Umræður um störf þingsins 31. janúar

Þriðjudaginn 31. janúar 2012, kl. 13:33:21 (4724)


140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:33]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég bað um orðið til að eiga orðastað við hv. þm. Magnús Orra um tolla og vörugjöld en ég ætla samt ekki að láta hjá líða tækifærið og taka undir …

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmann til að nefna þingmenn fullu nafni.)

Já, hv. þm. Magnús Orra Schram, ég vil ræða við hann um tolla og vörugjöld en ég vil ekki láta þetta tækifæri hjá líða og vil taka undir með hv. þingmanni að ef menn vilja rannsaka einkavæðinguna á sínum tíma þá á að gera það, ég styð það. Ég held að það væri gott ef farið yrði í gegnum þá einkavæðingu og ég held að menn eigi ekkert að vera hræddir við það, hvar í flokki sem menn standa. Ég fagna því sérstaklega að núna loksins eru stjórnarliðar tilbúnir til að fara í könnun á hinni nýjustu einkavæðingu því að upplýsingum hefur ekki verið miðlað til þingmanna þegar þeir hafa spurt um hana. Það er ágætt að menn séu komnir á aðra skoðun.

En ég vil aðeins fara yfir tolla- og vörugjöldin. Það liggur ljóst fyrir að breyta þarf því umhverfi, það er steinrunnið. Á síðasta ári kom í ljós, meðal annars við ákvörðun hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á toll- og innflutningskvótum byggða á GATT-samningnum, hversu úrelt þetta kerfi er og hvernig þeim innflutningi er háttað eftir geðþótta ráðherra. Fyrir utan það að miðað er við neyslu Íslendinga á árinu 1986–1988 á landbúnaðarvörum og allir sjá og vita að sú neysla hefur náttúrlega gerbreyst.

Ég vil því spyrja hv. þm. Magnús Orra Schram hvort hann sé ekki sammála mér í því að nýta núna tækifærið, meðal annars í ljósi þess að nú er kominn fjármálaráðherra frá Samfylkingunni sem hefur væntanlega aðrar áherslur en Vinstri grænir því þeir hafa sagt lok, lok og læs á allar breytingar á búvörulögum og allar breytingar á tolla- og innflutningsgjöldum. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann sé ekki sammála mér í því að nauðsynlegt sé, meðal annars til að tryggja hagsmuni neytenda, að fara í heildarendurskoðun á tolla- og innflutningslöggjöf landsins.