Mat á umhverfisáhrifum

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 11:21:02 (6520)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

mat á umhverfisáhrifum.

598. mál
[11:21]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, með síðari breytingum.

Í frumvarpi þessu er lögð til breyting á gildandi lögum um mat á umhverfisáhrifum en tilgangur breytingarinnar er að koma til móts við athugasemdir ESA er varðar innleiðingu Íslands á einstökum ákvæðum tilskipunar 85/337/EBE. Markmiðið með frumvarpinu er að uppfylla ákvæði tilskipunarinnar og koma til móts við athugasemdir ESA ásamt því að gera einstakar lagfæringar á lögunum sem þörf er talin á í ljósi reynslunnar. Frumvarpið mun hafa þau áhrif í grundvallaratriðum að fleiri framkvæmdir þarf að tilkynna til Skipulagsstofnunar til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisráðuneytinu bárust athugasemdir ESA með bréfi í febrúar 2010. Þar er vísað til þess að í ljósi dómsniðurstöðu Evrópudómstólsins í máli C-255/08 hafi ESA ákveðið að hefja skoðun á innleiðingu EES/EFTA-ríkjanna á umræddri tilskipun. ESA gerði athugasemdir við innleiðingu tilskipunarinnar í lög um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000.

Að mati ESA uppfyllir Ísland ekki ákvæði tilskipunarinnar hvað varðar viðmið þau sem fram koma í 1. og 2. viðauka laga um mat á umhverfisáhrifum. Fjalla athugasemdirnar um þau viðmiðunarmörk framkvæmda er varða stærð og staðsetningu framkvæmdanna sem er að finna í ákvæðum 1. og 2. viðauka núgildandi laga. Enn fremur gerir ESA athugasemd við orðalag nokkurra annarra ákvæða viðaukanna.

Evrópudómstóllinn hefur fjallað um ákvæði tilskipunar 85/337/EBE í nokkrum dómum sínum og var túlkun Evrópudómstólsins á tilskipuninni skoðuð og tekið mið af niðurstöðu dómstólsins í þeim málum við vinnslu frumvarpsins.

Helstu nýmæli í frumvarpinu eru þau að gerð er tillaga um að framkvæmdir þær sem eru þegar matsskyldar samkvæmt 5. gr. laganna og tilkynningarskyldar til ákvörðunar um mat á umhverfisáhrifum samkvæmt 6. gr. laganna verði flokkaðar í þrjá flokka, flokka A, B og C. Í flokk A falla þær framkvæmdir sem eru matsskyldar samkvæmt núgildandi lögum og finna má í 1. viðauka laganna. Í flokki B er að finna þær framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum samkvæmt núgildandi lögum og falla undir 2. viðauka þannig að viðbótin er flokkur C þar sem eru þær framkvæmdir sem áður hafa fallið utan viðmiðunarmarka þeirra framkvæmda sem tilgreindar eru í 2. viðauka og nauðsynlegt þykir í ljósi athugasemda ESA að bæta við gildandi lög.

Lagt er til að í stað þriggja viðauka — og hér erum við fremur að tala um formsatriði en innihalds — verði tveir viðaukar. Í 1. viðauka verða tilgreindar þær framkvæmdir sem falla í A-, B- og C-flokk og í 2. viðauka er að finna ákvæði þau sem eru í 3. viðauka núgildandi laga með viðbótum. Gerðar eru breytingar á einstökum ákvæðum viðaukanna til að þau falli betur að ákvæðum tilskipunarinnar en einnig þótti ástæða til að gera orðalag skýrara á nokkrum stöðum. Gerð er tillaga að breyttri og gagnsærri uppsetningu 1. viðauka þar sem framkvæmdir samkvæmt núgildandi 1. og 2. viðauka eru númeraðar og skyldar framkvæmdir eru flokkaðar saman og tilgreint hvort viðkomandi framkvæmd falli undir A-, B- eða C-flokk.

Í frumvarpinu er gerð tillaga um mismunandi málsmeðferð hvers flokks framkvæmda um sig. Varðandi matsskyldar framkvæmdir, sem er að finna í 1. viðauka og gerð er tillaga um að falli í flokk A, verður um óbreytta málsmeðferð að ræða frá núgildandi lögum. Hvað varðar þær framkvæmdir sem kunna að vera háðar mati á umhverfisáhrifum, samkvæmt núgildandi 2. viðauka og gerð er tillaga um að falli í flokk B, verður einnig um óbreytta málsmeðferð að ræða, þannig að enn ræðum við um þá breytingu sem frumvarpið fjallar um, þ.e. fyrir þær framkvæmdir sem núna falla utan viðmiðunarmarka núgildandi laga, og gerð er tillaga um að verði tilkynningarskyldar og falli í flokk B, er í frumvarpi þessu gerð tillaga um einfaldari málsmeðferð en lagt er til varðandi þær framkvæmdir sem falla í flokk B. Þetta er með það að markmiði að breytingin sé sem minnst íþyngjandi.

Markmið einfaldari málsmeðferðar er að stytta þann tíma sem það tekur Skipulagsstofnun að taka ákvörðun um matsskyldu. Gerðar verða vægari kröfur til framkvæmdaraðila um skil á gögnum með tilkynningu framkvæmdar í flokki C til Skipulagsstofnunar, enn fremur styttri tímafresti fyrir Skipulagsstofnun til að taka ákvörðun um matsskyldu og verður Skipulagsstofnun heimilt en ekki skylt að leita umsagna. Talið er að með framangreindum breytingum sem hér hafa verið reifaðar verði kröfur tilskipunarinnar uppfylltar og komið að öllu leyti til móts við fram komnar athugasemdir ESA.

Virðulegur forseti. Eins og hér kemur fram er hér fyrst og fremst um að ræða tæknilega breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum sem þó hefur í för með sér breytingar á starfsumhverfi framkvæmdaraðila. Við smíði frumvarpsins hefur verið leitast við að þær breytingar valdi sem minnstum truflunum en uppfylli þó markmið laganna um mat á umhverfisáhrifum eins og lagt hefur verið til. Ég hef að öðru leyti rakið meginefni frumvarpsins og legg til að því verði að lokinni 1. umr. vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar til úrvinnslu.