Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1498  —  348. mál.




Breytingartillögur



við frv. til l. um rannsóknarnefndir.

Frá allsherjarnefnd.



     1.      Við 1. gr.
                  a.      1. mgr. orðist svo:
                     Forseti Alþingis skipar rannsóknarnefnd ef Alþingi samþykkir ályktun þar um til þess að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða.
                  b.      1. málsl. 2. mgr. falli brott.
                  c.      3. mgr. falli brott.
     2.      Við 2. mgr. 2. gr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Hann skal uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara, sbr. 2. mgr. 12. gr. laga nr. 15/1998, um dómstóla, en að undanskildum ákvæðum um hámarksaldur, sbr. 5. mgr. 31. gr. sömu laga.
     3.      Á eftir 2. gr. komi ný grein, svohljóðandi:
             Forseti Alþingis skal tryggja rannsóknarnefnd þann mannafla, sérfræðiaðstoð og aðbúnað sem er nauðsynlegur við rannsóknina.
             Þrátt fyrir ákvæði 7. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, er heimilt að ráða starfsmenn til starfa hjá rannsóknarnefnd án auglýsingar. Lögin gilda að öðru leyti um réttindi og skyldur starfsmannanna.
             Kostnaður af starfi rannsóknarnefndar greiðist úr ríkissjóði.
     4.      Við 3. gr.
                  a.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Rannsóknarnefnd sker úr um hæfi starfsmanna nefndarinnar.
                  b.      Á eftir orðinu „nefndarmanna“ í 1. málsl. 2. mgr. komi: og starfsmanna.
                  c.      Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                     Nú verður ágreiningur um sérstakt hæfi nefndarmanns og sker þá rannsóknarnefnd úr, sbr. 5. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993. Til forseta Alþingis verður skotið ágreiningi um almennt hæfi nefndarmanns.
     5.      Í stað 3. mgr. 4. gr. komi sex nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
             Rannsóknarnefnd má fela að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á það hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta ábyrgð. Skal nefndin þá fjalla um það í skýrslu sinni.
             Vakni grunur við rannsókn nefndarinnar um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað tilkynnir hún ríkissaksóknara um það og tekur hann ákvörðun um hvort rannsaka beri málið í samræmi við lög um meðferð sakamála.
             Ef nefndin telur að ætla megi að opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar samkvæmt ákvæðum laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, eða ákvæðum annarra laga sem gilda um störf hans skal hún tilkynna viðkomandi forstöðumanni þar um og hlutaðeigandi ráðuneyti.
             Ekki er skylt að gefa viðkomandi kost á að tjá sig sérstaklega um þá ákvörðun rannsóknarnefndar að senda mál til ríkissaksóknara eða tilkynna það forstöðumanni eða ráðuneyti, sbr. 4. og 5. mgr.
             Rannsóknarnefnd skal aðeins meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á hvort grundvöllur sé fyrir því að ráðherrar sæti ábyrgð ef Alþingi fer sérstaklega fram á álit nefndarinnar um það efni. Skal slík beiðni þá skýrt afmörkuð í umboði nefndarinnar.
             Skipan rannsóknarnefndar sem ætlað er að fjalla um störf ráðherra, sbr. 7. mgr., hefur sömu réttaráhrif og kosning rannsóknarnefndar skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar til athugunar á störfum ráðherra, sbr. 2. mgr. 14. gr. laga nr. 4/1963, um ráðherraábyrgð.
     6.      Í stað 6. gr. komi þrjár nýjar greinar, 7.–9. gr., ásamt fyrirsögnum á undan 7. og 9. gr., svohljóðandi:
        a. (7. gr.)

Öflun gagna og upplýsinga.


                     Sérhverjum, jafnt einstaklingum, stofnunum sem lögaðilum, er skylt að verða við kröfu rannsóknarnefndarinnar um að láta í té gögn sem hún fer fram á. Með gögnum er m.a. átt við skýrslur, skrár, minnisblöð, bókanir, samninga, álit sérfræðinga og önnur gögn sem nefndin óskar eftir í þágu rannsóknarinnar, hvort sem þau eru prentuð (skrifleg) eða á rafrænu formi.
                     Sömu aðilum og greinir í 1. mgr. er jafnframt skylt að verða við óskum rannsóknarnefndar um að skýra skriflega frá athöfnum sínum og svara skriflega fyrirspurnum hennar.
                     Skylt er að verða við kröfu rannsóknarnefndar um afhendingu gagna og að veita upplýsingar þótt þær séu háðar þagnarskyldu. Sama gildir um upplýsingar sem óheimilt er að lögum að veita fyrir dómi nema með samþykki ráðherra, forstöðumanns eða annars yfirmanns viðkomandi, jafnt hjá hinu opinbera sem einkafyrirtæki.
                     Lögmaður, endurskoðandi eða annar aðstoðarmaður verður þó ekki krafinn upplýsinga, sem honum hefur verið trúað fyrir út af rannsókn nefndarinnar, nema með leyfi þess sem í hlut á. Ákvæði a- og b-liðar 2. mgr., 3. mgr. og 4. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála, gilda enn fremur um upplýsingagjöf þeirra sem þar eru tilgreindir. Dómari sker úr um upplýsingaskyldu þeirra og verður mál af því tagi rekið skv. 5. mgr. þessarar greinar.
                     Nú verður ágreiningur um afhendingu gagna, skýringa eða skriflegra svara, sbr. 1.–3. mgr., og getur rannsóknarnefnd þá leitað um hann úrskurðar héraðsdóms á grundvelli XV. kafla laga um meðferð sakamála. Lögregla skal veita nefndinni liðsinni við að framfylgja slíkum dómsúrskurði. Heimilt er að kæra úrskurðinn til Hæstaréttar innan þriggja sólarhringa frá uppkvaðningu hans.
                     Í þágu rannsóknar er rannsóknarnefnd heimilt að beita ákvæði 73. gr. laga um meðferð sakamála til að varna því að gögnum sé fargað og skal lögregla framfylgja þeirri ákvörðun.
                     Rannsóknarnefnd á frjálsan aðgang að öllum starfsstöðvum stjórnvalda og til rannsókna á aðstæðum í þágu þess verkefnis sem henni hefur verið falið. Starfsmenn stjórnvalda og þeir aðilar sem rannsókn tekur til, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., skulu láta rannsóknarnefnd í té alla nauðsynlega aðstoð vegna starfa hennar.
        b. (8. gr.)
                     Rannsóknarnefnd getur kallað einstaklinga til skýrslugjafar og skulu þeir sem gefa skýrslu segja satt og rétt frá fyrir nefndinni. Formaður stýrir skýrslutökum en getur falið öðrum nefndarmanni það. Þá getur hann falið starfsmanni nefndarinnar eða öðrum er vinna að rannsókninni að beina spurningum að þeim sem gefur skýrslu. Taka skal upp á hljóð- eða myndband það sem fram fer við skýrslutöku eða varðveita það með öðrum tryggilegum hætti.
                     Ef þeir sem kallaðir eru fyrir rannsóknarnefnd til skýrslutöku verða ekki við ósk nefndarinnar þar um getur nefndin óskað þess að héraðsdómari kveðji mann fyrir dóm til að bera vitni telji hún það nauðsynlegt í þágu rannsóknar málsins. Um kvaðningu og skýrslugjöf og aðra framkvæmd skal fara eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála eftir því sem við á. Ákveða má að skýrsla sé gefin fyrir luktum dyrum.
        c. (9. gr.)

Vernd uppljóstrara.


                     Óheimilt er að láta einstakling gjalda þess ef hann veitir í góðri trú rannsóknarnefnd upplýsingar sem hafa þýðingu fyrir rannsóknina.
                     Undir 1. mgr. fellur sú háttsemi að rýra réttindi, segja upp samningi, slíta honum eða láta einstakling gjalda þess á annan hátt að hann hafi látið rannsóknarnefnd í té upplýsingar sem þýðingu hafa fyrir rannsókn. Séu leiddar líkur að því skal gagnaðili sýna fram á að ákvörðun sé reist á öðrum forsendum en þeim að hann hafi veitt rannsóknarnefnd upplýsingar.
                     Ef einstaklingur hefur frumkvæði að því að láta rannsóknarnefnd í té upplýsingar eða gögn sem tengjast stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga, opinberri stofnun, fyrirtæki, móður- eða dótturfyrirtæki þess eða fyrirtækjum sem það er í viðskiptum við eða stjórnendum þeirra og óskar eftir því að hann sæti ekki ákæru, þótt upplýsingarnar eða gögnin leiði líkur að refsiverðu broti hans sjálfs, er rannsóknarnefnd heimilt að óska eftir því við ríkissaksóknara að hann ákveði að hlutaðeigandi sæti ekki ákæru. Ef um opinberan starfsmann er að ræða getur rannsóknarnefnd, af sama tilefni, óskað eftir því við forstöðumann eða ráðuneyti að hlutaðeigandi verði ekki látinn sæta viðurlögum vegna brota á starfsskyldum.
                     Skilyrði ákvörðunar skv. 3. mgr. eru að upplýsingar eða gögn tengist refsiverðu broti í opinberri stjórnsýslu eða broti á opinberum starfsskyldum og talið sé líklegt að þessar upplýsingar eða gögn geti haft verulega þýðingu fyrir rannsókn nefndarinnar samkvæmt lögum þessum eða séu mikilvæg viðbót við fyrirliggjandi sönnunargögn. Ef upplýsingar eða gögn tengjast refsiverðu broti er jafnframt skilyrði fyrir beitingu þessarar heimildar að rökstuddur grunur sé uppi um það að mati ríkissaksóknara að upplýsingar eða gögn tengist alvarlegu broti, fyrirséð sé að sök þess sem lætur slíkt í té sé mun minni en sök þess eða þeirra sem gögnin eða upplýsingarnar beinast gegn og ástæða sé til að ætla að án þeirra muni reynast torvelt að færa fram fullnægjandi sönnur fyrir broti.
     7.      Við 7. gr.
                  a.      Á eftir orðunum „Sá sem til rannsóknar er“ í 1. og 2. mgr. komi: sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr.
                  b.      Í stað 3. mgr. komi fjórar nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                     Að skýrslutöku og gagnaöflun lokinni skal þeim sem til rannsóknar er og ætla má að sætt geti ábyrgð, sbr. 3. og 7. mgr. 5. gr., gert kleift að tjá sig um þá málavexti og lagatúlkun sem rannsóknarnefnd íhugar að fjalla um í skýrslu sinni. Nefndin veitir viðkomandi hæfilegan frest til að gera skriflega athugasemd við þessi atriði.
                     Skylda til afhendingar gagna og til að láta af hendi upplýsingar og svör, sbr. 7. gr., og til að láta af hendi upplýsingar við skýrslugjöf, sbr. 8. gr., er þó ekki fyrir hendi ef ætla má að í henni geti falist játning eða bending um að sá sem beðinn er um að afhenda gögnin eða láta af hendi upplýsingar hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni. Sama á við ef ætla má að afhending gagna eða veiting upplýsinga hefði sömu afleiðingar fyrir einhvern þann sem tengist viðkomandi með þeim hætti sem segir í 1. og 2. mgr. 117. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. Gögn sem ráðherra eða starfsmaður stjórnsýslu hefur útbúið um störf sín verða þó ekki undanþegin afhendingu.
                     Ekki er heimilt að nota upplýsingar sem einstaklingur hefur veitt nefndinni sem sönnunargagn í sakamáli sem höfðað er gegn honum.
                     Ef maður lætur af ásetningi rannsóknarnefnd í té rangar eða villandi upplýsingar samkvæmt fyrirmælum laga þessara fer um refsingu fyrir slík brot skv. 145. og 146. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Um slík mál skal fara samkvæmt lögum um meðferð sakamála.
     8.      2. mgr. 8. gr. falli brott.
     9.      Orðin „og laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins“ í 1. mgr. 11. gr. falli brott.
     10.      Við bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
             Þrátt fyrir ákvæði til bráðabirgða I skal forseti Alþingis, samkvæmt þingsályktun frá 17. desember 2010, skipa rannsóknarnefnd til þess að rannsaka starfsemi Íbúðalánasjóðs. Um störf nefndarinnar fer að öðru leyti eftir lögum þessum.