Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1539  —  43. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis.

Frá 2. minni hluta allsherjarnefndar.



    Með frumvarpinu er lagt til að ráðherra sem jafnframt er kjörinn alþingismaður geti, ef hann telur ástæðu til, ákveðið að varamaður hans taki sæti á Alþingi meðan hann gegnir ráðherraembætti en að hann sitji á þingi einungis í krafti embættisstöðu sinnar skv. 51. gr. stjórnarskrárinnar.
    Í 51. gr. stjórnarskrárinnar er skýrt kveðið á um að ráðherrar eigi samkvæmt embættisstöðu sinni sæti á Alþingi en að þeir þurfi þó að gæta þingskapa. 2. minni hluti bendir á að stjórnarskráin geymir aðalákvæði um skipulag ríkisins og æðstu stjórn þess. Hún er öllum öðrum landslögum æðri og rétthærri og er því óeðlilegt að sú breyting sem lögð er fram í frumvarpinu sé gerð á þingsköpum en ekki stjórnarskránni. Að mati 2. minni hluta er ekki lagalegur grundvöllur fyrir því að breyta stjórnskipun ríkisins nema með breytingum á stjórnarskrá. 2. minni hluti hefur fullan skilning á því að ástæða sé að skýra aðskilnað löggjafarvaldsins og framkvæmdarvaldsins. Þar sem tillagan snýst hins vegar eingöngu um að heimila ráðherra að sitja einungis á Alþingi samkvæmt embættisstöðu sinni og kalla til varamann vakna upp spurningar hversu áhrifarík sú leið er. Að mati 2. minni hluta væri nær að gera tillögur að breytingum á stjórnarskrá á þá leið að ráðherra víki sæti á þingi á meðan hann situr á ráðherrastól í stað þess að velja þá leið sem farin er í frumvarpinu.
    Annar minni hluti bendir á að með samþykkt frumvarpsins væri verulega vegið að lýðræðinu. Breytingin hefði í för með sér að stjórnarmeirihluti gæti hugsanlega bætt við sig tíu mönnum á þingi umfram þann fjölda sem hann fékk kosinn í lýðræðislegum kosningum. Á sama tíma er í frumvarpinu ekki gert ráð fyrir að staða stjórnarandstöðunnar verði styrkt á neinn hátt, en hlutverk hennar er ekki síður mikilvægt en stjórnarmeirihlutans. Stjórnarandstaðan sinnir því mikilvæga verki að veita stjórnarmeirihluta þingsins og ríkisstjórn nauðsynlegt aðhald. 2. minni hluti leggst því gegn samþykkt frumvarpsins sem felur svo bersýnilega í sér aðför að þeirri stjórnskipan sem kveðið er á um í stjórnarskránni auk þess að ákvæði þess geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir lýðræðið í landinu.

Alþingi, 26. maí 2011.

Vigdís Hauksdóttir.