Úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 14:52:27 (6533)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[14:52]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir fyrirspurnina. Hann vekur athygli á atriði sem var vissulega rætt í nefndinni, ég fór nú lítillega yfir það í framsöguræðu minni, þ.e. sú augljósa staðreynd að neytendur eru ekki eingöngu skuldarar á fjármálamarkaði. Hins vegar er það svo að við núverandi aðstæður er staða skuldara mjög ofarlega í forgangsröðinni og framarlega í umræðunni um neytendavernd á fjármálamarkaði, því er kannski eðlilegt að þau mál séu efst á baugi þegar við förum yfir það hvernig staðið er að neytendavernd á þessum mikilvæga markaði.

Það má finna því stað í nefndarálitinu, ef hv. þingmaður fer vandlega í gegnum það, að nefndin hefur skoðað þetta mál og vekur sérstaklega athygli á þeim sjónarmiðum sem hv. þingmaður benti á. Ég tel einsýnt að tekið verði tillit til þess í þeirri vinnu sem vonandi fer af stað í framhaldi af afgreiðslu þessarar tillögu.