Álögur á eldsneyti

Mánudaginn 27. febrúar 2012, kl. 17:12:49 (5811)


140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

álögur á eldsneyti.

482. mál
[17:12]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Þessi tillaga kemur upp reglulega. Alltaf þegar bensín hækkar óþyrmilega dettur mönnum í hug hvort ekki sé hægt að taka álögurnar niður, þó að það sé krónutala, þó að álögur séu minni hér en annars staðar, þó að bensínverðið eða dísilverðið sé lægra á Íslandi en í öllum grannlöndum. Auðvitað er rétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að það eru launin líka, því miður, á flestum sviðum.

Gallinn er auðvitað sá að við horfum ekki fram á kúf. Það er ekki einhver einn atburður sem veldur því að bensínið hækkar og það muni síðan lækka. Það er ekki svo. Langtímalíkur eru þær að bensín og dísilolía hækki og hækki og þess vegna er afar óábyrgt að gera þetta svona. Tillaga sjálfstæðismanna kostar 12–14 milljarða og þá er virðisaukaskattur ekki meðreiknaður. Spurningin er auðvitað sú, ef við ættum þessa 12–14 milljarða, hvað við mundum vilja gera við þá. Viljum við nota þá til að lækka skuldir heimilanna? Viljum við nota þá til að treysta velferðarkerfið eða viljum við gera þetta? (Forseti hringir.) Hv. þm. Birkir Jón Jónsson vill lækka bensínverð (Forseti hringir.) en ég er ekki sammála því.