Umræður um fundarstjórn -- orð ráðherra -- málefni lögreglu

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 11:18:01 (6518)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

umræður um fundarstjórn -- orð ráðherra -- málefni lögreglu.

[11:18]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég kem upp vegna starfa innan allsherjar- og menntamálanefndar en samkvæmt nýju fyrirkomulagi eru skipaðir framsögumenn í ákveðnum málum og ég er framsögumaður nefndarinnar um þingsályktunartillögu Sivjar Friðleifsdóttur og annarra um forvirkar rannsóknarheimildir.

Við höfum farið mjög gaumgæfilega, ítarlega og efnislega yfir það mál, höfum meðal annars fengið á fund okkar lögreglumenn og fleiri og fleiri sem greinilega eru núna með puttann á púlsinum. Það tengist rannsóknum og forvörnum gagnvart skipulögðum glæpasamtökum.

Hitt er svo að ég mælti með því að við mundum bíða með afgreiðslu málsins af því að okkur í nefndinni var tjáð — og núna eru tæpir tveir mánuðir liðnir frá því — að þess væri að vænta að hæstv. innanríkisráðherra mundi leggja fram frumvarp um forvirkar rannsóknarheimildir. Mér skilst líka að báðir stjórnarflokkarnir, bæði þingflokkur Samfylkingar og Vinstri grænna, hafi afgreitt það mál út úr þingnefndinni fyrir mörgum vikum.

Ég upplýsti það í nefndinni og ég taldi að ég hefði fengið ákveðinn stuðning við það í morgun, að ef þetta frumvarp kemur ekki fram innan tíðar og þá meina ég innan viku, (Forseti hringir.) mun ég leggja það til að þetta mál verði afgreitt af því að við þurfum að senda út skýr skilaboð um að löggjafarvaldið sé að fylgjast með því og veita framkvæmdarvaldinu þær heimildir sem það þarf til að vinna gegn því af öllu afli (Forseti hringir.) að skipulögð glæpasamtök festi hér rætur.