Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 682. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1390  —  682. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um fullgildingu fríverslunarsamnings milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa og landbúnaðarsamnings milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Hauk Ólafsson, Maríu Erlu Marelsdóttur og Ragnar G. Kristjánsson frá utanríkisráðuneytinu.
    Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar tveggja samninga. Annars vegar er um að ræða fríverslunarsamning milli aðildarríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa, sem undirritaður var 22. júní 2009 í Hamar og hins vegar landbúnaðarsamning milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa sem undirritaður var sama dag.
    Fríverslunarsamningurinn við aðildarríki Flóabandalagsins er af svokallaðri annarri kynslóð fríverslunarsamninga og inniheldur, auk ákvæða um vöruviðskipti, ákvæði um þjónustuviðskipti, fjárfestingar, hugverkaréttindi, samkeppnismál, opinber innkaup, stofnanaákvæði og ákvæði um lausn ágreiningsmála. Þó nær samningurinn ekki yfir fjárfestingar.
    Landbúnaðarsamningurinn milli Íslands og aðildarríkja Flóabandalagsins er viðbótarsamningur og gerður með vísan til fríverslunarsamninganna. Viðskipti með óunnar landbúnaðarvörur falla undir landbúnaðarsamninginn, en í tilviki aðildarríkja Flóabandalagsins veitist Íslandi niðurfelling tolla af innflutningi á lifandi hrossum, lambakjöti og vatni.
    Vöruútflutningur til aðildarríkja Flóabandalagsins var nokkur á síðasta ári og nam 500 millj. kr., einkum vegna vöruútflutnings til Sádi-Arabíu. Um er að ræða ýmiss konar iðnaðarvörur, svo sem lyf og kísiljárn, sem og sjávarafurðir. Með fríverslunarsamningnum fella EFTA-ríkin niður tolla af iðnaðarvörum og sjávarafurðum frá og með gildistöku samningsins. Af hálfu aðildarríkja Flóabandalagsins falla niður tollar af stærstum hluta sjávarafurða frá og með gildistöku samnings en fimm ára aðlögunartími verður af örfáum sjávarafurðum, svo sem lýsi.
    Fríverslunarsamningar EFTA-ríkjanna og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna við Persaflóa og Úkraínu ná yfir þjónustuviðskipti. Við umfjöllun nefndarinnar kom fram að þjónustuviðskipti milli Íslands og aðildarríkja Samstarfsráðs Arabaríkjanna eru töluverð, mest við Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmin. Útflutningur á þjónustu frá Íslandi til Sádi-Arabíu nam árið 2009 um 16,3 milljörðum kr. og innflutningur um 1,1 milljarði kr. Sama ár nam útflutningur á þjónustu frá Íslandi til Sameinuðu arabísku furstadæmanna um 1,9 milljörðum kr. og innflutningur um 860 millj. kr. Þessi mikli útflutningur til Sádi-Arabíu og Sameinuðu arabísku furstadæmanna skýrist að langstærstum hluta af flugþjónustu.
    Samkvæmt samningunum fallast EFTA-ríkin og aðildarríki Flóabandalagsins á að veita rýmri markaðsaðgang á ákveðnum sviðum þjónustuviðskipta umfram núverandi skuldbindingar samkvæmt Alþjóðaviðskiptastofnuninni. Á móti veitir Ísland ríkjunum markaðsaðgang á sviði ýmiss konar sérfræðiþjónustu, t.d. verkfræðiþjónustu, fjarskiptaþjónustu, dreifingarþjónustu, fjármálaþjónustu, umhverfisþjónustu, ferðaþjónustu og á sviði sjóflutninga. Við umfjöllun nefndarinnar var á það bent að öðrum þriðju ríkjum hafi verið veittur hliðstæður markaðsaðgangur í öðrum fríverslunarsamningum EFTA-ríkjanna, t.d. Suður-Kóreu.
    Aðildarríki Samstarfsráðs Arabaríkjanna veita EFTA-ríkjunum, þar á meðal Íslandi, markaðsaðgang fyrir sérfræðinga að veita orkuráðgjöf og markaðsaðgang fyrir flutningaþjónustu, t.d. vegna sjóflutninga og ferðaþjónustu.
    Fríverslunar- og landbúnaðarsamningarnir eru mikilvægir til að bæta aðgang fyrirtækja í EFTA-ríkjunum, þar á meðal íslenskra fyrirtækja, að mörkuðum aðildarríkja Flóabandalagsins. Með samningunum verður dregið úr viðskiptahindrunum eða þær afnumdar og því mun samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja batna í aðildarríkjum Flóabandalagsins.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt.
    Björgvin G. Sigurðsson og Ólöf Nordal voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 9. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Birgitta Jónsdóttir.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.



Helgi Hjörvar.


Jón Gunnarsson.


Valgerður Bjarnadóttir.



Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.