Úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 15:12:44 (6538)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:12]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þær fyrirspurnir sem tengjast þessu máli. Hv. þm. Eygló Harðardóttir dró ágætlega fram þær leiðir sem menn hafa verið að velta fyrir sér.

Ég held að leiðir Bandaríkjamanna séu allrar athygli verðar en við verðum líka að hafa hugfast að það er takmörkunum háð hvað við Íslendingar getum byggt upp af stofnunum. Við höfum takmarkað fjármagn til að setja í allt eftirlitskerfið. Við verðum miklu frekar að skoða hvernig við getum nýtt það fjármagn — við höfum stóraukið fjármagnið, við þurftum að gera það — og fengið meiri skilvirkni til hagsbóta fyrir neytendur í landinu. Ég er ekki viss um að við höfum efni á því að fara þessa bandarísku leið, enda dregur nefndin þá leið til baka.

Ég held hins vegar, og ég ítreka það sem ég sagði áðan í ræðu minni, að nú sé möguleiki til að stórauka og efla neytendavernd með því að samþætta þessa hluti. Enginn getur leyft sér, á þeim tímum sem nú eru, að horfa fram hjá þeirri ríku neytendavernd sem þarf að vera til staðar og þá ekki síst á fjármálamarkaði. Ég efast ekki um að sú nefnd sem er að störfum mundi rækja það hlutverk sitt mjög alvarlega, ekki síst ef bætt yrði í hana einum fulltrúa til viðbótar sem heyrði undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið. Ég held að sú nefnd yrði burðug til að gera það.

Ég mun í seinna andsvari koma inn á þá lendingu sem hægt væri að ná.