Umræður um störf þingsins 31. janúar

Þriðjudaginn 31. janúar 2012, kl. 13:51:37 (4732)


140. löggjafarþing — 51. fundur,  31. jan. 2012.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Frú forseti. Okkur berast fregnir af því að lán heimilanna séu að hækka gríðarlega vegna verðtryggingarinnar, um einhverja milljarða króna, og þau hækka dag hvern vegna verðtryggingarinnar. Hagsmunasamtök heimilanna héldu stóran fund í síðustu viku þar sem meðal annars var farið yfir mögulegar leiðir til þess að afnema verðtrygginguna. Sömu samtök hafa verið með undirskriftasöfnun á netinu þar sem um 37 þús. manns hafa skorað á ríkisstjórnina að grípa til raunhæfra aðgerða til afnáms verðtryggingar. Maður hlýtur að spyrja sig í ljósi þeirrar umræðu sem verið hefur hér: Við hvað er hv. þingflokkur Samfylkingarinnar hræddur í þessum efnum? Hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir hefur á morgun verið forsætisráðherra í þrjú ár. Þrjú ár eru síðan Jóhanna Sigurðardóttir, hv. þingmaður, varð hæstv. forsætisráðherra. Fimm ár eru síðan Samfylkingin tók sæti í ríkisstjórn.

Það var laumað til mín auglýsingu frá fjölskylduföður í Hafnarfirði þar sem boðin eru fundarlaun fyrir þann sem getur bent á hvar Jóhanna Sigurðardóttir og Samfylkingin eru. Þar er meðal annars vitnað í grein eftir hæstv. forsætisráðherra um verðtrygginguna frá árinu 1996 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Efnahagsleg rök og sanngirni mæla með því að verðtrygging á lánum til heimilanna verði alfarið bönnuð.“

Jóhanna Sigurðardóttir telur að ríkisstjórnin sé föst í gamla verðbólguhugsunarhættinum. Er ríkisstjórn hæstv. forsætisráðherra Jóhönnu Sigurðardóttur ekki einmitt föst í gamla verðtryggingarhugsunarhættinum? Ef einhvern tímann hefur verið þörf á því að þingheimur taki höndum saman er það í þessu. Það er búið að benda á mögulegar leiðir til að afnema verðtrygginguna, fjöldi aðila hefur gert það, og okkur er ekkert til fyrirstöðu að hefjast handa. Þess vegna spyr ég: Hvenær ætlar Samfylkingin (Forseti hringir.) og hæstv. forsætisráðherra að hætta að slá skjaldborg um verðtrygginguna?