Heilbrigðisþjónusta í heimabyggð

Þriðjudaginn 28. febrúar 2012, kl. 17:38:49 (5945)


140. löggjafarþing — 63. fundur,  28. feb. 2012.

heilbrigðisþjónusta í heimabyggð.

120. mál
[17:38]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Frú forseti. Ég kem hér upp í stutta ræðu til að lýsa stuðningi mínum við þá þingsályktunartillögu sem hér er til umræðu og vona svo sannarlega að hún verði tekin til ítarlegrar umræðu og vonandi afgreiðslu í hv. velferðarnefnd þingsins. Ég tel að hér sé um mjög mikilvægt mál að ræða sem þurfi að skoða vel. Eins og komið hefur fram í umræðunni hefur heilbrigðisþjónustan, sérstaklega úti á landsbyggðinni, tekið miklum breytingum á síðustu árum. Það sem við höfum gagnrýnt á undanförnum missirum er skortur á samráði við heimamenn á hverju svæði fyrir sig þegar verið er að gera breytingar á þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Ég get tekið heils hugar undir það markmið í tillögutextanum að Alþingi feli velferðarráðherra, ef þessi tillaga verður samþykkt, að undirbúa frumvarp og leggja fram til að auka íbúa- og atvinnulýðræði og að sjónarmið og óskir heimamanna og starfsmanna heilbrigðisstofnana ráði meiru en nú þegar heilbrigðisþjónustan er skipulögð og þjónustu forgangsraðað.

Það er akkúrat það sem á hefur skort á síðustu missirum í þessum málaflokki. Við höfum haldið ótal ræður hér og það hafa verið miklar umræður. Alls staðar þar sem maður kemur úti um land er þetta gagnrýnt, að sjónarmið og óskir heimamanna séu ekki tekin nægjanlega til greina þegar ráðist er í breytingar. Ég get tekið sem dæmi Vestmannaeyjar þar sem landfræðileg lega og sérstaða er algjör, það er að sjálfsögðu óásættanlegt þegar ekki er hlustað á óskir heimamanna um að til dæmis skurðstofu sé haldið þar úti allt árið um kring. Þar er um öryggi íbúanna að tefla. Við getum nefnt dæmi um fjöldamargar stofnanir um allt land sem standa fullbúnar en ónotaðar vegna þess að ekki hefur verið tryggt fjármagn til að reka þær. Þá er nærtækt að nefna skurðstofuna í mínum heimabæ, Reykjanesbæ, sem er grátlegt að horfa upp á að standi ónotuð og að heimamenn þurfi að sækja þessa þjónustu til höfuðborgarinnar. Við vitum að þörfin fyrir þjónustuna hverfur ekki, heldur er verið að færa hana til.

Við sjáum núna með þann harða vetur sem við höfum átt að ef við lítum austur fyrir fjall hefur Hellisheiðin margoft lokast í vetur og fólk á Suðurlandi, í því stóra heilbrigðisumdæmi, býr að sjálfsögðu við óöryggi. Þetta leyfi ég mér að fullyrða að mundi ekki gerast ef tryggt væri að tekið yrði tillit til sjónarmiðs heimamanna og starfsfólks á svæðinu eins og gert er ráð fyrir í þessari tillögu.

Ég óska því flutningsmönnum góðs gengis með hana og vona að hún fái góða umfjöllun og jákvæða afgreiðslu í hv. velferðarnefnd.