Staða kjarasamninga

Fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 10:40:22 (4572)


140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

staða kjarasamninga.

[10:40]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Á þessu kjörtímabili hefur hæstv. ríkisstjórn tekið upp alveg nýja siði, nýja tegund af verkalýðsbaráttu, þ.e. baráttu við verkalýðshreyfinguna og gegn verkalýðshreyfingunni. Þetta hefur komið fram eins og allir vita í stöðugleikasáttmálanum og hefur komið mjög skýrt fram síðustu vikurnar og mánuðina í aðdraganda þess þegar aðilar vinnumarkaðarins þurftu að taka ákvörðun um hvort þeir mundu segja upp kjarasamningum.

Í sérstakri yfirlýsingu samninganefndar ASÍ vegna endurskoðunar kjarasamninga segir svo, með leyfi forseta:

„Það er ekki ofsögum sagt að samskipti verkalýðshreyfingarinnar við ríkisstjórnina vegna vanefnda hennar á mikilvægum liðum yfirlýsingarinnar hafa verið með slíkum ólíkindum að hrikt hefur í stoðum.“

Síðar í yfirlýsingunni segir, með leyfi forseta:

„… að sama skapi ámælisvert að vinnubrögð ríkisstjórnarinnar séu með þeim hætti að málum er hleypt í farveg átaka um efnisatriði sem sátt hafði náðst um fyrir átta mánuðum. Innan raða Alþýðusambandsins ríkir mikil gremja í garð stjórnvalda vegna þessa. Það er ólíðandi að íslenskt launafólk skuli ekki geta treyst orðum oddvita ríkisstjórnarinnar.“

Staðan var sem sagt sú að allir voru sammála um að viðsemjendurnir, þ.e. Samtök atvinnulífsins og ASÍ, hefðu staðið við sitt. Álitamálið var að hæstv. ríkisstjórn hafði komið að þessu máli með yfirlýsingum, enn einum yfirlýsingunum, og niðurstaða Alþýðusambands Íslands, verkalýðshreyfingarinnar, fjölmargra verkalýðsfélaga, var sú að ríkisstjórnin hefði svikið allt sem hún hafði lofað í tengslum við þessa samninga. Þess vegna, eins og forseti Alþýðusambands Íslands sagði, er fullt tilefni til að segja upp þessum samningum af þeim ástæðum. Sem betur fer varð niðurstaðan sú að samningunum var ekki sagt upp en það er ekki ríkisstjórninni að þakka, það var gert þrátt fyrir það sem ríkisstjórnin hefur verið að gera af sér.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Telur hún að Alþýðusamband Íslands og verkalýðshreyfingin (Forseti hringir.) séu með framgangi sínum og því sem þau hafa sagt í tengslum við kjarasamningana komin í stjórnarandstöðu eins og hún sagði um Samtök atvinnulífsins?