Samgönguáætlun 2011--2022

Fimmtudaginn 19. janúar 2012, kl. 16:45:33 (4114)


140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[16:45]
Horfa

Arna Lára Jónsdóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um samgönguáætlun fyrir árin 2011–2022. Þetta er heilmikið plagg og mér fannst ánægjulegt að sjá í gær að það yrði á dagskrá þingsins í dag. Samgöngumál snerta mig sérstaklega þar sem ég bý á Ísafirði. Í umræðunum í dag hef ég orðið vör við að hér hafa þingmenn komið og rætt sérþarfir á hverju svæði. Ég tel það eðlilegt af því að heimamenn þekkja aðstæður á sínu svæði einna best. Hér höfum við horft á þingmenn Reykvíkinga, þingmenn úr Norðausturkjördæmi o.s.frv. tala fyrir sínu máli. Það verður ekkert öðruvísi með mig, ég mun fyrst og fremst huga að samgöngum á mínu svæði og hvað vantar upp á.

Ég mun í grunninn leggja áherslu á það sem mér finnst að ræða eigi á milli umræðna. Mér finnst samgönguáætlunin í grunninn vera ágæt og um margt góð en ég vil leggja áherslu á þau atriði sem mér finnst að umhverfis- og samgöngunefnd eigi að hugsa um á milli umræðna.

Ég held að markmiðið með samgönguáætlun sé eitthvað sem allir geti vel sætt sig við og skrifað upp á. Ef ég má lesa upp aðalmarkmið samgönguáætlunar um greiðar samgöngur, með leyfi forseta:

„Aðgengi og hreyfanleiki í samgöngukerfinu fyrir flutninga á fólki og vörum innan og á milli svæða verði bættur. Sköpuð verði skilyrði fyrir flesta landsmenn til að komast til atvinnu- og þjónustukjarna á innan við einni klukkustund.

Skilgreindir verði atvinnu- og þjónustukjarnar landsins í sóknaráætlunum landshluta og landsskipulagsstefnu.

Samgöngur styrki uppbyggingu og þróun þjónustusvæða í öllum landshlutum.

Skilgreindar verði hafnir og flugvellir sem tryggja eiga greiðar samgöngur til og frá landinu.“

Ég held að við getum öll skrifað upp á þetta. En þegar maður horfir á þessi markmið, með tilliti til þess svæðis sem ég kem frá, þá finnst mér ansi langt í að þetta verði að veruleika því miður. Það er því miður þannig.

Ég vil líka benda á að margar áherslur eru til að ná þessum markmiðum sem mér finnst afskaplega góðar og ég vil nefna kannski góðu atriðin fyrst. Það er til dæmis f-liður á bls. 2, með leyfi forseta:

„Gerð verði félagshagfræðileg úttekt á framtíð áætlunarflugs innan lands. Teknar verði upp viðræður milli ríkisins og Reykjavíkurborgar og tryggt að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi hátt.“

Þetta er náttúrlega hagsmunamál landsbyggðar til margra ára. Það er vilji sveitarstjórnarmanna í Reykjavík að færa flugvöllinn úr Vatnsmýrinni gegn kröftugum mótmælum landsbyggðarfólks. Þess vegna gladdi það mig mjög að sjá þessa áherslu í samgönguáætluninni.

Mér fannst líka mjög skemmtilegt, þegar ég var að renna yfir blöðin í morgun, að sjá viðtal við forstjóra Icelandic Group þar sem hann leggur áherslu á að flugvöllurinn verði í Vatnsmýrinni. Hann segir að engin rök séu fyrir því að færa völlinn. Ef ég má vitna beint í Björgólf Jóhannsson, forstjóra Icelandic Group:

„Ég sé engar forsendur ákvörðunar á að fara. Það er algerlega klárt að flugvöllurinn á að vera í Reykjavík. Það kemur bara ekkert annað til greina.“

Hann bætir jafnvel í með það að færa eigi millilandaflug nær Reykjavík og það held ég að sé eitthvað sem mætti skoða.

Mig langar að ræða atriði sem ég hef ekki heyrt að tekið hafi verið upp í dag en það eru tengsl samgöngukerfisins og ferðaþjónustunnar. Það er eitt af áhersluatriðum í samgönguáætlun að tengja uppbyggingu ferðaþjónustu við samgöngukerfið. Ég tel það mjög gott en ég hnaut þó um eitt atriði í því þar sem segir að huga eigi sérstaklega að þörfum ferðaþjónustunnar við uppbyggingu og rekstur samgöngukerfisins, að markaðssvæði ferðaþjónustunnar verði höfð til hliðsjónar við mótun samgöngustefnu. Þá vil ég spyrja: Hver eru markaðssvæði ferðaþjónustu? Eru það uppsveitir Árnessýslu? Er það Bláa lónið eða er það Látrabjarg? Hver eru markaðssvæði ferðaþjónustu? Mér finnst ekki gott ef forsendur markaðarins eru hafðar til hliðsjónar við uppbyggingu samgöngukerfisins, það er ávísun á illa unnin verk og að heildarhagsmunir verði ekki hafðir að leiðarljósi. Ég vil spyrja ráðherrann, sem er víst í húsinu, hvað hann eigi við með markaðssvæði ferðaþjónustunnar. Látrabjarg dregur ferðamenn til Vestfjarða eins og segull og þangað er algerlega ófært nema þrjá mánuði á ári og þá þarf fólk helst að vera á mjög góðum bíl.

Ég vona að umhverfis- og samgöngunefnd skoði þessi mál. Það er mjög jákvætt að ferðaþjónustan skuli vera tekin inn í myndina þegar stefna er mótuð í samgöngumálum, það er mjög mikilvægt.

Það er líka eitt af aðalmarkmiðum samgönguáætlunar að endurskilgreina þjónustukjarnana. Mér finnst mjög gott að ekki eigi lengur að miða allt við Reykjavík heldur eigi að móta þjónustukjarna á hverju landsvæði. Það finnst mér mjög gott af því að Reykjavík er ekki allt í hugum okkar landsmanna heldur viljum við líka horfa á landsvæðin út af fyrir sig. Við erum ekki í vandræðum með það á Vestfjörðum hver höfuðstaðurinn er, það er Ísafjörður en við viljum gjarnan eiga greiðar samgöngur við okkar næstu byggðir. Mér finnst mjög gott ef við ætlum að fara að horfa á þetta út frá þeirri skilgreiningu en ekki út frá Reykjavík.

Margar framkvæmdir í samgönguáætlun eru afar aðkallandi og kosta gríðarlega mikla fjármuni. Þá kemur að því að það þarf að forgangsraða, og ég held að það sé lykilhugtak í þessari umræðu. Til að sátt náist um forgangsröðun verkefna þurfa viðmiðin að vera á hreinu. Ég hef hlustað á þingmenn Norðausturkjördæmis færa afskaplega góð rök fyrir jarðgangaframkvæmdum á Austurlandi og ég get svo sannarlega tekið undir þau sjónarmið. En þau sjónarmið eiga sér líka stoð á Vestfjörðum og þá er ég að tala um Dýrafjarðargöng.

Við endurskoðun vegáætlunar 2010 var ákveðið að fara ætti samhliða í Dýrafjarðargöng og Norðfjarðargöng. Ég vil spyrja: Hvað varð til þess að þessi forgangsröðun breyttist, hvað gerðist? Það var samþykkt 2010 að fara ætti í þetta samhliða en nú eru Norðfjarðargöng allt í einu komin á undan. Mér finnst að þau viðmið sem notuð voru við að meta þessar framkvæmdir eigi að vera uppi á borðinu. Ég hef velt því fyrir mér hvaða viðmið þetta hafi verið. Ég fann á netinu jarðgangaáætlun Vegagerðarinnar sem var gefin út árið 2000 — og ég sé að vegamálastjóri, sem er hér í hliðarsal, var einn af þeim mönnum sem sátu í þeim hópi. Um er að ræða faglegt mat Vegagerðarinnar á brýnustu verkefnum á sviði jarðgangagerðar.

Það er svolítið merkilegt að lesa þetta plagg, sem ég hvet þingmenn til að gera og þá sérstaklega þingmenn í umhverfis- og samgöngunefnd, af því að þarna er mikið af góðum upplýsingum og sérstaklega af því að þetta er faglegt mat. Þetta er ekki óskalisti þingmanna heldur er þetta faglegt mat Vegagerðarinnar á brýnustu verkefnum á sviði jarðgangagerðar. Þar kemur fram það mat að þrjú verkefni séu brýnust á sviði jarðgangagerðar en þau eru: Göng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar, göng milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar og göng milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar. Eins og glöggir hlustendur taka eftir er búið að gera tvenn göng en ein eru eftir, göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Um er að ræða faglegt mat Vegagerðarinnar á brýnustu verkefnum í jarðgöngum og svo eru Norðfjarðargöng, sem eru ágæt til síns brúks, allt í einu komin fram fyrir í röðinni og mér finnst rétt að innanríkisráðherra svari því hvað hafi valdið þeirri breytingu.

Ég hef velt því fyrir mér hvaða viðmið gætu hafa verið notuð. Um Oddsskarð eru göng sem ekki eru góð. Maður fær fréttir af því að það sé að hrynja úr þeim göngum og þau séu ekki boðleg. En ég vil þá minna á að vegur milli staða á Vestfjörðum er ófær í 120 daga á ári en það er þó hægt að komast milli Norðfjarðar og Eskifjarðar alla daga ársins. Ég held að við eigum að geta gert þá kröfu að fá að vita hvaða viðmið voru notuð við þessa forgangsröðun.

Kannski er horft til styttingar vegalengda. Með því að fara í Norðfjarðargöng mun vegalengd styttast um 4 kílómetra. En þegar horft er á Dýrafjarðargöng þá mun vegalengdin á milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar styttast um 309 kílómetra 9 mánuði á ári en um 27 kílómetra yfir sumartímann. Ég held að ekki sé til of mikils ætlast að vilja fá svör við því hvaða viðmið hafi verið notuð við forgangsröðun í jarðgangaframkvæmdum.

Ég hef hlustað á þingmenn Norðvesturkjördæmis tala um að það sé fjórðungssjúkrahús á Neskaupstað. Já, það er líka fjórðungssjúkrahús á Ísafirði sem allir íbúar Vestfjarða ættu að nota en geta það ekki. Það er líka menntaskóli á Ísafirði. Sýslumaðurinn er á Ísafirði, hann er ekki á Patreksfirði. Lögreglustjórinn er á Ísafirði. Þau viðmið sem rædd hafa verið sem röksemd fyrir Norðfjarðargöngum eiga svo sannarlega líka við um Dýrafjarðargöng. Mér finnst að við eigum rétt á skýringu hvað þetta varðar.

Ég er ekkert komin að uppbyggingu Vestfjarðavegar nr. 60 enda hefur það verið mikið rætt í dag og sú veglagning hefur verið til umræðu í ansi mörg ár. Það hefur komið fram að hlutfallslega fær Norðvesturkjördæmi mest af fjármunum til vegagerðar. Það er ekkert skrýtið af því að þar eru lengstu vegir landsins, þar eru erfiðustu vegir landsins, það er rökrétt að mestu fjármunum skuli vera varið til vegagerðar á Vestfjörðum. Ég geri ekki athugasemdir við að setja eigi mikla peninga í Landspítala – háskólasjúkrahús og ég geri ekki miklar athugasemdir við uppbyggingu Hörpu. En ég geri þá líka ráð fyrir því að okkur sé sýndur skilningur á þeim aðstæðum sem eru í vegamálum á Vestfjörðum.

Ég vil taka undir með þeim þingmönnum í Norðvesturkjördæmi sem hafa bent á ástand vega í Árneshreppi, sem er alveg skelfilegt. Ég vonast til þess að umhverfis- og samgöngunefnd taki á þeim þáttum sem ég hef minnst á og sérstaklega hvað varðar viðmiðin í forgangsröðun í jarðgangagerð.