Orkuskipti í samgöngum

Föstudaginn 03. febrúar 2012, kl. 14:15:25 (5063)


140. löggjafarþing — 54. fundur,  3. feb. 2012.

orkuskipti í samgöngum.

377. mál
[14:15]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér um orkuskipti í samgöngumálum. Eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra er það ekki hlutverk stjórnvalda að ákveða tæknilausnir í þessum efnum, heldur skapa þann heildarramma sem markaðurinn þarf til að geta athafnað sig. Það er hægt að gera með ýmsum hætti. Við beitum skattalegum ívilnunum í dag, þær þurfa að vera almennar og þær þurfa að ganga jafnt yfir allar tæknilausnir orkuskiptanna.

Við ráðum ekki ferð í þessu, virðulegi forseti. Það eru margar áhugaverðar lausnir í boði og það eru auðvitað þeir sem framleiða vélar sem ákveða framboðið. Við munum ekki verða það stór hluti á þessum heildarmarkaði að við munum hafa einhver afgerandi áhrif þar. Þannig mun alveg örugglega verða hægt að horfa til raforku til framtíðarnýtingar hér og kannski ekki síður metans, sem mig langar að gera að aðalumræðuefni í þessari stuttu ræðu. Það er mjög áhugavert í mörgu tilliti.

Ríkissjóður hefur í dag miklar tekjur af skattlagningu samgangna og hæstv. fjármálaráðherra boðar það hér að þær ívilnanir sem eru í gangi og hafa verið í boði eigi ekki að koma til endurskoðunar fyrr en árið 2020. Það er út af fyrir sig ágætt að menn geti horft til lengri tíma, geti á nokkuð öruggum forsendum farið í þær breytingar sem þarf að gera. Þær eru að einhverju leyti kostnaðarsamar, bæði gagnvart nýjum tækjum, þau eru eitthvað dýrari í innkaupum enn þá, og eins þær breytingar sem hægt er að gera á núverandi vélum í samgöngutækjum til að þær geti notað til dæmis metan.

Við horfum fram á að stöðugt koma þó inn á markaðinn bílar sem eyða minna eldsneyti og það er fyrir séð að með þessum hugmyndum, orkuskiptahugmyndum og breyttum og nýjum vélum, þarf að endurskoða innheimtu veggjalda. Það er mjög tímabært að fara í þá umræðu sem fyrst þannig að við áttum okkur á því hvernig við ætlum að brúa það bil sem óneitanlega getur myndast.

Metaneldsneyti er ætlað mikilvægt hlutverk víða um heim og það ætti einnig að vera svo í samgöngum á Íslandi á þessari öld. Minni gjaldeyrisnotkun er mikið þjóðþrifamál og í dag er aukin notkun á metani sennilega líklegust af þeim kostum sem eru í boði til að tryggja mestan árangur. Við höfum farið í gegnum mjög mikilvæg og árangursrík orkuskipti hér, eins og hæstv. ráðherra kom inn á, með hitaveitunni og raforkuframleiðslunni þar sem við erum með endurnýjanlegar orkuauðlindir og við höfum í raun gengið í forustusveit þjóða þegar kemur að þessum málaflokki. Aukin metanvæðing veitir okkur einnig möguleika á að viðhafa orkuskipti með þeim hagfelldasta hætti, eins og staðan er í dag, sem völ er á. Af því verður mestur umhverfislegur, þjóðhagslegur og rekstrarlegur ávinningur.

Í landinu eru um það bil 245.000 ökutæki, þar af fólksbílar um 210.000, og við flytjum inn eldsneyti fyrir tugi milljarða á ári sem við þurfum að borga fyrir með gjaldeyri. Við erum sjálf okkur næg í matvælaframleiðslu. Hér er matvælaöryggi mikið og það er mikilvægt en þegar kemur að eldsneytisöryggi erum við miklu veikari fyrir. Þetta getur auðvitað haft mikil áhrif og ekki síst á matvælaframleiðslu okkar. Það má segja að á síðasta ári hafi verðmæti nálægt því heillar makrílvertíðar farið í að greiða fyrir eldsneyti.

Sú mikla þekkingaraukning og tækniþróun sem hefur átt sér stað á sviði framleiðslu og dreifingar á metani hefur gert það að verkum að um allan heim er horft til metanvæðingar í samgöngum sem veigamikils þáttar umhverfisvænna orkuskipta. Við vitum að rannsóknir hafa leitt í ljós að hægt er að framleiða metan víða. Þannig geta blessaðar beljurnar í Eyjafirði sennilega framleitt metaneldsneyti fyrir um 5.000 bíla á ári, svo þær geta nýst í margt. Það væri frá um það bil 98 býlum. Auk þess eigum við mikla möguleika víðar. Við þurfum auðvitað að gera raunhæfar kröfur til þeirra sem við ætlum að stunda þessa framleiðslu og beita hagrænum hvötum til að hvetja til hennar þannig að þetta geti orðið að veruleika.

Við þingmenn getum líka gert ýmislegt til að skapa gott fordæmi. Það væri í raun gaman að vita hversu margir af þeim þingmönnum sem telja sig sérstaklega umhverfisvæna keyra einkabílinn sinn á umhverfisvænu eldsneyti. Margt þetta fólk er oft með hástemmdar yfirlýsingar í garð okkar sem viljum skynsamlega nýtingu náttúruauðlinda, viljum fara í virkjanir og nýta auðlindina með skynsamlegum hætti. En er þetta fólk sjálfu sér samkvæmt þegar kemur að einkabílum þess? Ég get talað af reynslu því að ég er búinn að setja metangasbúnað í minn bíl og keyri um á metangasi. Ég get mælt með því við aðra að gera slíkt. Reynslan er góð og sparnaðurinn er mikill.

Dreifingin er auðvitað vandamál. Þetta er þannig í dag að eingöngu á tveimur stöðvum á höfuðborgarsvæðinu er hægt að kaupa metan og fylla á bílinn sinn metangasi. Þessum stöðvum þarf að fjölga. Ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að beita sér í þeim efnum. Þetta þarf að vera þannig að menn geti keyrt um landið víðast hvar. Tankrými er takmarkaðra en í venjulegum eldsneytistönkum í bílum og því þarf að fylla oftar á tankinn. Til þess þurfa að koma fleiri stöðvar þannig að menn geti keyrt landshluta á milli á íslensku metangasi. Það verður hvati fyrir fólk um land allt til að skoða þennan valkost sem ég vil meina að sé mjög áhugaverður í svo mörgu tilliti fyrir okkur.

Mig langar að lokum, virðulegur forseti, að fara hér með stutta stöku sem ég rakst á þegar ég var að kynna mér þetta mál. Hún er svona:

Senn mun Íslands umferð batna,

eflist rekstur, líf og getan.

Hagur vex á grundum gatna,

gæfusporið íslenskt metan.