Almenn hegningarlög

Fimmtudaginn 02. febrúar 2012, kl. 18:26:20 (5001)


140. löggjafarþing — 53. fundur,  2. feb. 2012.

almenn hegningarlög.

344. mál
[18:26]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, með síðari breytingum, einkum XXII. kafla laganna um kynferðisbrot, sem og ákvæðum barnaverndarlaga, nr. 80/2002.

Frumvarpið er samið af refsiréttarnefnd vegna fullgildingar á Evrópuráðssamningi um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun.

Í Evrópuráðssamningnum er áréttað að alþjóðlegt samstarf sé nauðsynlegt til að koma í veg fyrir og berjast gegn kynferðislegri misnotkun og misneytingu á börnum. Einn liður í hinni alþjóðlegu baráttu gegn kynferðislegu ofbeldi á börnum er að gera sömu verknaði refsiverða í þeim ríkjum sem í hlut eiga. Slík samræmd ákvæði auðvelda baráttuna gegn kynferðisofbeldi í alþjóðlegu samhengi og geta komið í veg fyrir að þeir sem brjóta gegn börnum velji sér frekar lönd þar sem tiltekin háttsemi telst ekki refsiverð. Samræming stuðlar einnig að auknu samstarfi milli ríkja og auðveldar þeim að skiptast á almennum upplýsingum, til að mynda um tölfræði, rannsóknaraðferðir og fleira. Íslensk löggjöf er að meginstefnu til í samræmi við ákvæði samningsins, en þó eru nokkur ákvæði sem kalla á breytingar á hegningarlögum.

Með frumvarpinu er lagt til að refsivert verði að mæla sér mót við barn í kynferðislegum tilgangi með samskiptum um alnetið eða með annarri upplýsinga- og fjarskiptatækni. Áður hefur verið reynt að byggja ákæru í slíkum málum á tilraunaákvæði 20. gr. almennra hegningarlaga, en rétt þykir að lýsa þessari háttsemi sem fullfrömdu broti til að auka réttarvernd barna að því varðar samskipti þeirra við fullorðna einstaklinga í gegnum alnetið eða aðra fjarskipta- eða upplýsingatækni.

Í frumvarpinu er einnig lögð til breyting á ákvæðum laganna um barnaklám og lagt til nýtt ákvæði er varðar efni þar sem börn eru sýnd á kynferðislegan eða klámfenginn hátt. Er því lagt til að gildandi 4. mgr. 210. gr. laganna falli brott.

Samkvæmt gildandi löggjöf er prentun, framleiðsla, innflutningur í útbreiðsluskyni, sala, útbýting og dreifing kláms ólögleg. Refsingin er þyngri ef um er að ræða svonefnt barnaklám eða myndrænt ofbeldi gegn börnum, en slíkt efni er einnig ólöglegt að flytja inn, afla sér eða hafa í vörslu sinni.

Frumvarpið sem hér er rætt gerir ráð fyrir að einnig verði refsivert að skoða myndir og myndskeið á alnetinu eða með annarri upplýsinga- og fjarskiptatækni sem sýna börn á kynferðislegan eða klámfenginn hátt og nær því ákvæðið ekki eingöngu til vörslu, sölu og dreifingar líkt og nú er. Ljóst er að nútímatækni gerir þeim sem eftir því leitar kleift að afla sér aðgangs að barnaklámi á alnetinu án þess að slíku efni sé hlaðið niður á tölvu viðkomandi, því er varhugavert að undanskilja slíkt athæfi refsiábyrgð. Með því að gera öflun barnakláms refsiverða, hvort sem efnið er í vörslu geranda eða ekki, er spornað gegn framleiðslu slíks efnis eins og kostur er.

Jafnframt verður svonefnd barngerving gerð refsiverð, en í henni felst að einstaklingar sem hafa náð 18 ára aldri eru sýndir á kynferðislegan eða klámfenginn hátt í hlutverki barns. Undir sömu skilgreiningu fellur efni á borð við teiknimyndir eða aðrar sýndar myndir þar sem börn eru sýnd á klámfenginn hátt. Barngerving getur verið til þess fallin að hvetja til eða réttlæta brot gegn börnum og því þykir rétt að kveða sérstaklega á um refsinæmi slíks efnis líkt og annars efnis sem sýnir ofbeldi gegn börnum.

Þá er einnig lagt til sérstakt refsiákvæði varðandi þátttöku barna í nektarsýningum og öðrum sýningum af kynferðislegum toga. Ákvæði þess efnis er nú þegar að hluta að finna í ákvæðum barnaverndarlaga og er því samhliða þessari breytingu lagt til að síðari málsliður 3. mgr. 93. gr. og ákvæði 4. mgr. 97. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, falli brott til að koma í veg fyrir skörun milli þeirra og almennra hegningarlaga.

Í frumvarpi þessu er lagt til að refsivert verði að ráða barn til þátttöku í nektar- eða klámsýningu eða skipuleggja slíka sýningu eða valda því með öðrum hætti að barn taki þátt sem og að hafa ávinning af því að barn taki þátt í slíkri sýningu. Þrátt fyrir að almennt bann gegn nektardansi gildi á Íslandi er talin ástæða til að gera það sérstaklega refsivert að sækja nektar- eða klámsýningu þar sem börn eru þátttakendur. Er byggt á því að ábyrgðin á því að börn séu þátttakendur í slíkum sýningum hvíli ekki síður hjá þeim sem sækja sýningarnar en hjá þeim sem skipuleggur, heldur eða hefur ávinning af því að barn taki þátt í nektar- eða klámsýningu.

Þá er með frumvarpinu lagt til að fyrningarfrestur vegna brota sem varða vændi barna, nektar- og klámsýningar barna og mansal á börnum hefjist ekki fyrr en það barn sem á í hlut hefur náð 18 ára aldri.

Í 82. gr. almennra hegningarlaga er mælt fyrir um upphaf fyrningarfrests vegna brota. Meginreglan er sú að fyrningarfrestur telst frá þeim degi þegar refsiverðum verknaði eða refsiverðu athafnaleysi lauk. Með lögum nr. 61/2007 voru gerðar breytingar að því er varða kynferðisbrot gegn börnum. Þannig fyrnast nauðgunar- og sifjaspellsbrot gegn börnum aldrei, sbr. 2. mgr. 81. gr. laganna, og þegar um er að ræða önnur kynferðis- og ofbeldisbrot gegn börnum hefst fyrningarfrestur ekki fyrr en á þeim degi þegar brotaþoli nær 18 ára aldri, sbr. 1. mgr. 82. gr. laganna. Ótvírætt er að brot sem varða vændi barna, nektar- og klámsýningar barna og mansal á börnum eiga sér efnislega samstöðu með öðrum þeim brotum sem falla þarna undir. Er því lagt til að þessi brot byrji ekki að fyrnast fyrr en brotaþoli nær 18 ára aldri.

Þá er lagt til að gerðar verði breytingar á 5. gr. almennra hegningarlaga í því skyni að tryggja að íslensk löggjöf fullnægi kröfum Evrópuráðssamningsins um vernd barna gegn kynferðislegri misneytingu og kynferðislegri misnotkun um refsilögsögu þannig að hægt sé að refsa á Íslandi fyrir háttsemi sem greinir í samningnum sem íslenskir ríkisborgarar fremja erlendis þrátt fyrir að verknaðurinn sé ekki refsiverður eftir lögum þess ríkis. Samningnum verður einnig bætt við upptalningu 6. gr. þannig að unnt verði að refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi sem greinir í samningnum jafnvel þótt brotið sem um ræðir hafi verið framið utan íslenska ríkisins án tillits til þess hver er að því valdur.

Hæstv. forseti. Baráttan gegn ofbeldi gegn börnum er ekki bundin við landamæri og réttindi barna til að búa ekki við ofbeldi eða ógn af ofbeldi eiga að vera algild. Með alþjóðlegu samstarfi stuðlum við enn frekar að því að svo geti verið. Þær lagabreytingar sem hér eru lagðar til eru eitt skref á þeirri vegferð.

Ég legg því til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til allsherjar- og menntamálanefndar og 2. umr.