Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 828. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1553  —  828. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Frá sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og átt samskipti við lögfræðinga á vegum Alþingis og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis.
    Frumvarp þetta er lagt fram í tvennum tilgangi. Annars vegar til þess að lengja tímamörk laga nr. 46/2010, um breytingu á lögum um Bjargráðasjóð og lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum (stuðningur við bændur á náttúruhamfarasvæðum), sem samþykkt voru til þess að bregðast við afleiðingum eldgoss í Eyjafjallajökli. Er í þeim efnum miðað við gildistíma núverandi búvörusamnings um mjólkurframleiðslu. Hins vegar er tilgangurinn að heimila að viðeigandi ákvæði laga nr. 46/2010 nái einnig til framleiðenda á lögbýlum þar sem afurðasala hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á. Þannig væri brugðist við aðstæðum sem m.a. hafa komið uppi í Skutulsfirði við Ísafjarðardjúp vegna díoxínmengunar og/eða í öðrum sambærilegum tilvikum sem upp kunna að koma.
    Á fundum nefndarinnar var bent á að í þeim tilvikum þegar framleiðsluskilyrði á býlum og lögbýlum raskast tímabundið vegna þess að afurðasala hefur verið bönnuð af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á þá kunni þeir framleiðendur að eignast bótarétt á hendur þeim aðilum sem orsökuðu þær aðstæður sem leiddu til bannsins. Var m.a. nefnt sem dæmi að leiði mengun sem orðið hefur vegna ólögmætrar háttsemi þriðja aðila, þ.e. athafnar eða athafnaleysis hans, til banns þá kunni slíkt að leiða til þess að mengunarvaldurinn verði látinn bera skaðabótaábyrgð á því tjóni sem bannið hefur valdið framleiðandanum.
    Skilningur nefndarinnar er að komi til þess að þriðji aðili verði talinn skaðabótaskyldur gagnvart framleiðendum þá kunni ákvæði frumvarpsins að hafa í för með sér tvenns konar hættur, annars vegar hættu á að bótagreiðslur tjónvalds til framleiðenda yrðu lækkaðar sem næmi þeim greiðslum sem þeir fengju vegna ákvæða frumvarpsins, hins vegar hættu á að framleiðendur fái þegar upp er staðið greitt meira en nemur raunverulegu tjóni þeirra. Er það mat nefndarinnar ef greiðslur samkvæmt ákvæðum frumvarpsins kæmu til frádráttar skaðabótagreiðslum væri varnaðarhlutverki skaðabótareglna stefnt í hættu. Þá telur nefndin að ofgreiðslur skaðabóta fari gegn meginreglu skaðabótaréttar um að tjónþolar skuli fá tjón sitt bætt að fullu og kunni að orsaka ákveðið ójafnræði milli tjónþola í skaðabótamálum. Þá telur nefndin markmiðum laga nr. 46/2010 stefnt í hættu verði ekki brugðist við þeim hættum sem samþykkt frumvarpsins hefði í för með sér. Í ljósi þessa leggur nefndin til að breytingar verði gerðar á frumvarpinu þannig að bætt verði við ákvæðum sem girði fyrir framangreindar hættur.
    Nefndin leggur til að tillagan verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGUM:



     1.      Við 1. gr. bætist nýr liður, svohljóðandi: Við ákvæði til bráðabirgða W í lögunum bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Nú hefur framleiðandi fengið greiddar bætur vegna tjóns sem hann á jafnframt rétt á að fá bætt með beingreiðslum samkvæmt þessu ákvæði og er þá heimilt að lækka beingreiðslurnar sem bótunum nemur. Jafnframt er ráðherra heimilt að áskilja að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á síðar vegna tjónsins renni í ríkissjóð.
     2.      Við 2. gr. bætist nýr stafliður, svohljóðandi: Við bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
                  Heimilt er að binda ákvörðun um fyrirgreiðslu skv. 1. eða 2. mgr. skilyrði um að bætur sem framleiðandi kann að eiga rétt á frá þriðja aðila renni sem fyrirgreiðslunni nemur í ríkissjóð.

    Atli Gíslason og Róbert Marshall voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. maí 2011.



Lilja Rafney Magnúsdóttir,


form., frsm.


Ólína Þorvarðardóttir.


Einar K. Guðfinnsson.



Helgi Hjörvar.


Gunnar Bragi Sveinsson.


Björn Valur Gíslason.



Jón Gunnarsson.