Matvæli

Miðvikudaginn 22. febrúar 2012, kl. 16:30:13 (5619)


140. löggjafarþing — 60. fundur,  22. feb. 2012.

matvæli.

488. mál
[16:30]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Kannski lýsir það einhvers konar samviskubiti að Alþingi skuli daginn eftir sprengidaginn fara að ræða um hollustumerki. Mér býður í grun að það mikla hnossgæti, saltkjöt og baunir, muni seint rata inn um þetta norræna skráargat sem við höfum ákveðið að búa til fyrir þá sem vilja merkja vörur sem teljast hollar og stuðla að heilbrigðari lífsháttum, langlífi þjóðarinnar og betra heilsufari. (Gripið fram í: … fá undanþágu.) Já, það er kannski jafnerfitt að fá undanþágur í þessu máli og frá tilskipunum Evrópusambandsins.

Ég er einn þeirra sem stend að þessu frumvarpi og erindi mitt hingað er að varpa aðeins ljósi á það sem fyrir okkur vakir í þessu sambandi. Ég vil þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir frumkvæði í þessu máli og öðrum þingmönnum sem hafa verið með henni á þingmálum í þessa veruna. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller formaður atvinnuveganefndar rakti varð niðurstaðan sú að við mundum flytja sérstakt frumvarp um þetta. Talsmaður málsins innan nefndarinnar var hv. þm. Þór Saari og í ljósi þess að þingsályktunartillagan hafði fengið jákvæðar viðtökur var ákveðið að við mundum hraða okkur í þessu máli og setja einfaldlega lög um það eins og Alþingi ber að gera. Sú er eiginlega niðurstaðan sem liggur fyrir okkur, lagasetning um það hvernig við viljum opna fyrir möguleika á því að íslenskar vörur geti verið skráðar og merktar með Skráargatinu.

Við sjáum að markaðurinn hefur að sumu leyti tekið aðeins fram úr okkur vegna þess að um það leyti sem við vorum að ræða þessi mál birtust stórar auglýsingar í blöðunum, að minnsta kosti í Morgunblaðinu mínu, þar sem skyrdrykkir frá Mjólkursamsölunni voru merktir Skráargatinu. Það finnst mér út af fyrir sig lofsverð viðleitni og sýnir að menn eru á varðbergi og vilja gjarnan búa sér til samkeppnislegt forskot með því að merkja vörur sínar með þessum hætti. En þá þarf auðvitað laga- og reglugerðarramminn að vera til staðar til þess að við neytendur getum treyst því að vörur sem merktar eru með Skráargatinu vissulega verðskuldi það. Það er í rauninni það sem verið er að gera hérna, við erum að búa til lagaramma sem kallar síðan á reglugerðarsetningu frá hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra til að við neytendur þurfum ekki að velkjast í vafa um að vörur sem merktar eru Skráargatinu standi undir þeim kröfum sem til slíkra merkja eru gerðar.

Eins og fram hefur komið er hér um að ræða norrænt merki sem hefur verið að festa rætur á Norðurlöndunum, í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Ég hygg að þetta sé sænskt merki að uppruna. Einn er þáttur málsins sem mér finnst ástæða til að vekja athygli á og hann er þessi: Þetta merki gengur út á að tekin er ákvörðun um hvort einstakir vöruflokkar geti fallið undir það. Það er ekki þannig að einstakir framleiðendur á Íslandi sem framleiða vöru sem er holl geti einhliða tekið upp merkið, þeir þurfa að fara í gegnum síu, þeir þurfa að fara í gegnum íslenskt eftirlitskerfi sem við setjum upp, fyrst og fremst með Matvælastofnun. Til að framleiðendur geti boðið fram vörur sínar og merkt þær með Skráargatinu þurfa þeir að uppfylla þessi skilyrði. En þau skilyrði getur íslenska eftirlitsstofnunin Mast ekki sett einhliða, þau verða að byggja á því umhverfi sem Skráargatið byggir á og þeim reglum sem gilda um það. Það er þess vegna einn skavanki á þessu máli sem ástæða er að halda til haga og vekja athygli á og það er að Skráargatið byggir á því að ekki eru teknir inn tilteknir vöruflokkar sem almennt eru ekki taldir hollir. Þetta getur til dæmis átt við um sælgæti en á líka við um brauð og gosdrykki. Eins og hv. þm. Kristján L. Möller vakti athygli á þýðir þetta að til dæmis handverksbakararnir okkar, sem eru miklu fleiri á Íslandi að því okkur var sagt en víðast hvar annars staðar og skipta miklu máli og eru hluti af samfélagi okkar, munu ekki geta merkt brauð sem að öðru leyti kunna að vera holl og góð vara með Skráargatinu. Sama gæti jafnvel átt við um sælgæti sem fæstir tengja við hollar vörur en það kunna auðvitað að vera dæmi um slíkt og í hv. atvinnuveganefnd voru nefnd dæmi um einstakar vörutegundir sem við köllum sælgæti sem eru ágætlega hollar vörur. Þar væri auðvitað áhugavert ef hægt væri að koma því þannig fyrir að svona vörur mætti merkja með Skráargatinu til að stuðla að því að sælgætisneysla, sem ég á ekki von á að við munum útrýma á morgun eða hinn, færðist frekar yfir í hollari flokka sælgætis sem uppfylltu á annað borð þau skilyrði sem sett væru.

Það er hins vegar við þann reip að draga að við Íslendingar getum ekki gert þetta einhliða, þó að matvælaeftirlit okkar kæmist að þeirri niðurstöðu að viðkomandi vöruflokkur uppfyllti í sjálfu sér öll skilyrði. Þá þurfum við að ganga fyrir hans herradóm á Norðurlöndunum á sameiginlegum vettvangi og ræða þessi mál og reyna að fá þeim leikreglum breytt. Ég tel að eitt erindi okkar Íslendinga í þetta samstarf geti einmitt verið að opna slíka möguleika án þess þó að slá af kröfunum varðandi heilbrigðið, fyrst og fremst til að taka tillit til séríslenskra aðstæðna, til dæmis handverksbakaríin. Vakin var athygli á því að fjöldaframleidd brauð gætu mögulega verið merkt með Skráargatinu eins og staðan er í dag en það mundi ekki eiga við um brauð frá handverksbakaríum. Það er auðvitað slæmt. Það gæti skapað samkeppnismismunun, getum við sagt, milli handverksbakaranna og vélframleiddu brauðanna og ég hygg að fæst okkar ef nokkur vilji búa til þá stöðu. Þetta er veruleiki sem við verðum að horfast í augu við og við verðum bara að reyna að taka á því. Ég ítreka að ég tel að eitt af okkar erindum í þetta samstarf geti verið að fá slíkum hlutum breytt, að merkið sé ekki einskorðað við vöruflokka og einstakir vöruflokkar lokaðir af, heldur sé reynt að hafa þetta rýmra án þess að slegið sé af heilbrigðiskröfunum. Það mundi gera að verkum að mögulegt yrði að merkja til að mynda holl brauð sem handverksbakarar bjóða fram eða hollt sælgæti sem sælgætisframleiðendur vilja kannski bjóða fram, með Skráargatinu og skapa kannski aukið samkeppnisforskot og hvatningu til hollrar neyslu.

Menn velta svolítið fyrir sér framhaldinu, hvað gerist núna? Núna er þetta vonandi að verða að lögum og málið hefur greinilega vakið athygli. Við sjáum að umfjöllun hefur verið um það í fjölmiðlum, rætt hefur verið við þingmenn, framleiðendur, eftirlitsaðila og ýmsa aðra þannig að þetta vekur auðvitað athygli og býr út af fyrir sig til kynningu fyrir merkið. Það má líka búast við því að þegar merkinu verður endanlega hleypt af stokkunum eftir að reglugerðirnar hafa verið settar sem þessu þurfa að fylgja, muni fjölmiðlar sýna því athygli og merkinu verði sýnd jákvæð athygli. Sumir segja að það muni nægja, frekari kynningu þurfi ekki. Ég hef mínar efasemdir um það og þess vegna er rætt í athugasemdunum að mögulega þurfi að gera ráð fyrir einhverjum kostnaði, að minnsta kosti til að byrja með, í einhvers konar kynningu. Ég hygg að til að byrja með eigi menn fyrst og fremst að reyna að nýta þá athygli sem málið fær þegar merkinu verður hleypt af stokkunum og nýta auðvitað þá markaðssetningu sem fyrirtækin sjálf hljóta að fara í, vegna þess að þetta er auðvitað markaðslegt tækifæri og þeir sem koma auga á það hljóta sjálfir að leggja fjármuni í að kynna vörurnar og leggja áherslu á að hér sé um að ræða mikilvægt og gott mál.

Vandinn við svona merkingar er hins vegar sá, eins og við þekkjum, að til eru margs konar merkingar. Það eru til hollustumerki, þetta er norræna hollustumerkið en til eru önnur, og það eru til gríðarlega mörg umhverfismerki. Það eru til margs konar merki sem lúta að því að reynt er að tryggja að varan sé framleidd með þeim hætti að ekki hafi verið níðst á þeim sem standa að framleiðslunni, ég vísa til dæmis til merkis eins og Fair trade sem á að vera trygging fyrir því að fólki hafi ekki verið borgað undir lágmarkslaunum, og merki sem eiga að tryggja að barnaþrælkun hafi hvergi komið við sögu. Við erum ekki að tala um slíka hluti á Íslandi auðvitað en ég vek athygli á þessu í þessu sambandi. Við sjáum á vörum sem við kaupum að þær eru margar hverjar með einhvers konar merki af þessu tagi og það kann auðvitað að valda því að neytendur sem velta þessu fyrir sér ruglist dálítið í ríminu.

Hér leggjum við sem sagt drög að því að lögleiða íslenskt hollustumerki sem við köllum Skráargatið. Ég trúi því að þetta sé til farsældar fyrir okkur sem þjóð og fyrir framleiðendur á matvælamarkaði. Þetta segi ég allt þrátt fyrir að ég geri ekki ráð fyrir að saltkjöt og baunir muni njóta þess að verða merkt með Skráargatinu.