Heildstæð orkustefna fyrir Ísland

Þriðjudaginn 14. febrúar 2012, kl. 16:12:16 (5227)


140. löggjafarþing — 56. fundur,  14. feb. 2012.

heildstæð orkustefna fyrir Ísland.

266. mál
[16:12]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hv. þingmaður orðaði það eitthvað á þann veg að út í hött væri að hækka orkuverð á næstunni til almennings. Ég er algjörlega sammála því. Þá er spurningin: Eigum við að taka út arðinn af þessum orkufyrirtækjum, eins og ég gat um í ræðu minni, í lægra orkuverði? Þannig er það í dag þar sem við erum með mjög lágt orkuverð miðað við nágrannaþjóðir. Eða eigum við að láta hann renna í auðlindasjóð? Með því að ákveða að taka svo og svo mikið og leggja í auðlindasjóð verður það auðvitað til hækkunar á orkuverði, væntanlega til neytenda nema auðlindarentan, arðurinn út úr þeim orkufyrirtækjum sem ríkið á, verði bara tekin og lögð í auðlindasjóð.

Það er auðvitað alveg hárrétt sem hv. þingmaður gat um að það má spyrja sig að því hvort þetta sé heppilegt. En hv. þingmaður spyr hvort raforkunotkun sé meiri, hvort við göslum með rafmagn vegna þess hve orkan er ódýr. Já, ég hygg að svo sé, virðulegi forseti, ég er nokkuð viss um það. Það er sennilega háttur okkar Íslendinga þar sem við höfum næga orku og þurfum í raun og veru ekkert að spara hana. Það er næg orka til og skömmtun og hömlur á orkunotkun þekkist ekki hér. Það kemur meðal annars til út af þessu lága orkuverði.

Ég er ekki sammála því að við þurfum að hækka orkuverðið til að spara. Ég held að það ætti frekar að vera hluti af heildstæðri orkustefnu fyrir Ísland að vekja athygli fólks á því að með því að spara orku, sama hvort hún er til hitunar eða ljósa eða annað, verður meira eftir til annarra þátta í rekstri heimilisins eða rekstri fyrirtækjanna. Það er væntanlega eitt af því sem er að gerast nú, ef hægt er að finna einhverja jákvæða pósta við það sem hefur gerst hér á undanförnum árum, að fólk þarf aðeins að huga meira að því hvað kemur inn og hverju er eytt, vegna þess að það er (Forseti hringir.) eins og einhver sagði, enginn vandi að reka fyrirtæki, þar með talið heimili, ef passað er bara upp á að tekjurnar séu aðeins meiri en gjöldin.