Staða heimilanna

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 10:41:27 (4887)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

staða heimilanna.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Mér finnst miður að hv. stjórnarandstæðingar, í þessu tilviki hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, verða alltaf pirraðir þegar við erum að ræða um árangur ríkisstjórnarinnar. Það er eins og þeir vilji loka öllum eyrum og augum fyrir því sem hefur verið að gerast í samfélaginu síðustu þrjú árin. Vissulega hefur náðst árangur í því sem við höfum verið að tala um, endurskipulagningu bankanna, í því sem við höfum farið í gegnum varðandi heimilin í landinu. Þar hafa verið afskrifaðir um 200 milljarðar kr. og ríki setti í það 50–60 milljarða í viðbót í vaxtaniðurgreiðslum og vaxtabótum. Af því að hv. þingmaður nefnir heimilin í landinu er rétt að geta þess að þar er farið í 50–60 aðgerðir og ég er ansi hrædd um að ef ofan í það væri farið sæist að við höfum forðað mjög mörgum gjaldþrotum hjá heimilunum í landinu og bjargað fjárhag margra heimila með þeim aðgerðum sem við höfum farið út í.

Hver er staða atvinnulífsins nú þegar þau orð eru mælt að það sé enginn sýnilegur árangur og engin innstæða fyrir því sem við erum að skrifa? Jú, staðan er sú að hagvöxtur er meiri en í nágrannalöndunum. Það er búist við því að hann geti orðið 3–3,5% á þessu ári, kannski 4% á næsta ári en hann er 1–1,5% að meðaltali í Evrópu. Af 32 löndum OECD erum við það níunda í röðinni varðandi hagvöxt. Er það enginn árangur, virðulegi forseti?

Við erum með marga fjárfestingarsamninga í gangi til að örva atvinnulífið. Við höfum farið út í mikla fjölbreytni í atvinnulífinu en ekki staðnæmst bara við stóriðju eins og sjálfstæðismenn og framsóknarmenn gerðu þegar þeir stjórnuðu. Það er af mörgu að taka og því miður komst það ekki allt fyrir í einni grein. Það er takmarkað pláss sem við höfum. [Kliður í þingsal.]