Afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra

Miðvikudaginn 29. febrúar 2012, kl. 22:12:15 (6081)


140. löggjafarþing — 64. fundur,  29. feb. 2012.

afturköllun ákæru á hendur Geir H. Haarde, fyrrv. forsætisráðherra.

403. mál
[22:12]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég er algjörlega ósammála hæstv. utanríkisráðherra um að það komi saksóknara ekki við. Lögin um landsdóm eru þannig að það er Alþingi sem kýs saksóknara (Gripið fram í.) til að fara með saksóknina af sinni hálfu. Það sem er ólíkt í málum fyrir landsdómi og öðrum almennum málum er að í málefnum fyrir landsdómi er ákæruvaldið og saksóknarvaldið ekki hið sama, en þannig er staðan í öðrum málum. Þá fer saksóknari bæði með saksóknarvald og ákæruvald. Þessu er öðruvísi farið í málum fyrir landsdómi. Það er ekki hægt að segja að saksóknara komi það ekki við. Hann er málflutningsmaður Alþingis og hlýtur að hafa á því einhverja skoðun og Alþingi hlýtur að ráðgast við hann.

Einnar messu virði, segir hæstv. utanríkisráðherra, að taka aðra lotu. Já, niðurstaða Alþingis í janúar var að gera það. Það hefur verið gert og nefndin hefur svarað þessum álitamálum (Forseti hringir.) í nefndaráliti sínu, m.a. hvað þetta atriði varðar, og ég er sammála (Forseti hringir.) þeirri niðurstöðu.