Háskólar

Fimmtudaginn 26. janúar 2012, kl. 12:03:22 (4606)


140. löggjafarþing — 49. fundur,  26. jan. 2012.

háskólar.

468. mál
[12:03]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006, en tilefni þessa frumvarps er meðal annars ábendingar úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og skýrslu þingmannanefndar sem skipuð var í framhaldi af fyrri skýrslunni.

Svo ég rifji það aðeins upp fyrir þingheimi eru í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis ábendingar til fræðasamfélagsins um hlutverk háskóla, ábyrgð starfsmanna og um almenna þátttöku háskóla í samfélagsumræðu. Í skýrslu þingmannanefndarinnar koma jafnframt fram ábendingar til fræðasamfélagsins um að taka verði alvarlega þá gagnrýni sem fram kemur í skýrslu rannsóknarnefndar. Bent er á að endurskoða þurfi ákvæði laga um háskóla og laga um opinbera háskóla, einkum með tilliti til fjárhags skólanna, stöðu og hlutverks starfsmanna þeirra í þeim tilgangi að tryggja betur frelsi háskólasamfélagsins og fræðilega hlutlægni. Auk þess segir að hvetja þurfi háskólamenn á öllum fræðasviðum til að taka þátt í opinberri umræðu og styrkja þannig tengsl fræðasamfélags, atvinnulífs og hins almenna borgara. Nauðsynlegt sé að efla siðfræðilega menntun allra fagstétta á Íslandi og umræðu um gildi siðareglna.

Ég vil nefna að háskólarnir hafa margir hverjir brugðist sjálfir við með talsverðri umræðu innan sinna raða, ekki síst þegar kemur að siðareglum fyrir háskóla og nauðsyn þess að háskólaborgarar taki þátt í opinberri umræðu. Ég lít því svo á að háskólarnir hafi sjálfir þegar brugðist við með því að efna til umræðu innan sinna raða, en hér má segja að löggjafinn bregðist einnig við með því að taka þetta frumvarp til umræðu.

Í fyrsta lagi vil ég segja að talsverður munur er á stjórnskipan samkvæmt lögum um opinbera háskóla annars vegar og lögum um háskóla hins vegar. Álitamál er hvort eðlilegt sé að gera slíkan greinarmun sem byggist á rekstrarformi skóla. Eitt af því sem við sáum við vinnu við frumvarpið er að þetta er sjaldnast gert. Ef við lítum til að mynda til háskóla annars staðar á Norðurlöndum þar sem eru til ýmsar tegundir háskóla, gildir í raun og veru um þá ávallt einn lagarammi sem gerir ráð fyrir að háskóli sé alltaf stofnun af ákveðnu tagi, burt séð frá rekstrarformi hans. Í gildandi lögum um háskóla er til að mynda ekki gert ráð fyrir neinum fulltrúa úr háskólasamfélagi í háskólaráði viðkomandi skóla og ekki er kveðið á um skipunartíma eða hver sé munur á hlutverki háskólaráðs og háskólafundar. Í framangreindum lögum er hins vegar tekið fram að háskólaráð ákveði hlutverk og fyrirkomulag háskólafundar og tryggja þurfi að starfsfólk skólans komi að háskólafundinum. Því má segja að vald og vægi háskólafundar sé mjög mismunandi eftir vilja viðkomandi háskólaráðs.

Þær spurningar hafa vaknað hvort þetta fyrirkomulag tryggi nægilega lýðræðislega aðkomu að stjórn skólans. Í frumvarpinu er því gert ráð fyrir að í stofnskjölum þeirra háskóla sem reknir eru sem sjálfseignarstofnanir eða hlutafélög sé kveðið á um setu fulltrúa starfsmanna og nemenda í stjórn eða háskólaráði og í þeim stjórnunareiningum þar sem fjallað er um kennslu og rannsóknir. Þetta tel ég mjög mikilvægt til að tryggja lýðræðislega umræðu innan skólanna þegar kemur að því faglega starfi sem þeir sinna, hvort sem er í kennslu eða rannsóknum, að þar eigi nemendur og starfsmenn fulltrúa.

Síðan er lögð til breyting þar sem er kveðið sérstaklega á um fræðilegt sjálfstæði háskólakennara og er ætlað að tryggja að þeir hafi sjálfstæði og frelsi til að fjalla um kennslugrein sína á þann hátt sem þeir telja skynsamlegt, án afskipta utanaðkomandi aðila. Þá segir einnig að viðfangsefni rannsókna og kennslu á vegum háskóla skuli vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann eða veita honum fé. Það sem hér er kallað fræðilegt sjálfstæði á íslensku köllum við stundum akademískt frelsi og ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að setja þetta ákvæði í lög um háskóla. Það hefur ekki verið í lögum um íslenska háskóla og þar skerum við okkur nokkuð frá öðrum Evrópulöndum svo dæmi sé tekið en í langflestum ríkjum er þetta í lögum, sums staðar hreinlega í stjórnarskrá. Ég held því að það sé mjög mikilvægt að þetta atriði komi inn í lög um háskóla. Skólarnir hafa vissulega gert með sér sameiginlega yfirlýsingu um akademískt frelsi í vinnubrögðum en ég held að þetta sýni að löggjafinn eigi að sýna þann eindregna vilja sinn að þetta sé mikilvægt hverjum háskóla.

Í þriðja lagi er hér lagt til að réttindi fatlaðra til háskólanáms verði leidd í landslög í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður var af hálfu Íslands þann 30. mars 2007. Þetta er í samræmi við þá framkvæmdaáætlun um málefni fatlaðra sem hæstv. velferðarráðherra mun mæla fyrir, hér á eftir held ég. Þetta er mjög mikilvægt réttindamál og þó að vitað sé að háskólarnir hafi margir hverjir og þá einna helst Háskóli Íslands komið til móts við fatlaða nemendur og tryggt þeim aðstoð hefur þetta ekki verið lögfest. Ég held að það sé afar mikilvægt að þessi réttur verði lögfestur og fullgiltur með þessum hætti.

Meðal annarra atriða sem ég vil nefna er að skýrt er kveðið á um að einungis viðurkenndir háskólar megi bera heitið háskóli. Þetta er nokkuð sem við höfum átt við að stríða, það er ákveðin tilhneiging til þess að allir vilji kalla sig háskóla þannig að það er mjög mikilvægt að það sé skýrt í lögum hvað þurfi til þess. Þetta hangir líka saman við þá miklu vinnu sem hefur farið fram, ekki í gegnum löggjöfina heldur hingað til í ráðuneytinu við að efla bæði form viðurkenninga fyrir háskóla og gæðamál háskóla. Eitt af því sem þegar hefur verið gert til að mynda, eins og ég hef greint frá áður, er að stofnað hefur verið alþjóðlegt gæðaráð sem fer nú með mat á háskólum. Ég held að þetta sé mikið framfaraskref, að hafa í raun sérstakt ráð erlendra sérfræðinga sem annast það að gera áætlanir um hvernig meta skuli gæði og kemur líka að því þegar endurnýjaðar eru viðurkenningar fyrir háskóla. Þetta er nokkuð sem ég held að skipti miklu máli fyrir gæði íslensks háskólastarfs.

Mælt er fyrir um að háskólar skuli ekki reknir í hagnaðarskyni. Þetta er umræða sem á sér stað alls staðar í hinum vestræna heimi innan háskólasamfélaga og sérstaklega vestan hafs. Þar er auðvitað mikil saga einkarekinna háskóla sem eru samt ekki reknir í hagnaðarskyni og eru auðvitað margir hverjir bestu háskólar í heimi. Þar hafa hins vegar verið að koma upp nýlega skólar sem eru beinlínis reknir í hagnaðarskyni og umræðan um það hvort þetta sé eðlilegt hefur verið mjög áberandi vestan hafs og einnig í Evrópu. Hér er hreinlega lagt til að þeir skuli ekki vera reknir í hagnaðarskyni.

Síðan er lagt til að tekið verði upp það almenna skilyrði við ráðningu prófessora, dósenta, lektora og sérfræðinga við háskóla að umsækjendur hafi doktorspróf eða sambærilega menntun eða reynslu. Þetta er atriði sem ég mun óska eftir að eiga samstarf við hv. allsherjar- og menntamálanefnd um, því að þetta er að verða hin almenna krafa víðast hvar í háskólum á Vesturlöndum, þarna er þó ákveðinn munur milli greina. Ég ætla að nefna sérstaklega Listaháskóla Íslands og kennara sem þar starfa í því sem við getum kallað listsköpunargreinum, þ.e. eru ekki endilega fræðilegir prófessorar heldur prófessorar sem koma beint úr geiranum, eru til að mynda framúrskarandi söngvarar, leikarar eða annað slíkt en hafa þó yfirleitt aldrei lokið doktorsprófi í grein sinni. Í lögunum er sagt að þeir skuli hafa jafngilda þekkingu og reynslu að mati dómnefndar. Þetta þarf að skoða mjög nákvæmlega því að afar mikilvægt er að skólarnir geti viðhaldið þeirri dýnamík sem stundum þarf inn í háskólasamfélagið til að geta ráðið slíkt fólk til starfa. Hugsanlega þarf að skerpa á þessu ákvæði og ég legg það í hendur hv. allsherjar- og menntamálanefndar að meta þetta með okkur.

Opnað er fyrir það að ráðherra geti í samningum falið einstaka háskólum að sinna kennslu eða rannsóknum á ákveðnum afmörkuðum sviðum. Þetta snýr auðvitað að þeirri umræðu sem við höfum átt hér um að við eigum sjö háskólastofnanir í landinu. Þær eru mjög eðlisólíkar og eðlilegt er að ákveðið miðstýringarvald sé fyrir hendi til að tryggja að fjármagni sé sem best varið og að ekki taki allir að sér öll verkefni heldur skipti skólarnir með sér verkum. Ég vil nefna það, af því að talsvert hefur verið rætt í þessum sal um sameiningar háskóla og fleira, að þar höfum við auðvitað unnið mikið starf í fyrsta lagi með samstarfsnefnd um opinbera háskóla og væntanlegt er frumvarp mitt til laga um opinbera háskóla þar sem sú nefnd verður lögfest.

Ég veit að ýmsir hv. þingmenn hafa áhuga á því að ganga lengra í sameiningarmálum og ég tel eðlilegt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd ræði þau mál sérstaklega í tengslum við þetta, en ég held líka að brýnt sé að við horfum ekki bara á löggjöfina í þeim efnum heldur horfum á það sem er raunverulega að gerast. Samstarfsnetið er farið að skila umtalsverðum árangri en ég tel hins vegar að þegar ég mæli fyrir frumvarpi til laga um opinbera háskóla gefist okkur líka færi á að ræða næstu skref í þeim efnum, svo sem hvernig við viljum halda áfram með netháskólahugmyndina. Ég tel hana lykilatriði í því að tryggja þetta öfluga háskóla- og rannsóknarstarf um land allt en ná um leið miklu meiri samlegð í starfið.

Ég hef rakið helstu þætti þessa frumvarps og vona að það verði samþykkt. Ég tel að það leiði til skarpari skilnings á hlutverki háskóla í samfélagi nútímans, háskólar fái með skýrari hætti sjálfstæði sitt staðfest gagnvart eigendum sínum, hverjir sem þeir eru, hvort sem það er ríki eða aðrir aðilar, og starfsmönnum skólanna sé tryggt fræðilegt sjálfstæði. Þetta hefur verið hugðarefni mitt alllengi þannig að ég vona innilega að það nái fram að ganga.

Stefnan er síðan að tryggja bein áhrif starfsmanna og nemenda í innra starfi skólanna með þeim breytingum á stjórnskipulagi sem ég nefndi áðan. Þetta frumvarp hefur þegar verið kynnt, eins og fram kemur hér í greinargerð, annars vegar hefur það verið óformlega rætt með rektorum háskólanna í samstarfsnefnd háskólastigsins og hins vegar var það kynnt á heimasíðu ráðuneytisins þangað sem bárust athugasemdir. Ekki leiddu þær til róttækra breytinga á frumvarpinu en hins vegar áttum við ágætissamtöl við þá háskóla sem sendu inn athugasemdir. Þeir munu væntanlega endurnýja þær ef þeir telja ástæðu til við nefndina. Hins vegar var bætt inn greininni um rétt fatlaðra nemenda í háskólanámi eftir þetta opna ferli.

Ég hef ekki fleiri orð um þetta að sinni en vænti þess að málinu verði, að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, vísað til hv. allsherjar- og menntamálanefndar.