Upplýsingaréttur um umhverfismál

Þriðjudaginn 13. mars 2012, kl. 15:56:11 (6378)


140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

upplýsingaréttur um umhverfismál.

59. mál
[15:56]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ekki ætla ég að gera lítið úr undirbúningsvinnu hv. þingmanns. Ef skilja mátti ræðu mína á þann veg bið ég hv. þingmann afsökunar á því, það stóð ekki til. Ég velti því bara fyrir mér hvort þau markmið sem fram koma í frumvarpinu væru í raun annar vandi sem við ættum við að etja. Ég benti í því sambandi á umsagnir Sambands íslenskra sveitarfélaga og annarra hvort ekki væri erfitt að ná fram þeim markmiðum. Hvert einasta stjórnvald þarf eðlilega að upplýsa um ef einhver alvarlegur umhverfisskaði verður, þannig er það gert. Til að mynda eru þó nokkur mál á leiðinni í þingið, samkvæmt málaskrá ríkisstjórnarinnar, sem snerta mörg af þessum umhverfismálum. Hv. þingmaður nefndi upplýsingalögin. Hefði til dæmis verið betra að skerpa á ákvæðum innan þeirra laga? Ég velti því upp.

Ég segi einfaldlega: Er nóg að koma fram með eitt lítið frumvarp um frumkvæðisskyldu? Er það besta leiðin til að ná fram því markmiði sem við hljótum að stefna að, að minni hætta verði á umhverfisslysum? Og verði þau, er þá tryggt að gripið verði til viðeigandi ráðstafana? Fyrst og fremst ættum við að tryggja að þau verði ekki, það hlýtur að vera meginmarkmiðið. Og ef umhverfisslys verða þarf viðbragðsáætlun að vera fyrir hendi svo brugðist sé við þeim með eðlilegum hætti. Ég held að það sé víðast hvar þannig í dag.