140. löggjafarþing — 62. fundur,  27. feb. 2012.

hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu.

500. mál
[17:46]
Horfa

fjármálaráðherra (Oddný G. Harðardóttir) (Sf):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður spyr: „Hvenær hefur hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns og dísilolíu verið hæst á tímabilinu frá ársbyrjun 1995 til janúarloka 2012?“

Fjármálaráðuneytið hefur umbeðin gögn um útsöluverð bensíns frá september 1996 til febrúar 2012. Olíugjald á dísilolíu var fyrst lagt á í júlí 2005 og því ná gögn um hlutföll skatta og gjalda af dísilolíu frá júní 2005 fram í febrúar 2012. Hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði bensíns var hæst í mars 1999 eða 73,3% en hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði dísilolíu var hæst í nóvember 2005 eða 58,1%. Í dag er hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði bensíns 48,4% og dísilolíu 44,3%. Þess ber að geta að á bensín er lagt sérstakt bensíngjald og kolefnisgjald en á dísilolíu er lagt olíugjald og kolefnisgjald. Auk þess er lagður virðisaukaskattur á sölu eldsneytis eins og á aðrar vörur.

Hv. þingmaður spyr einnig: „Hvernig hefur hlutfallið þróast hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum á sama tímabili?

Hlutfall skatta og gjalda til ríkissjóðs af útsöluverði bensíns hér á landi var um og yfir 70% frá árinu 1996–1999. Fyrirkomulagi gjaldheimtunnar var breytt árið 1999 úr því að vera hlutfall af innflutningsverði yfir í fasta krónutölu sem síðan hækkaði en hélt þó ekki raungildi. Af þessum sökum tók hlutfallið að lækka og stóð í kringum 60% til 2005. Hlutfallið lækkaði enn frekar fram á mitt ár 2008 þegar það náði lágmarki í tæpum 44%. Síðan hefur hlutfallið hækkað lítillega og stendur nú í ríflega 48%.

Hlutfall skatta og gjalda af útsöluverði dísilolíu hefur þróast með sambærilegum hætti undanfarin ár og stendur nú í rúmlega 44%.

Fjármálaráðuneytið vaktar hvorki eldsneytisverð í öðrum löndum né skatta og gjaldheimtu sem því tengist með reglulegu millibili og hefur því ekki söguleg gögn um þróun hlutfalls skatta og gjalda sem hlutfall af útsöluverði eldsneytis annars staðar á Norðurlöndum. Aftur á móti tekur ráðuneytið þátt í starfshópi um notkun hagrænna stýritækja við mótun umhverfisstefnu á Norðurlöndunum á vegum norrænu ráðherranefndarinnar. Sá starfshópur stendur fyrir útgáfu skýrslu á nokkurra ára fresti þar sem meðal annars er fjallað um skattlagningu eldsneytis og annarra orkugjafa á Norðurlöndunum. Skatt- og gjaldheimtu er hagað með sambærilegum hætti á bensín og dísilolíu annars staðar á Norðurlöndum. Fjármálaráðuneytið gerði óformlega rannsókn á eldsneytisverði í Svíþjóð, Noregi og Danmörku 20. febrúar sl. Leitað var að lægsta lítraverði á blýlausu bensíni á netinu. Upplýsingar um skatt- og gjaldheimtu voru sóttar á vefsíðu þeirra ráðuneyta sem fara með skattamál í hverju landi.

Niðurstöður könnunarinnar voru að í Svíþjóð var lægsta verð á bensínlítra um 260 kr. og álögur sænska ríkisins nema í það heila um 57% af því útsöluverði.

Í Noregi kostar bensínlítrinn um 290 kr. og um 67% af því rennur til ríkisins í formi skatta og gjalda.

Í Danmörku kostar bensínlítrinn um 287 kr. og rennur 53% af því verði til hins opinbera.

Ég vona að ég hafi svarað spurningum hv. þingmanns.