Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1526  —  479. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um eflingu samgangna milli Vestur-Norðurlanda.

Frá utanríkismálanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ólínu Þorvarðardóttur, formann Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins, og Þórð Þórarinsson, framkvæmdastjóra Vestnorræna ráðsins.
    Með tillögunni er lagt til að Alþingi feli ríkisstjórninni að stofna vinnuhóp, í samvinnu við Færeyjar og Grænland og með mögulegri þátttöku Norrænu Atlantsnefndarinnar (NORA), til að vinna tillögur til eflingar innviða flug- og sjósamgangna á milli Vestur-Norðurlandanna í þágu aukins samstarfs á sviði ýmiss konar viðskipta og þjónustu auk vöru- og farþegaflutninga á milli landanna. Byggt verði á þeirri vinnu sem þegar hefur farið fram hjá ýmsum stofnunum á svæðinu. Skoðaðar verði sérstaklega í þessu sambandi forsendur fyrir auknum tengslum á sviði þjónustu og viðskipta á milli Vestfjarða og Austur-Grænlands.
    Tillagan byggist á ályktun nr. 3/2010 sem samþykkt var á ársfundi Vestnorræna ráðsins 24. ágúst 2010 í Tasiilaq á Grænlandi en þar er áskorun þessa efnis beint til ríkisstjórnar Íslands og landsstjórna Færeyja og Grænlands.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt óbreytt.
    Björgvin G. Sigurðsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 18. maí 2011.



Árni Þór Sigurðsson,


form., frsm.


Valgerður Bjarnadóttir.


Birgitta Jónsdóttir.



Bjarni Benediktsson.


Guðfríður Lilja Grétarsdóttir.


Helgi Hjörvar.



Ólöf Nordal.


Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.