Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 100. máls.
139. löggjafarþing 2010–2011.
Þskj. 1873  —  100. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum.

Frá minni hluta félags- og tryggingamálanefndar.



    Meginefni þessa frumvarps er að gera Íbúðalánasjóði kleift að bjóða upp á óverðtryggð útlán og jafnframt að veita sjóðnum heimild til að slík útlán beri breytilega vexti. Breytingartillögur meiri hlutans snúa jafnframt að því að fella brott aðra þætti frumvarpsins en þá sem varða heimild til handa sjóðnum að veita óverðtryggð lán. Í upphafi er rétt að taka fram að undirritaður styður meginþætti frumvarpsins og leggur til að það verði samþykkt. Hins vegar er mikilvægt að fram komi sú staðreynd að hér er aðeins um mjög lítið skref að ræða og tekur frumvarpið á engan hátt heildstætt á þeim vanda sem verðtryggingin er.
    Áður en Íbúðalánasjóður getur boðið upp á óverðtryggð útlán þarf sjóðurinn að vinna sig út úr verðtryggingunni. Í fyrstu þarf sjóðurinn að kanna möguleika á útgáfu óverðtryggðra skuldabréfaflokka. Sjóðurinn er fjármagnaður að stærstum hluta gegnum ÍLS (70%). Stærstur hluti þessarar fjármögnunar er í formi verðtryggðra skuldabréfa sem eru án uppgreiðsluheimilda. Af u.þ.b. 800 milljarða útlánasafni sjóðsins eru einungis tæpir 40 milljarðar sem hægt er að greiða upp strax, afganginn er ekki hægt að greiða upp fyrr en að 25 árum liðnum og því þarf að ná samningum við lífeyrissjóðina um uppgreiðslu á þessum verðtryggðu bréfum og nýrri fjármögnun í formi óverðtryggðra bréfa. Niðurstöður þessa liggja ekki fyrir og áætlar sjóðurinn að þessi vinna geti tekið að lágmarki 12 mánuði. Það kom einnig fram hjá sjóðnum að vinna við þetta sé á byrjunarstigi sem þýðir að óverðtryggð fasteignalán eru ekki alveg handan við hornið eins og margir hafa látið í veðri vaka. Í þessari umræðu þarf einnig að huga að þeirri staðreynd að lífeyrissjóðir eru lögum samkvæmt skuldbundnir til að verðtryggja lífeyri og hvernig geta sjóðirnir staðið við slíkt án þess að umræðan sé tekin um umgjörð lífeyrissjóðakerfisins á sama tíma?
    Verðtrygging útlána er án nokkurs vafa eitt stærsta vandamál fólksins í landinu og það er ljóst að stærsta verkefni stjórnvalda er að leita leiða til afnáms hennar. Það eitt og sér er ekki nóg heldur verður einnig að taka á vanda þeirra sem í dag eru með verðtryggð útlán sem hækka gríðarlega um hver mánaðamót.
    Í ljósi þungrar skuldabyrði heimilanna er ekki mikil von til þess að margir fari úr verðtryggðum lánum yfir í óverðtryggð húsnæðislán. Vegna þess ætti verkefnið að vera að setja þak á verðtrygginguna á ársgrundvelli sem miðast við verðbólgumark Seðlabankans með þolmörkum. Framsóknarflokkurinn lagði þetta til haustið 2009 og aftur á yfirstandandi löggjafarþingi og er málið nú til umfjöllunar í viðskiptanefnd. Þakið yrði fyrsta raunverulega skrefið sem stigið yrði í þá átt að afnema verðtrygginguna. Samkvæmt útreikningum Marinós G. Njálssonar, ráðgjafa, hefur komið fram að ef 4% þak hefði verið sett á verðtrygginguna sl. 20 ár hefði raunávöxtun lífeyrissjóðanna náð að jafnaði 3,5% ávöxtun.
    Annað mikilvægt atriði er að ná fram raunvaxtalækkun fasteignalána. Staðreyndin er sú að raunvextir innlendra verðtryggðra húsnæðislána eru hærri heldur en þegar kemur að óverðtryggðum húsnæðislánum í nágrannalöndum okkar. Það er ljóst að slík vaxtalækkun mundi minnka greiðslubyrði íslenskra heimila mjög mikið.
    Um leið og mælt er með samþykkt þessa máls skal það tekið fram að frumvarpið tekur á engan hátt á þeim vanda sem fylgir verðtryggingunni og því er gerð sú krafa að ríkisstjórnin svari kalli þjóðarinnar og hefji raunverulega vinnu við að taka á þeim vanda sem verðtryggingin veldur daglega hjá heimilum og fyrirtækjum landsins.

Alþingi, 7. sept. 2011.



Ásmundur Einar Daðason.