Þróun þyngdar hjá börnum og unglingum

Mánudaginn 30. janúar 2012, kl. 17:18:14 (4688)


140. löggjafarþing — 50. fundur,  30. jan. 2012.

þróun þyngdar hjá börnum og unglingum.

291. mál
[17:18]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Nú eru komnar á dagskrá nokkrar fyrirspurnir sem ég lagði fram síðasta haust sem snúa að lýðheilsu barna og unglinga. Ég tel að mjög mikilvægt sé að ræða þessi málefni. Þau hafa ekki verið ofarlega á baugi í sölum Alþingis en eru engu að síður gríðarlega mikilvæg og snerta framtíð barna okkar og þjóðarinnar.

Fyrsta fyrirspurnin lýtur að þróun þyngdar hjá börnum og hvernig fylgst hefur verið með henni. Töluvert hefur verið ritað og rætt um offitu barna, stundum koma stórar fyrirsagnir um að við séum þar fremst í flokki en kannski ekki með jákvæðum formerkjum.

Við eigum til tölur um þróun þyngdar hjá níu ára íslenskum skólabörnum á 20. öld sem Brynhildur Briem tók saman. Þær sýna því miður svo ekki verður um villst að offita barna hefur farið hratt vaxandi frá því á 8. áratugnum. Samkvæmt upplýsingum Lýðheilsustöðvar frá árinu 2009 mældust 21,3% íslenskra barna 5–15 ára barna of þung og rúmur fjórðungur þeirra, eða 5,5% barna, of feit. Þetta hlutfall hefur farið hratt hækkandi á síðustu áratugunum. Þegar hlutfallið var umreiknað á því ári kom í ljós að um 2.650 börn á Íslandi voru of feit. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hafa þessar tölur staðið í stað að undanförnu þannig að við erum líklega á réttri leið, jafnvel þó að okkur hafi ekki tekist að snúa þessari þróun við.

Þegar ég fór yfir gögn fyrir þessa umræðu rakst ég á grein sem birtist í Morgunblaðinu á sunnudaginn eftir Sigrúnu Daníelsdóttur sem ber heitið „Í herför gegn fitufordómum“. Hún bendir á að við séum ekki næstfeitasta þjóð í heimi heldur erum við í 6. sæti líkt og árið á undan, en þær upplýsingar hafi komið seint og illa í fjölmiðla.

Ég spyr því hæstv. heilbrigðisráðherra hvort (Forseti hringir.) til standi að fylgjast náið með þessu og hvort ekki þurfi ekki að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða til að reyna (Forseti hringir.) að snúa þessari þróun við.