140. löggjafarþing — 72. fundur,  13. mars 2012.

þjóðaratkvæðagreiðsla um aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins.

39. mál
[18:44]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Það er einmitt á þeim meginpunkti sem hv. þingmaður endaði á sem ég vil byrja ræðu mína á. Það verður ekki farið í atkvæðagreiðslu um Evrópusambandsaðild fyrr en ljóst er hver niðurstaðan verður eða fyrr en Evrópusambandið er tilbúið til þess og búið verður að mæla hlutina þannig að ljóst sé að það verði samþykkt, því að það hefur ekki gerst síðan Noregur felldi síðast að ganga inn í Evrópusambandið, það hefur ekki gerst síðan þá að eitthvert ríki hafi fellt það vegna þess að ferlið er allt annað.

Evrópusambandið svífst einskis að mínu viti til að draga upp glansmynd af sjálfu sér þrátt fyrir að fréttir utan úr Evrópu og heiminum dragi upp töluvert aðra mynd en við sjáum. Ég er með í höndunum, frú forseti, ályktun sem vitnað hefur verið í frá utanríkismálanefnd Evrópuþingsins ef ég man rétt. Þar segir meðal annars að íslensk stjórnvöld séu hvött sérstaklega til að minnka atvinnuleysi meðal ungs fólks. Ég velti fyrir mér hvort Evrópusambandið ætti ekki að taka til heima hjá sér fyrst áður en það fer að ráðleggja Íslendingum um hvernig eigi að taka á málum sem þessum (Gripið fram í: Segðu.) þegar atvinnuleysi fólks undir þrítugu mælist kannski í 40–50% í löndum eins og Spáni. Hvað er verið að kenna Íslendingum? Ég velti því fyrir mér. Það er fleira í ályktuninni sem ég mun koma inn á á eftir.

Sú tillaga sem við ræðum gerir ráð fyrir að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðlögunar- og viðræðuferli Íslands og Evrópusambandsins. Og að atkvæðagreiðslan fari fram samhliða forsetakosningum. Við höfum séð það í þinginu að þegar sá gállinn er á meiri hlutanum, stjórnarflokkunum, þarf ekki langan tíma til að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu. Skemmst er að minnast þess að uppi eru hugmyndir um að greiða atkvæði um stjórnarskrá samhliða forsetakosningum sem er að mínu viti algerlega fráleitt að ætla sér að gera. (Gripið fram í.)

Síðan velta menn því fyrir sér að halda þessu — ekki að velta fyrir sér heldur eru þeir á hraðleið áfram með þessa Evrópusambandsumsókn þó að við sjáum viðvörunarmerkin alls staðar varðandi Evrópusambandið. Því verður ekki neitað að það Evrópusamband sem meiri hluti Alþingis ákvað að hefja hér upp 2009 er allt annað Evrópusamband en við sjáum í dag. Ný könnun var að koma sem gerð var víða um Evrópu. Það er eitthvert apparat sem heitir YouGov-Cambridge sem gerir þá könnun. Hún er gerð meðal 11 þús. Evrópubúa víðs vegar um Evrópu og þar kemur fram að um 60% Breta vilja að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu til að ákveða tengsl Breta og Evrópusambandsins. Það er margt sem bendir til þess að þverrandi áhugi sé hjá þeim ríkjum sem standa sæmilega innan Evrópusambandsins að halda samstarfinu áfram en hins vegar sé aukinn vilji hjá þeim ríkjum sem standa höllum fæti til að halda samstarfinu áfram. Það er að sjálfsögðu vegna þess að búið er að setja þessi ríki í þá stöðu að þau hafa kannski ekki marga aðra kosti en þá að fara leið sem ég held að mörgu leyti að Grikkland hefði kannski betur farið, þ.e. að segja sig úr þessu samstarfi til að geta stjórnað sínum efnahagsmálum sjálft. Nú er staðan þannig í Grikklandi að það eru embættismenn þóknanlegir ráðherrunum í Brussel sem stýra landinu.

Ég var erlendis um helgina þó það sé ekki í frásögur færandi, ég ræddi við ungan Grikkja í Bretlandi sem lýsti ástandinu í hverfinu hans í Aþenu. Hann hafði aldrei séð það áður að íbúar í því hverfi væru að ná sér í mat úr ruslatunnunum. Ástæðan er sú að hans mati að það er ekki til neitt sem heitir framleiðsla í dag í Grikklandi, menn reiða sig á hjálp frá Evrópusambandinu, frá Þjóðverjum, frá þeim aðilum sem kannski eiga sinn þátt í því að svo fór sem fór fyrir Grikklandi þó svo að sjálfsögðu við hljótum að taka inn í myndina þá óstjórn sem virðist hafa verið á málefnum heima fyrir.

Það leiðir hugann að öðru. Hér hefur verið talað um þá kosti, gull og græna skóga sem bíða okkar ef við göngum inn í myntsamstarfið. Við skulum ekki láta okkur detta það í hug, Íslendingar, að með því að ganga til liðs við evruna eða evrusamstarfið fengjum við sömu kjör og Þjóðverjar, Finnar eða einhverjir aðrir. Það eru mismunandi kjör á lánum til ríkja innan Evrópusambandsins eftir því hvort það er Portúgal, Finnland, Þýskaland eða eitthvert annað land. Það gildir ekki eitt yfir alla. Það eru ekki sömu vextir í þessum löndum þó að stundum sé látið í það skína í þessum ræðustól en þá er það alls ekki þannig.

Mig langar að koma að einu atriði, sem er Evrópustofa, og tengist þessu máli að sjálfsögðu. Ég er með útboðslýsingu á verkefnum Evrópustofu. Það er mjög athyglisvert plagg að lesa. Þar kemur meðal annars fram, með leyfi forseta, að þetta sé hluti af IPA-styrkjunum, þessi rekstur allur saman. Þá kemur líka fram að stofunni sé ætlað að bregðast við röngum upplýsingum um Evrópusambandið. Ég er að reyna að þýða þetta, frú forseti, þetta plagg er að sjálfsögðu á ensku. Hvað er átt við með því? Hvernig á stofan að bregðast við? Á hún að leggja mat á það hvort einhverjar rangfærslur séu settar fram? Það kemur einnig fram á vef Evrópustofu um starfsemina. Þar segir, með leyfi forseta: „Ýmsar flökkusögur eru sagðar um ESB en fæstar þeirra eiga sér stoð í veruleikanum.“ Hvaða flökkusögur eru það? Eru það flökkusögur um atvinnuleysið? Eru það flökkusögur um aukið vald í Brussel, minnkandi vald þjóðríkjanna? (Gripið fram í: Sarkozy.) Hvaða flökkusögur eru það? Eru það flökkusögur um Sarkozy og Merkel-samstarfið, að þau ráði öllu innan Evrópusambandsins?

Í þessu plaggi, útboðslýsingu fyrir Evrópustofu, kemur líka fram að verktakinn sem reki stofuna eigi að aðstoða framkvæmdastjóra Evrópusambandsins og sendiráð sambandsins hér á landi við að framfylgja samskiptaáætlunum framkvæmdastjórnarinnar. Erum við að tala um hlutlausa Evrópustofu, hlutlausa stofnun sem á að kynna kosti og galla Evrópusambandsins? Ekki aldeilis. Þetta er enn eitt áróðurstækið sem Evrópusambandið er að fjármagna hér á landi.

Frú forseti. Ég held að kominn sé tími til að þingið taki af skarið og beini því til framkvæmdarvaldsins að koma með raunsanna mynd á þessu ferli öllu saman. En ég verð að segja, frú forseti, að þær upplýsingar sem koma fram í þessari ályktun utanríkismálanefndar Evrópuþingsins eru miklu meiri upplýsingar en við höfum fengið frá hæstv. utanríkisráðherra, (Gripið fram í: Rétt.) miklu meiri upplýsingar. Hér eru á ferðinni yfirlýsingar og ég ætla að nota orðið staðfesting á því hvernig staðan er á ákveðnum hlutum í ferlinu og mjög mikilvægt að þetta hafi ratað í hendur okkar til að við áttum okkur raunverulega á hvernig ferlið er.

Það vekur líka eftirtekt að í ályktun utanríkismálanefndar er sérstaklega kveðið á um hversu mikilvægt er að ferlið haldi áfram smurt. Breytingum á Stjórnarráðinu er fagnað því það má ekkert vera til að stöðva þetta ferli allt saman, en síðan er vitnað í ýmsa aðra hluti þar sem maður hrekkur kannski aðeins við. Það er meðal annars staðfesting á tengslum Evrópusambandsumsóknar og Icesave-samningsins. Það kemur fram í þessum gögnum og ekki er hægt að horfa fram hjá því.

Ég vil fara á bls. 5 í ályktun utanríkismálanefndar þar sem talað er um að Ísland þurfi að hraða aðlögun á þeim köflum sem ekki eru innan EES-samningsins til að allt sé klárt þegar dagurinn rennur upp sem við göngum í Evrópusambandið. Það er sem sagt gert ráð fyrir því að við göngum í Evrópusambandið, að sjálfsögðu, í þessari ályktun, en hvað þýðir það? Þetta þýðir það sem við erum búin að segja hérna sýknt og heilagt í umræðu um Evrópusambandið að verið er að aðlaga íslenskt samfélag að Evrópusambandinu og niðurstaðan sem Evrópusambandið gefur sér er alltaf sú að umsóknaraðilinn ætli sér að ganga inn, ekki að einhver atkvæðagreiðsla komi til með að geta fellt samninginn. Út á það gengur ferlið ekki. Ferlið gengur út á að ganga inn í Evrópusambandið.

Ég held því, frú forseti, að mikilvægt sé í fyrsta lagi að tillagan nái fram að ganga, að greidd verði atkvæði um hvort eigi að halda þessu áfram, þ.e. þjóðin fái að greiða atkvæði um það. Og í öðru lagi, gangi það ekki eftir, held ég að mikilvægt sé að þingið hefji gagngera endurskoðun á því umboði sem framkvæmdarvaldið hefur til að vinna að þessu ferli.