Skráð trúfélög

Miðvikudaginn 15. febrúar 2012, kl. 18:01:15 (5312)


140. löggjafarþing — 57. fundur,  15. feb. 2012.

skráð trúfélög.

509. mál
[18:01]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þá er þetta orðið alveg skýrt. Nefndin er álitsgjafi en ég ítreka að það væri mjög ankannaleg staða ef nefndin ráðleggur hæstv. ráðherra að veita ákveðnu lífsskoðunarfélagi ekki skráningu en ráðherrann gerir það samt. Það væri mjög sérstök staða og vonandi kemur hún ekki upp.

Varðandi síðara atriðið sem hæstv. ráðherra kom inn á andsvari sínu, um að mjög lítill hópur í félagi ætti ekki að fá skráningu, þá tek ég undir það af því að þessi félög eiga að sinna ákveðnum skyldum líka samkvæmt frumvarpinu og það er harla ólíklegt að þau geti það ef mjög fáir eru í félaginu. Ég tel að við þurfum að skoða hæfisskilyrðin aðeins betur, ég gat ekki áttað mig alveg á því við fyrstu yfirferð á þessu frumvarpi. Talað er um að forstöðumenn í lífsskoðunarfélagi geti útnefnt einstaklinga í fleirtölu til að sinna þessum athöfnum, fermingum, giftingum, skírnum og því sem þau velja. Vísað er í ákveðin hæfisskilyrði og ég gat ekki séð þau við fljótlegan yfirlestur. Kannski eru það hæfisskilyrði sem trúfélög þurfa að uppfylla í dag, en ég tel mikilvægt að þar verði einnig vandað til verka, að þessir einstaklingar séu þess eðlis að þeir njóti virðingar og þetta verði allt á mjög jákvæðum og góðum nótum.