Stuðningur við afreksfólk í íþróttum

Mánudaginn 30. janúar 2012, kl. 15:19:42 (4637)


140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

stuðningur við afreksfólk í íþróttum.

[15:19]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Um leið og ég fagna þeirri íþróttastefnu sem var lögð fram vil ég líka draga það fram hér að í henni voru ekki afmörkuð skýr atriði eða stuðningur við afreksstefnuna sem slíka. Það er kominn tími til að við tökum næsta skref eftir að hafa verið með sérsamningana varðandi ferðasjóðinn, að við tökum ákveðið skref. Vilji stjórnvalda verður að vera mjög skýr í þeim efnum, að við ætlum að koma okkur áfram, ekki bara á þessu ólympíuári heldur til lengri tíma. Því fagna ég sérstaklega þeim tóni sem kemur frá hæstv. mennta- og íþróttamálaráðherra. Hún hefur að mínu mati vilja til að taka þessi mál fastari tökum þannig að íþróttafólkið okkar þurfi ekki alltaf að koma til okkar eftir á og líka fyrirtækjanna í landinu með betlistaf í hendi til að reyna að halda áfram að ná þeim afrekum sem við óskum svo mjög að það nái.

Ég fagna þessum vilja og hvet hæstv. ráðherra áfram (Forseti hringir.) til dáða.