Stuðningur við afreksfólk í íþróttum

Mánudaginn 30. janúar 2012, kl. 15:15:09 (4635)


140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

stuðningur við afreksfólk í íþróttum.

[15:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Við hæstv. menntamálaráðherra og fleiri þingmenn, eins og hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, sátum glæsilegt afmælishóf, 100 ára afmæli ÍSÍ, á laugardaginn. Við sátum meðal annars undir ræðu hæstv. ráðherra, sem var skrambi góð, þar sem hún kom inn á það að toppurinn á ísjakanum væri afreksfólkið okkar en undir niðri skipti náttúrlega sjálfboðaliðastarfið og grasrótarstarfið öllu máli.

Við erum komin inn í ólympíuár og núna stendur afreksfólkið okkar í ströngu við að reyna að ná ákveðnu lágmarki, komast á Ólympíuleikana og er þetta ekki í fyrsta og ekki eina sinn sem fólkið okkar stendur frammi fyrir erfiðleikum hvað varðar að fá fjármagn í slíka hluti.

Nú er Evrópumeistaramótið í handbolta búið. Stelpurnar okkar stóðu sig vel úti í Brasilíu. En alltaf komum við að sama efni, þ.e. þegar mótin eru búin hættum við að ræða hvernig við getum stutt afreksfólkið okkar.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að beita sér fyrir því að stuðningur við afreksfólkið okkar verði sýndur í verki, ekki bara á þessu ári heldur að við mörkum mjög skýra og róttæka stefnu í afreksmálum til ársins 2016, þ.e. fram til Ólympíuleikanna í Brasilíu 2016. Sem betur fer hefur hæstv. ráðherra reynt að gæta að ákveðnum samningum sem hafa verið gerðir við ÍSÍ, sem stuðla einmitt að því að styrkja grasrótina, styrkja sérsamböndin. Þeim samningum hefur verið viðhaldið þótt þeir hafi verið skertir að einhverju leyti. Hið sama má segja um ferðasjóð íþróttafélaga sem tryggir jafnræði alls fólks á landinu, ekki síst landsbyggðarfólks, til að sækja íþróttir.

Núna er einfaldlega komið að afreksfólkinu okkar. Það verður að marka skýra stefnu í þessum málum. Það er ólympíuár á þessu ári. Segjum það og sýnum í verki, við hér á þingi, hvernig við getum stutt (Forseti hringir.) við fólkið okkar, ekki bara á næstu vikum heldur sýnum skýra sýn til lengri tíma, ekki síst fram yfir þarnæstu Ólympíuleika árið 2016.