Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 649. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1462  —  649. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um skil menningarverðmæta til annarra landa.

Frá menntamálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Vilberg Guðjónsson og Eirík Þorláksson frá mennta- og menningarmálaráðuneyti og Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjavörð.
    Þá bárust umsagnir frá Fornleifavernd ríkisins og Þjóðminjasafni Íslands.
    Með frumvarpinu er ætlunin að vernda þjóðarverðmæti og önnur skilgreind menningarverðmæti á Evrópska efnahagssvæðinu og tryggja með samræmdum reglum skil á menningarverðmætum til annarra landa hafi þau verið flutt til Íslands með ólögmætum hætti. Lög nr. 105/2001, um flutning menningarverðmæta úr landi og um skil menningarverðmæta til annarra landa, voru lögfest til samræmis við tilskipun ráðsins 93/7/EBE. Það hefur sýnt sig að lögin veita íslenskum menningarverðmætum ekki fullnægjandi vernd gegn óheftum útflutningi en í lögunum er miðað við verðgildismörk menningarminja sem ekki eru í neinu samræmi við verðlag þeirra á íslenskum markaði. Eðlilegt þykir að greint sé á milli löggjafar um íslenskar menningarminjar og flutning þeirra til annarra landa annars vegar og hins vegar laga um menningarminjar sem önnur ríki hafa skilgreint sem þjóðarverðmæti. Því er talið nauðsynlegt að setja sérlög sem geta hindrað eftirlitslausan flutning íslenskra menningarminja úr landi og koma ákvæði þar að lútandi fram í frumvarpi til laga um menningarminjar, sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu.
    Helstu breytingar þessa frumvarps frá gildandi lögum eru að nú eru verkefni á þessu sviði sem safnaráð hefur haft með höndum flutt til nýrrar ríkisstofnunar, Minjastofnunar Íslands, sem lagt er til að annist framkvæmd laganna fyrir hönd íslenska ríkisins. Stofnunin skal leggja mat á verðgildi menningarminja sem annað ríki krefst skila á, taka við kröfum um skil og hafa samstarf við valdbær stjórnvöld í öðrum ríkjum er fjalla þar um leyfi til útflutnings menningarminja. Þá er í frumvarpinu kveðið á um samráð við tilteknar menningarstofnanir eftir því sem við á.
    Nefndin tekur undir sjónarmið umsagnaraðila þess efnis að breytt lagaumhverfi um skil menningarverðmæta muni stuðla að mikilvægum framförum á sviði safnastarfs og minjavörslu sem og skýra hlutverk þeirra stofnana sem þar hafa lagaskyldum að gegna.
    Fram kemur í 4. mgr. 3. gr. frumvarpsins að tollyfirvöld skuli tafarlaust tilkynna Minjastofnun Íslands um menningarminjar sem reynt hefur verið að flytja ólöglega til landsins. Kveðið er á um heimildir tollgæslu til haldlagningar í 161. gr. tollalaga, nr. 88/2005, en þar segir að tollgæsla skuli leggja hald á muni ef ætla má að þeir hafi sönnunargildi í sakamáli, ef þeirra hefur verið aflað á refsiverðan hátt eða ef ætla má að þeir kunni að verða gerðir upptækir, vegna brota á tollalögum eða öðrum lögum. Þar sem um er að ræða þvingunarráðstöfun er það mat nefndarinnar að skýlaus heimild tollgæslu til haldlagningar sé nauðsynleg og leggur til breytingar á ákvæðinu þar að lútandi. Með hliðsjón af meðalhófsreglunni vill nefndin einnig ítreka það að valdbeitingarheimildin er bundin því skilyrði að aldrei má ganga lengra í beitingu hennar en nauðsynlegt reynist hverju sinni.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:



    Á eftir 2. mgr. 7. gr. komi ný málsgrein, svohljóðandi:
    Eftir kröfu Minjastofnunar Íslands er handhöfum tollgæsluvalds heimilt að leggja hald á menningarminjar skv. 1. mgr. uns niðurstaða fæst um skil á þeim í samræmi við 8. gr. Aldrei mega þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Um heimildir tollgæslu til valdbeitingar, handtöku, leitar, haldlagningar og innsiglunar gilda að öðru leyti ákvæði 151. gr. og 154.–164. gr. tollalaga.

Alþingi, 17. maí 2011.



Skúli Helgason,


form., frsm.


Þuríður Backman.


Oddný G. Harðardóttir.



Eygló Harðardóttir.


Jónína Rós Guðmundsdóttir.


Ragnheiður Ríkharðsdóttir.



Lilja Rafney Magnúsdóttir.


Margrét Tryggvadóttir.


Íris Róbertsdóttir.