Fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi

Fimmtudaginn 16. febrúar 2012, kl. 10:54:48 (5331)


140. löggjafarþing — 58. fundur,  16. feb. 2012.

fjarvera forsætisráðherra á viðskiptaþingi.

[10:54]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég get alveg ítrekað það að ég er auðvitað mjög ánægð með það og hrærð yfir því hvað það hefur vakið mikla athygli að ég gat ekki komist á þetta viðskiptaþing og hve mikið mín var saknað á þinginu. Ég hefði vel getað haldið þar ágæta ræðu sem kannski veitir ekki af að ýmsir hlusti á sem vilja ekki hlusta á þann uppgang sem þó er kominn í efnahags- og atvinnulífinu, eins og hagvöxtinn. (Gripið fram í.)

Það var eitt sem vakti athygli mína á þinginu sem hv. þingmaður ætti að hafa meiri áhyggjur af en minni fjarveru, það var ræða sem forstjóri Össurar flutti þar og hafði miklar áhyggjur af því hvernig krónan leikur atvinnulífið. Hvað segir hv. þingmaður við því? Hvaða tillögur hefur hún þar fram að færa (Gripið fram í: Ert þú …?) þegar krónan er að leika atvinnulífið eins grátt og lýst var á þinginu? Ég deili þeim áhyggjum með forstjóra Össurar, við þurfum að hafa áhyggjur af því og við þurfum að snúa okkur að því að klára það verkefni sem lagt var af stað með í þessari ríkisstjórn, (Forseti hringir.) að ljúka aðildarferli okkar að ESB og snúa okkur að því að breyta gjaldmiðlinum. (Gripið fram í: … og gjaldeyrismálum.) (VigH: Og forsætisráðherra …)

(Forseti (ÁRJ): Forseti biður menn um að gefa ræðumönnum tóm til að flytja mál sitt eins og forseti nefndi áðan.)