Endurútreikningur gengistryggðra lána

Þriðjudaginn 21. febrúar 2012, kl. 13:37:31 (5451)


140. löggjafarþing — 59. fundur,  21. feb. 2012.

endurútreikningur gengistryggðra lána.

[13:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Þetta mál var auðvitað rætt á sínum tíma og var í höndum þingsins og ég þekki ekki frekar en kannski hv. fyrirspyrjandi nákvæmlega hver urðu afdrif þess í hinni þinglegu meðferð. Hitt man ég að á þeim tíma var upplýst að þessi mál væru almennt að fá fljóta afgreiðslu hjá dómstólum og í raun og veru flýtimeðferð. Eftir því sem ég best veit hafa dómstólar reynt að flokka mál með hliðsjón af mikilvægi þess fyrir úrlausn mála hér eftir hrunið og hafa sett ákveðna hluti í forgang. Við þekkjum þann forgang sem úrvinnsla grundvallarmála sem hafa tengst gildi neyðarlaganna hefur fengið, sömuleiðis að sjálfsögðu mál sem eru nauðsynleg til að flýta fyrir óvissu um kröfur í bú. Í þriðja lagi rekur mig að minnsta kosti minni til þess að hafa heyrt að grundvallarmálum sem vörðuðu lögmæti lánasamninga og mál tengd þeim hefði verið reynt að hraða eins og hægt væri í gegnum dómskerfið. Ég er því ekki viss um að frumvarpið hefði í sjálfu sér haft mikil áhrif á það að þessi mál hefðu fengið hraðari úrlausn, en reyndar hefur það verið svolítið tilviljanakennt á hvað hefur reynt í hverju tilviki og það er kannski hluti okkar vanda að það hafa ekki alltaf verið heppileg grundvallarmál sem hefðu eytt nægilega óvissunni sem hafa verið í höndum dómstóla hverju sinni.

Hafandi sagt þetta ætla ég síður en svo að hafna því að ef það reynist vera staðan að hraða mætti nú úrvinnslu á þeim málum sem út af standa og eyða þeirri óvissu sem eftir stendur þá verði það skoðað, mér finnst það sjálfsagt mál. Eitt af mikilvægustu verkefnunum við þetta núna er að greina þennan dóm, að átta sig á eftir atvikum umfangi hans eða fordæmisgildi og gera síðan allt sem hægt er til að reyna að hraða úrvinnslunni í samræmi við það. Þar á meðal ef fleiri mál þurfa fyrir dómstóla eða flýta þarf þeim málum sem þar eru þá tel ég sjálfsagt að yfir það verði farið með til þess bærum aðilum hvort frekari atbeina þarf til um flýtimeðferð slíkra mála.