsingar þann hluta kröfu innstæðueiganda sem hann hefur greitt honum á hendur hlutaðeigandi innlánsstofnun eða þrotabúi. Sé bú hlutaðeigandi innlánsstofnunar í slitameðferð, sbr. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nýtur krafa sjóðsins rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
    Krafa skal reiknuð miðað við eign innstæðueiganda þann dag sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. eða þann dag sem úrskurður er kveðinn upp um töku bús innlánsstofnunar til slitameðferðar, hvort sem fyrr verður.
    Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis innstæðu úr A-deild að inna greiðsluna af hendi í samræmi við þá skilmála er gilda um innstæðu. Þá er sjóðnum heimilt að ákveða að endurgreiða andvirði innstæðu í íslenskum krónum, að hluta til eða öllu leyti, óháð því hvort hún hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Viðmiðunargengi er sölugengi greiðsludags samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands.
    Sjóðstjórn skal úrskurða um ágreining um greiðsluskyldu. Ákvörðun sjóðstjórnar má bera undir dómstóla.

13. gr.
Sérákvæði um útreikning.

    Hámarksgreiðsla skv. 12. gr. miðast við innstæður innstæðueiganda hjá sömu innlánsstofnun óháð fjölda innlánsreikninga.
    Nú er innstæða í sameign fleiri en eins innstæðueiganda og skal þá hlutdeild hvers um sig við útreikning á greiðslu skv. 12. gr. vera hin sama og hlutdeild þeirra í innstæðu á reikningnum. Liggi ekki fyrir upplýsingar um hlutdeild hvers aðila skal miða við jafna skiptingu.

14. gr.
Takmarkanir á tryggingavernd.

    Eftirfarandi innstæður njóta ekki verndar samkvæmt lögum þessum:
     1.      innstæður í eigu fjármálafyrirtækja,
     2.      innstæður sem tengjast málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
     3.      innstæður fyrirtækis þar sem fjármálafyrirtæki er meirihlutaeigandi ,
     4.      innstæður ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
     5.      innstæður rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði,
     6.      innstæður félaga í sömu samsteypu og þau sem falla undir 1. tölul. ,
     7.      innstæður sem eru ekki skráðar á nafn,
     8.      innstæður lífeyrissjóða aðrar en hlutdeild viðskiptamanns í reikningi innlánsleiðar vörsluaðila lífeyrissparnaðar hjá innlánsstofnun, sbr. 2. tölul. 2. gr.
    Takmarkanir á tryggingavernd skv. 1. mgr. raska ekki rétthæð innstæðna í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð innlánsstofnunar skv. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki.

15. gr.
Frestir.

    Hvíli greiðsluskylda á sjóðnum gagnvart innstæðueiganda eða vörsluaðila lífeyrissparnaðar skal sjóðurinn inna greiðslu af hendi svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en tuttugu virkum dögum eftir að álit Fjármálaeftirlitsins liggur fyrir, sbr. 7. gr., eða þann dag sem úrskurður var kveðinn upp um að bú hlutaðeigandi innlánsstofnunar hafi verið tekið til slitameðferðar, sbr. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki. Fjármálaeftirlitið getur við sérstakar aðstæður veitt sjóðnum allt að tíu daga frest til viðbótar.
    Innan þess tímafrests sem tilgreindur er í 1. mgr. skal stjórn sjóðsins afla gagna sem eru nauðsynleg til að staðfesta réttmæti krafna. Sjóðurinn eða aðili sem er falin umsjón greiðslna skv. 4. gr. skal tilkynna innstæðueiganda skriflega um niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins.
    Sjóðurinn getur ekki með tilvísun til frests skv. 1. mgr. neitað að inna af hendi greiðslu til innstæðueiganda sem ekki gat tímanlega haft uppi kröfu á hendur sjóðnum. Frestur innstæðueiganda í slíkum tilvikum getur þó aldrei orðið lengri en sá frestur sem er veittur til að lýsa kröfu í bú hlutaðeigandi innlánsstofnunar.
    Liggi fyrir ákæra á hendur innstæðueiganda vegna gruns um peningaþvætti er heimilt að draga greiðslu skv. 1. mgr. uns dómur liggur fyrir.

16. gr.
B-deild.

    Eignir og skuldbindingar innstæðudeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta samkvæmt lögum nr. 98/1999 við gildistöku laga þessara tilheyra sérstakri deild, B-deild.

IV. KAFLI
Verðbréfadeild.
17. gr.
Vernd fjárfesta.

    Verðbréfadeild tryggir fjárfestum vernd vegna glataðra verðbréfa og reiðufjár.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu greiða iðgjöld til verðbréfadeildar sjóðsins frá upphafi starfsemi sinnar. Þeim er skylt að veita sjóðnum upplýsingar um viðskipti í tengslum við verðbréf samkvæmt þessari grein.
    Fjármálaeftirlitinu og Seðlabanka Íslands er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að sannreyna upplýsingar sem afhentar hafa verið samkvæmt grein þessari.
    Sé ágreiningur um það hvað telst fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sker Fjármálaeftirlitið úr um þann ágreining.

18. gr.
Lágmarksstærð og iðgjöld.

    Heildareign verðbréfadeildar skal nema að lágmarki 200 millj. kr. Lágmarkseign skal taka breytingum í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, grunnvísitölu janúar 2011.
    Fast ársiðgjald fyrirtækis í verðbréfaþjónustu er 800.000 kr. ásamt breytilegu iðgjaldi samkvæmt öðrum eftirfarandi töluliða:
     1.      Vegna verðbréfaviðskipta á næstliðnu ári sem nema 10–100 milljörðum kr. skal greiða 200.000 kr.
     2.      Vegna verðbréfaviðskipta á næstliðnu ári sem nema meira en 100 milljörðum kr. skal viðkomandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu greiða 400.000 kr.
     Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber sjóðnum að innheimta viðbótariðgjald ef eign verðbréfadeildar dugir ekki til að standa undir greiðslu þegar greiðsluskylda sjóðsins verður virk vegna atvika sem getur í 7. gr.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skal veita sjóðnum allar upplýsingar sem honum eru nauðsynlegar til þess að geta reiknað út iðgjald viðkomandi. Skulu upplýsingarnar veittar eigi síðar en 1. febrúar ár hvert í því formi sem sjóðurinn ákveður.
    Standi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu ekki skil á upplýsingum sem því ber að veita samkvæmt grein þessari er sjóðnum heimilt að áætla iðgjald fyrirtækisins skv. 2. mgr. Slíkt iðgjald skal að lágmarki nema tvöföldu föstu iðgjaldi skv. 2. mgr. og er óheimilt að endurgreiða það þótt full skil verði gerð á öllum nauðsynlegum upplýsingum síðar.
     Að fenginni sameiginlegri tillögu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabanka Íslands ber stjórn sjóðsins að lækka iðgjöld skv. 2. mgr. þegar eignir hafa náð tilskildu marki skv. 1. mgr.
    Stjórn sjóðsins er heimilt að kaupa vátryggingu hjá vátryggingafélagi sem hefur starfsleyfi á Evrópska efnahagssvæðinu og lýtur eftirliti eftirlitsaðila þar til að tryggja sig gegn tjóni. Kaupi sjóðurinn vátryggingu skal þó í það minnsta fimmtungur af lágmarksstærð deildarinnar skv. 1. mgr. vera í verðbréfum eða reiðufé.
    Gjalddagi iðgjalds skv. 2. mgr. er 1. mars ár hvert. Nýtt fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem hefur starfsemi á álagningarárinu skal greiða ársiðgjald skv. 2. mgr. um leið og starfsemi hefst.
    Iðgjöld eru óendurkræf.

19. gr.
Vanskil á greiðslu iðgjalds.

    Greiði fyrirtæki í verðbréfaþjónustu ekki iðgjald til sjóðsins á gjalddaga samkvæmt lögum þessum skal stjórn sjóðsins leggja álag á iðgjaldið sem nemur 100.000 kr. fyrir hvern dag. Hafi greiðsla iðgjalds og álags ekki verið innt af hendi innan tíu daga eftir gjalddaga skal slíkt tilkynnt Fjármálaeftirlitinu án tafar.
    Sé fyrirtæki í verðbréfaþjónustu svipt starfsleyfi í heild eða að hluta raskast ekki hagsmunir þeirra sem nutu tryggingaverndar í samræmi við ákvæði þessa kafla.

20. gr.
Greiðslur úr verðbréfadeild.

    Hámarksgreiðsla úr verðbréfadeild sjóðsins til hvers fjárfestis vegna tryggðra verðbréfa eða reiðufjár nemur jafnvirði 20.000 evra (EUR) og verður sjóðurinn ekki krafinn um frekari greiðslu.
    Fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eða þrotabúi þess er skylt að afhenda sjóðnum upplýsingar um verðbréf og reiðufé í eigu fjárfesta sem njóta verndar skv. 17. gr. á þeim degi sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. eða þegar úrskurður er kveðinn upp um töku bús fyrirtækis til slitameðferðar.
    Áður en greiðsla skv. 1. mgr. er innt af hendi skal stjórn sjóðsins staðreyna að greiðsla á kröfunni hafi ekki fengist að hluta eða öllu leyti frá viðkomandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu og skulu þær greiðslur dragast að fullu frá greiðslu úr sjóðnum.
    Stjórn sjóðsins skal staðreyna að krafa fjárfestis sé réttmæt og skilyrði fyrir greiðslu séu fyrir hendi. Komi til greiðslu úr sjóðnum yfirtekur hann þann hluta kröfu fjárfestis sem hann hefur greitt honum á hendur hlutaðeigandi fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eða þrotabúi. Sé bú fyrirtækis í verðbréfaþjónustu í slitameðferð, sbr. XII. kafla laga um fjármálafyrirtæki, nýtur krafa sjóðsins rétthæðar í samræmi við 1. mgr. 112. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., en ella er hún aðfararhæf án undangengins dóms eða sáttar.
    Krafa skal reiknuð miðað við eign fjárfestis þann dag sem Fjármálaeftirlitið gefur út álit skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. eða þann dag sem úrskurður er kveðinn upp um töku bús fyrirtækis í verðbréfaþjónustu til slitameðferðar, hvort sem fyrr verður.
    Sjóðnum er heimilt við endurgreiðslu andvirðis kröfu vegna verðbréfs að inna greiðsluna af hendi í samræmi við skilmála þess verðbréfs sem er grundvöllur endurgreiðslu. Þá er sjóðnum heimilt að ákveða að endurgreiða andvirði verðbréfa eða reiðufjár í íslenskum krónum, óháð því hvort það hefur í öndverðu verið í annarri mynt. Viðmiðunargengi er sölugengi greiðsludags samkvæmt skráningu Seðlabanka Íslands.
    Sjóðstjórn skal úrskurða um ágreining um greiðsluskyldu. Ákvörðun sjóðstjórnar má bera undir dómstóla.

21. gr.
Sérákvæði um útreikning.

    Hámarksgreiðsla skv. 20. gr. miðast við allar kröfur fjárfestis á hendur sama fyrirtæki í verðbréfaþjónustu.
    Nú hafa fleiri menn fjárfest sameiginlega og skal þá hlutdeild hvers um sig gilda við útreikning á greiðslu skv. 20. gr. Liggi ekki fyrir upplýsingar um hlutdeild hvers fjárfestis skal miða við jafna skiptingu.
    Sé unnt að staðreyna rétt manns til greiðslu úr sjóðnum innan þeirra tímamarka sem afmarkast af áliti Fjármálaeftirlitsins skv. 1. tölul. 1. mgr. 7. gr. eða úrskurði um töku bús fyrirtækis í verðbréfaþjónustu til slitameðferðar skal hann njóta greiðslunnar, að öðrum kosti gengur rétturinn til þess sem verulegar líkur eru á að eigi réttinn. Ef fleiri en einn eiga ótvíræðan rétt til verðbréfa eða reiðufjár skal hlutur hvers þeirra tekinn til greina við útreikning á greiðslu.

22. gr.
Undanþágur.

    Undanskilin tryggingavernd samkvæmt þessum lögum eru:
     1.      verðbréf og reiðufé fjármálafyrirtækja,
     2.      verðbréf og reiðufé sem tengist málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir peningaþvætti,
     3.      verðbréf og reiðufé fyrirtækis þar sem verðbréfafyrirtæki er meirihlutaeigandi ,
     4.      verðbréf og reiðufé ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja að meiri hluta í eigu opinberra aðila,
     5.      verðbréf og reiðufé rekstrarfélaga verðbréfasjóða og annarra sjóða um sameiginlega fjárfestingu samkvæmt lögum um verðbréfasjóði og fjárfestingarsjóði,
     6.      verðbréf og reiðufé félaga í sömu samsteypu og fjármálafyrirtæki .

23. gr.
Frestir.

    Viðskiptavinir fyrirtækis í verðbréfaþjónustu skulu senda sjóðnum kröfur sínar skriflega ásamt þeim gögnum sem sjóðurinn metur nauðsynleg. Sjóðurinn ákveður, í samráði við Fjármálaeftirlitið, lengd þess frests sem viðskiptavinir hafa til að gera kröfu á sjóðinn. Fresturinn má þó ekki vera styttri en fimm mánuðir.
    Ef bú fyrirtækis í verðbréfaviðskiptum er tekið til slitameðferðar skulu viðskiptavinir þess lýsa kröfum í búið áður en þeir gera kröfu á sjóðinn skv. 1. mgr.
    Innan þess tímafrests sem ákveðinn hefur verið skv. 1. mgr. skal stjórn sjóðsins afla gagna sem eru nauðsynleg til að staðfesta réttmæti krafna. Sjóðurinn eða aðili sem er falin umsjón greiðslna skv. 4. gr. skal tilkynna fjárfesti skriflega um niðurstöðu sína um greiðsluskyldu sjóðsins.
    Sjóðurinn getur ekki með tilvísun til þess frests sem ákveðinn hefur verið skv. 1. mgr. neitað að inna af hendi greiðslu til viðskiptamanns fyrirtækis í verðbréfaþjónustu sem ekki gat tímanlega haft uppi kröfu á hendur sjóðnum. Í slíkum tilvikum getur fresturinn þó aldrei orðið lengri en sá frestur sem veittur er til að lýsa kröfu í bú hlutaðeigandi fyrirtækis.
    Greiðslur til viðskiptamanns fyrirtækis í verðbréfaþjónustu ber að inna af hendi svo fljótt sem auðið er og eigi síðar en þremur mánuðum eftir að lögmæti og fjárhæð kröfu er staðfest. Fjármálaeftirlitið getur við sérstakar aðstæður veitt sjóðnum allt að þriggja mánaða frest til viðbótar.
    Liggi fyrir ákæra á hendur fjárfesti vegna gruns um peningaþvætti er heimilt að draga greiðslu skv. 5. mgr. uns dómur liggur fyrir.

V. KAFLI
Erlend útibú.
24. gr.

    Útibú innlánsstofnana eða fyrirtækja í verðbréfaþjónustu sem starfa hér á landi en hafa staðfestu í ríki sem er ekki aðildarríki skulu greiða iðgjald til sjóðsins vegna innstæðna, verðbréfa og reiðufjár sem nýtur ekki tryggingar sambærilegs tryggingakerfis í heimaríkinu. Sjóðnum er heimilt að gera þeim að greiða viðbótariðgjald, allt að tvöföldu iðgjaldi skv. 2. mgr. 10. gr., eða setja tryggingar, sem sjóðurinn metur fullnægjandi, fyrir því að þau geti staðið við skuldbindingar sínar.
    Fjármálaeftirlitið getur veitt innlánsstofnun eða fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem greiðir iðgjald og hefur staðfestu hér á landi undanþágu frá greiðslu iðgjalds til sjóðsins vegna útibús fyrirtækisins sem staðsett er utan aðildarríkis. Innstæður, verðbréf og reiðufé í því útibúi njóta ekki tryggingaverndar sjóðsins.

VI. KAFLI
Eftirlit og viðurlög.
25. gr.
Eftirlit.

    Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög þessi og reglur sem byggjast á þeim. Um eftirlitið gilda að öðru leyti lög um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.
    Sjóðurinn greiðir eftirlitsgjald samkvæmt lögum um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

VII. KAFLI
Ýmis ákvæði.
26. gr.
Upplýsingagjöf til viðskiptamanna.

    Innlánsstofnanir og fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skulu á afgreiðslustöðum sínum og vefsíðum hafa til reiðu upplýsingar um innstæðutryggingar og lágmarksvernd fyrir fjárfesta. Upplýsingar skulu vera á tungumáli þess ríkis þar sem starfsstöð er og tiltaka m.a. fjárhæð tryggingar, hvaða eignir njóta eða eru undanskildar tryggingavernd og hvert viðskiptamaður getur snúið sér neiti fyrirtæki honum um greiðslu. Upplýsingar þessar skulu kynntar viðskiptamönnum sérstaklega við upphaf viðskipta.
    Auglýsingar innlánsstofnana og fyrirtækja í verðbréfaþjónustu um vernd sjóðsins skulu takmarkaðar við beina tilvísun til hlutaðeigandi deildar hans. Fjármálaeftirlitið getur sett nánari reglur um upplýsingaskyldu samkvæmt lögum þessum.

27. gr.
Fjárfestingarstefna.

    Stjórn sjóðsins ákveður fjárfestingarstefnu hans og gerir grein fyrir henni á ársfundi. Ávöxtun á fé sjóðsins skal við það miðuð að sjóðurinn geti sem best sinnt hlutverki sínu.

28. gr.
Reglugerð.

    Ráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um starfsemi sjóðsins, svo sem um tilhögun á greiðslum úr honum.


VIII. KAFLI
Gildistaka o.fl.
29. gr.
Innleiðing.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á eftirfarandi tilskipunum Evrópuþingsins og ráðsins: 94/ 19/EB um innlánatryggingakerfi, 97/9/EB um bótakerfi fyrir fjárfesta og 2009/14/EB um breytingar á tilskipun um innlánatryggingakerfi.

30. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2011. Við gildistöku laga þessara falla úr gildi lög nr. 98/ 1999, um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta. Eignir og skuldbindingar verðbréfadeildar Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta, samkvæmt lögum nr. 98/1999, tilheyra verðbréfadeild við gildistöku laga þessara.

31. gr.
Breyting á öðrum lögum.

    Við gildistöku laga þessara verða eftirfarandi breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki, nr. 161/2002, með síðari breytingum:
     a.      70. gr. laganna orðast svo:
                  Heimilt er að starfrækja öryggissjóð sparisjóða í því skyni að tryggja hagsmuni viðskiptamanna og fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Sjóðurinn er sjálfseignarstofnun. Stofnfundur skal haldinn eigi síðar en 16. maí 2011. Samþykktir sjóðsins skulu samþykktar á stofnfundi þar sem skal m.a. kveða á um starfsemi hans og vægi atkvæða. Atkvæðisrétt á stofnfundi hafa fulltrúar allra starfandi sparisjóða og fer hver þeirra með eitt atkvæði fyrir hvern milljarð í stofnfé viðkomandi sparisjóðs. Samþykktir sjóðsins öðlast gildi þegar efnahags- og viðskiptaráðherra hefur staðfest þær.        
                  Ráðherra skipar stjórn öryggissjóðs sparisjóðanna til þriggja ára í senn. Skal einn kjörinn á aðalfundi og skal hann vera formaður, einn skal tilnefndur af Bankasýslu ríkisins og einn skipaður án tilnefningar. Hið sama gildir um varamenn. Stjórn sjóðsins er heimilt að ráða framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur sjóðsins. Um hæfi stjórnarmanna og framkvæmdastjóra fer samkvæmt lögum þessum. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi sjóðsins.
                  Öryggissjóður sparisjóðanna er undanþeginn greiðslu tekjuskatts, eignarskatts og skatts á fjármagnstekjur. Sama á við um aðra skatta sem byggjast á sömu álagningarstofnum. Sjóðurinn verður hvorki tekinn til gjaldþrotaskipta né er heimilt að gera aðför í eignum hans.
                  Sjóðurinn tekur yfir starfsemi Tryggingarsjóðs sparisjóðanna og skal stofnfé hans vera jafnt og hrein eign Tryggingarsjóðs sparisjóðanna í árslok 2010. Ráðstöfunarfé sjóðsins er arður af stofnfé hans. Öryggissjóði sparisjóðanna er heimilt að taka við framlagi frá sparisjóðunum. Tillaga um framlag skal samþykkt með tveimur þriðju greiddra atkvæða á aðalfundi. Hún tekur gildi að fenginni staðfestingu Fjármálaeftirlitsins. Öryggissjóði er heimilt að kaupa stofnfé í sparisjóðum í því skyni að tryggja hagsmuni viðskiptamanna þeirra og fjárhagslegt öryggi sparisjóða. Rekstrarár öryggissjóðs er almanaksárið.
     b.      Við 110. gr. laganna bætist ný málsgrein, 3. mgr., svohljóðandi:
                  Fjármálaeftirlitið getur lagt stjórnvaldssekt á innlánsstofnun eða fyrirtæki í verðbréfaþjónustu sem veitir ekki Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta upplýsingar sem eru nauðsynlegar til að unnt sé að leggja á iðgjald skv. 10. eða 18. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.
     c.      2. mgr. 112. gr. b laganna orðast svo:
                  Þá varðar það sömu refsingu að gefa vísvitandi rangar eða villandi upplýsingar um hagi fjármálafyrirtækis eða annað er það varðar, opinberlega eða til Fjármálaeftirlitsins, annarra opinberra aðila eða viðskiptamanna sinna. Hið sama á við ef innlánsstofnun, fyrirtæki í verðbréfaþjónustu eða þrotabú slíkra fyrirtækja veita ekki Tryggingarsjóði innstæðueigenda og fjárfesta upplýsingar sem sjóðnum eru nauðsynlegar til að hann geti innt af hendi greiðsluskyldu sína skv. 12. og 20. gr. laga um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta.

Ákvæði til bráðabirgða.
I.

     Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. er fyrsti gjalddagi almenns iðgjalds skv. 2. mgr. 10. gr. fyrir tímabilin janúar til mars 2011 og apríl til júní 2011 síðasti virki dagur ágústmánaðar 2011.
    Þrátt fyrir ákvæði 4. mgr. 10. gr. er fyrsti gjalddagi áhættuvegins iðgjalds skv. 3. mgr. 10. gr. síðasti virki dagur ágústmánaðar vegna tímabilsins apríl til júní 2011.

II.

     Tryggingarsjóður sparisjóðanna skal lagður niður við gildistöku laga þessara. Eignir hans renna til öryggissjóðs sparisjóðanna, sbr. a-lið 31. gr. laga þessara, og mynda stofnfé þess sjóðs.

III.

    Þrátt fyrir ákvæði 30. gr. laga þessara skulu lög nr. 98/1999 áfram gilda um B-deild sjóðsins vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku laga þessara, að undanskildum 4.–8. gr., 14. gr., 16. gr. og 1. mgr. 17. gr. laganna, uns lokið er greiðslu skuldbindinga hennar vegna ábyrgða sem fallið hafa á innstæðudeild sjóðsins fyrir gildistöku laga þessara. Þá gilda ákvæði 2. mgr. 3. gr., 4. gr. og 5. gr. laga þessara um B-deild sjóðsins.

IV.


    Um tímafresti sjóðsins til útborgunar skv. 15. gr. gilda ákvæði laga nr. 98/1999 til 1. september 2011.

V.


    Um greiðsluskyldu Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta vegna skuldbindinga sem hafa stofnast á verðbréfadeild fyrir gildistöku laga þessara og um innheimtu sjóðsins á grundvelli útgefinna ábyrgðaryfirlýsinga vegna slíkrar greiðsluskyldu fer samkvæmt lögum nr. 98/1999.

VI.


    Þrátt fyrir ákvæði 8. mgr. 18. gr. laga þessara skal gjalddagi iðgjalda skv. 2. mgr. 18. gr. á árinu 2011 vera síðasti virki dagur ágústmánaðar 2011.