Samgönguáætlun 2011--2022

Fimmtudaginn 19. janúar 2012, kl. 17:26:05 (4124)


140. löggjafarþing — 45. fundur,  19. jan. 2012.

samgönguáætlun 2011--2022.

393. mál
[17:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var ágætur kokteill, ágæt blanda af sanngirni og raunsæi þegar litið er til þeirra miklu samgöngubóta sem orðið hafa á Íslandi á undanförnum árum og áratugum. Hvað bjartsýnina áhrærir sem hv. þingmaður telur að skorti á í kokteilnum til að hann verði vel drykkjarhæfur get ég ekki alveg tekið undir það.

Sumir vilja blása eða hafa blásið samgönguáætlunina út af borðinu sem ekki nægilega metnaðarfulla og segja að við ættum að leggja meira í hana. Þeir ættu að íhuga svolítið hvað við erum í rauninni að tala um. Á næstu tíu árum, á næsta áratug samkvæmt þessari áætlun, værum við komin með nýja Vestmannaeyjaferju, við værum komin með Norðfjarðargöng, við værum komin með Dýrafjarðargöng, við værum komin með vegabætur í Gufudalssveit, hugsanlega göng undir Hjallaháls, við værum búin að laga veginn á Dynjandisheiði, við værum komin með nýja Hornafjarðarbrú, nýja brú yfir Ölfusá, við værum búin að breikka alla vegina út frá höfuðborginni, það erum við að tala um að gerist á Íslandi í vegabótum á næstu tíu árum og menn tala um metnaðarleysi á sama tíma og við erum að takast á við efnahagshrun. Við erum að reyna að reisa okkur upp úr því. Ég segi: Þetta eru mjög metnaðarfull áform og ég væri hæstánægður ef okkur tækist að standa við þau. Mér finnst að við þurfum að horfa örlítið á málin af raunsæi og bjartsýni. (Forseti hringir.) Við erum að tala um gríðarlegar samgöngubætur á næstu tíu árum. Tíu ár eru ekki langur tími. (Gripið fram í.)