Skráð trúfélög

Miðvikudaginn 15. febrúar 2012, kl. 17:56:55 (5310)


140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[17:56]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherranum fyrir þessi ágætu svör. Ég ætla bara að klippa eitt alveg út í pappa, svo það sé alveg skýrt. Hæstv. ráðherra talaði um að það séu matskennd skilyrði sem lífsskoðunarfélög þurfi að uppfylla og það er alveg rétt og þess vegna skuli leita til nefndar um að meta þau atriði. Þetta eru nokkrir aðilar sem eiga að sitja í þessari nefnd og hæstv. ráðherra sagði að ákvörðunarvaldið væri hjá nefndinni. Eins og ég skil þetta er ákvörðunarvaldið faktískt hjá hæstv. ráðherra. Það kemur fram í greinargerðinni að ráðherrann hefur ákvörðunarvaldið, hvort ráðherrann samþykkir ákveðið lífsskoðunarfélag eða ekki. Umrædd nefnd hefur ekki ákvörðunarvaldið, hún er álitsgjafi. Það stendur í 5. gr. að áður en leyfi sé veitt til skráningar trúfélags eða lífsskoðunarfélags skuli leita álits nefndar sem ráðherra skipar. Þessi nefnd er reyndar, eins og ég skil þetta, til í dag en verði frumvarpið samþykkt bætist við einn nýr liðsmaður í nefndina sem kemur, ef ég man rétt, frá sagnfræðideild háskólans.

Ég kýs að nota andsvarsréttinn til að fá þetta skýrt fram. (Gripið fram í.) Já, tilnefndur af sagnfræði- og heimspekideild Háskóla Íslands, en þunginn mun liggja á hæstv. ráðherra varðandi ákvörðunartökuna en auðvitað mun nefndin hafa mikið að segja. Ég ímynda mér að sú staða gæti komið upp að nefndin segði nei, að hún teldi eitthvert félag ekki lífsskoðunarfélag, og það sé álit hennar. Ráðherrann gæti væntanlega farið gegn því áliti sem væri auðvitað ekki gott að mínu mati í svo viðkvæmum málum en sú staða gæti komið upp samkvæmt lögunum.