Landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 15:27:07 (4956)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

landslénið .is og önnur íslensk höfuðlén.

268. mál
[15:27]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu sem er í megindráttum, eftir því sem ég best fæ séð eftir lauslegan lestur, nánast í óbreyttri mynd frá því að það var lagt fram á síðasta ári og náði sem betur fer ekki fram að ganga.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji eðlilegt að setja lög um nánast eitt fyrirtæki. Eins og við vitum kannski flest hér inni getur í raun og veru bara eitt fyrirtæki starfað á þessum vettvangi, að halda utan um landslénið. Nú er gert ráð fyrir því að þetta fyrirtæki, ISNIC, sem hefur haldið utan um landslénið og byggt þetta upp og þróað í 25 ár frá því að byrjað var að vinna að þessu, fái fimm ára starfsleyfi án þess að farið verði í sérstakt útboð, það opna lýðræðislega útboð sem boðað er. Ég vil spyrja hvort hæstv. ráðherra finnist það nægilega traust rekstrarumhverfi fyrir fyrirtæki í þessari starfsemi, miðað við þá fjárfestingu og uppbyggingu sem þessu fylgir, einungis fimm ár. Ekki er heldur í frumvarpinu pósitíft ákvæði um að fyrirtækið fái framlengingu á rekstrarleyfinu eða starfsleyfinu þó svo að það hafi staðið sig mjög vel og í ljósi þess, eins og kemur fram í frumvarpinu, að landslénið .is er eitt af öruggustu lénum í heimi. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki hefði verið eðlilegra að setja kannski lög, eins og til að mynda í Svíþjóð eins og var rætt á vegum hæstv. samgönguráðherra í meðförum málsins á fyrri stigum, heldur en að halda óbreyttri stefnu og leggja nánast fram óbreytt frumvarp.

Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra: Hefur átt sér stað eitthvert samráð og samtal á milli forsvarsmanna fyrirtækisins og ráðuneytisins frá því að fyrra frumvarpið dagaði uppi í vor og þar til þetta mál var lagt fram?