Skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið

Mánudaginn 30. janúar 2012, kl. 15:49:40 (4650)


140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

skýrsla Norðmanna um EES-samstarfið.

[15:49]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Forseti. Það eru engar nýjar fréttir að það felist fullveldisafsal og lýðræðishalli í EES-samningnum. Við þessu vöruðu margir á þingi þegar EES-samningurinn var ræddur og hann leiddur hingað inn. Það sem hefur gerst er einfaldlega staðfesting á aðvörunarorðum þeirra og eins og fram hefur komið hefur í raun verið farið enn lengra í þá átt.

Spurningin er hins vegar: Hvernig tökum við á þeim lýðræðishalla og því fullveldisafsali sem felst í EES-samningnum? Sumir segja í reynd að það sé með því að afsala okkar enn frekar fullveldinu, enn frekar sjálfstæðinu, enn frekar lýðræðinu, dýpka enn frekar lýðræðishallann. Að mínu mati gerum við það einmitt með því að ganga í Evrópusambandið.

Skert lýðræði hefur einkennt Evrópusambandið frá upphafi og orðið æ meira áberandi eftir því sem aðildarríkjum hefur fjölgað og framkvæmdastjórnin í Brussel náð undir sig fleiri málasviðum. Stjórnskipuð 27 manna framkvæmdastjórn í Brussel hefur ein rétt til að leggja fram lagafrumvörp sem ráðherrar á ESB-Evrópuþingi þurfa síðan að samþykkja eftir flóknum reglum, m.a. um atkvæðavægi. Áhugi á kosningum til Evrópuþingsins hefur verið mjög takmarkaður. Í síðustu kosningum var þátttakan næstum 43% og fór niður í 20% í sumum aðildarríkjum. Á Evrópuþinginu fengi Ísland í mesta lagi sex fulltrúa en nú eru fulltrúar þar 736 alls. Í ráðherraráðinu yrði hlutur Íslands langt innan við 1% atkvæða af um 350 alls.

Svo má lengi áfram telja.

Villuljósið í þessari umræðu er sú niðurstaða að lýðræðishallinn sé einhvern veginn leiðréttur með því að ganga í Evrópusambandið sem alþekkt er fyrir mjög djúpan, langvarandi (Forseti hringir.) og alvarlegan lýðræðishalla. Við verðum að fara að draga réttar niðurstöður af þeim viðvörunarorðum sem viðhöfð voru í upphafi EES-samningsins og ýmsir (Forseti hringir.) skelltu skollaeyrum við og fara í umræðuna eins og hún er í Noregi núna, um hvernig megi (Forseti hringir.) takmarka sem mest það fullveldisafsal sem í EES-samningnum felst.