Dagpeningagreiðslur

Mánudaginn 13. febrúar 2012, kl. 16:55:53 (5147)


140. löggjafarþing — 55. fundur,  13. feb. 2012.

dagpeningagreiðslur.

486. mál
[16:55]
Horfa

innanríkisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Til mín hefur verið beint fjórum fyrirspurnum. Í fyrsta lagi er spurt hverjar hafi verið dagpeningagreiðslur í annars vegar innanríkisráðuneytinu og hins vegar undirstofnunum þess árið 2011 vegna utanferða.

Svarið er á þá lund að samtals greiddu ráðuneytið og stofnanir þess 185,5 millj. kr. í dagpeninga árið 2011, þar af 77,7 millj. kr. hjá Landhelgisgæslunni. Ég er með töflu yfir sundurgreiningu á því. Spurt er um ráðuneytið annars vegar og undirstofnanir hins vegar. Aðalskrifstofa ráðuneytisins greiddi út ferðakostnað af þessu tagi, þ.e. dagpeninga, 10.736.119 millj. kr. Sem áður segir er mestur kostnaður á Landhelgisgæslu Íslands 77.696.068 millj. kr. og Landhelgissjóð 17.038.289 millj. kr.

Af öðrum útgjaldaliðum undir þessum kostnaði má nefna Schengen-samstarfið sem eru 5.145.664 millj. kr., Vegagerðina 10.569.079 millj. kr. og Flugmálastjórn Íslands 9.628.691 millj. kr. Eins og gefur að skilja er ferðakostnaðurinn mestur hjá þeim stofnunum sem mest samskipti hafa við útlönd.

Telur ráðherra dagpeninga opinberra starfsmanna vera meiri en efni standa til?

Því er til að svara að ferðakostnaðarnefnd fer yfir þennan útgjaldalið hins opinbera. Reynt er að haga honum þannig að hann sé í samræmi við útgjöld þannig að viðkomandi ferðalangur fái greitt fyrir hótelkostnað og uppihald. Ég hygg að það sé gert af nákvæmni að reyna að komast að réttri niðurstöðu þannig að hún rími vel við raunveruleikann. Til er í dæminu að fólk lendi á dýrari hótelum eða ódýrari eftir atvikum, en þarna er stuðst við meðaltalsreglur.

Spurt er hvort ráðherra telji dagpeninga alþingismanna og ráðherra vera meiri en efni standa til. Í framhaldinu er spurt, sé svarið jákvætt við 2. spurningu og 3. tölulið, hverjar séu tillögur ráðherrans um breytingar á dagpeningaskipan hjá ríkinu.

Skoðun mín er sú að sömu reglur eigi að gilda um alla starfsmenn ríkisins og eigi þá einu að gilda hvort þeir séu starfsmenn stofnana, ráðuneyta, þingmenn eða ráðherrar.

Til er í dæminu, sem áður segir, að fólk lendi á dýrari hótelum en dagpeningarnir dekka. Þá er eðlilegt að það sé greitt ef viðkomandi hefur ekki átt annarra kosta völ en að sækja það hótel.

Mín skoðun er sú að sömu reglur eigi að gilda um alla starfsmenn ríkisins. Gildir þá einu hvort þeir eru starfsmenn stofnana, ráðuneyta, þingmenn eða ráðherrar.