Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 891. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Nr. 44/139.

Þskj. 1812  —  891. mál.


Þingsályktun

um prófessorsstöðu tengda nafni Jóns Sigurðssonar forseta.


    Alþingi ályktar – í tilefni af 200 ára fæðingarafmæli Jóns Sigurðssonar forseta 17. júní 2011 – að stofnuð verði prófessorsstaða tengd nafni hans.
    Prófessorsstaðan verði við Háskóla Íslands en starfsskyldur þess sem henni gegnir verði m.a. við Rannsóknasetur Háskóla Íslands á Vestfjörðum og í samstarfi við Háskólasetur Vestfjarða.
    Staðan verði auglýst og skipað í hana á fimm ára fresti eftir almennum reglum um prófessora. Heimilt verði að endurnýja skipunartímann einu sinni.
    Prófessorinn hafi rannsóknar- og kennsluskyldu í sínu fagi. Eitt lykilverkefna verði að halda árlega ráðstefnur og námskeið í sumarháskóla á Hrafnseyri með innlendum og erlendum kennurum og fyrirlesurum.
    Við skipun í prófessorsembættið verði höfð hliðsjón af því hvernig áætlun umsækjenda um rannsóknastarf og kennslu tengist lífi, starfi og arfleifð Jóns Sigurðssonar og efli þekkingu á sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar.
    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa málið þannig að prófessorinn geti tekið til starfa frá og með næstu áramótum.

Samþykkt á Alþingi 15. júní 2011.