Afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra

Miðvikudaginn 29. febrúar 2012, kl. 21:16:59 (6069)


140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[21:16]
Horfa

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta góða svar vegna þess að það getur ekki verið sjálfstæð ástæða til þess. Um þetta komu fram efasemdir í fyrri umræðu um málið og þeim var eytt. Að þessu máli loknu er alveg sjálfsagt og eðlilegt að þingið og lögspekingar setjist yfir það hvernig á að haga þessum málum en sá arfur sem okkur er fenginn í hendur, Alþingi og þingmönnum, er lögin um ráðherraábyrgð frá 1963 og lögin um landsdóm frá 1963 sem dómsmálaráðherrann Bjarni Benediktsson, forsætisráðherrann Ólafur Thors og fleiri slíkir ráðherrar, sögufrægir úr flokki hv. þingmanns, settu meðal annarra. Þó að lagaumhverfið hafi nokkuð breyst síðan tel ég að þetta séu að meginhluta til góð lög og veit ekki hvað (Forseti hringir.) þingmaðurinn á með það að blanda þessari umræðu hér inn í jafnalvarleg mál (Forseti hringir.) og hann hefur borið fram á þinginu.