Úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði

Fimmtudaginn 15. mars 2012, kl. 15:18:39 (6541)


140. löggjafarþing — 74. fundur,  15. mars 2012.

úttekt á neytendavernd á fjármálamarkaði.

12. mál
[15:18]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka allsherjar- og menntamálanefnd fyrir mjög vandaða vinnu við þessa þingsályktunartillögu sem ég flutti hér ásamt fleiri þingmönnum. Ég vil þakka sérstaklega Skúla Helgasyni fyrir, sem vandaði mjög til verka eins og með allt annað sem hann tekur sér fyrir hendur og kom ágætlega fram í umræðu um málið sem var áðan á dagskrá, þ.e. græna hagkerfið. Ég verð líka að segja að ég er mjög ánægð með þær breytingar sem gerðar hafa verið og tel þær vera til bóta.

Það er mjög mikilvægt að sameina neytendamál í þessum málaflokki, þ.e. neytendamál á fjármálamarkaði, á einn stað. Þegar einstaklingar lenda í vanda sem þeir gera gjarnan núna í kjölfar hrunsins er mjög óljóst fyrir þá sem eru í vandræðum með rétt sinn hvert þeir eiga að leita. Það er ekki síður mikilvægt að sú stofnun sem fengi þetta meginhlutverk hafi frumkvæði að því að verja hagsmuni neytenda, eins og flutningsmaður nefndarálits kom inn á, og hafi yfirsýn yfir stöðu neytenda og möguleg áhrif á neytendur við breytingar á löggjöf og setningu nýrra laga. Og þar sé jafnframt aðstaða til að veita einstaklingum ráðgjöf ef þeir telja að hagsmunir þeirra séu fyrir borð bornir í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Í nefndaráliti er farið mjög vandlega yfir þá löggjöf sem nær til fjármálamarkaðarins og neytenda á fjármálamarkaði. Eins og sjá má á upptalningunni er þetta langt í frá einföld lagaumgjörð. Það finnst mér vera bestu rökin fyrir því að fjalla um þessi mál í sérstakri nefnd með því fólki sem hefur sérstaka þekkingu á þessum málaflokki.

Ég get til dæmis játað það hér, herra forseti, að mér er sagt að um margt sé lagaumhverfið á Íslandi ekki stóra vandamálið, en ég er ekki í neinum færum til að meta það. Þessi lög eru mjög yfirgripsmikil og það krefst mikillar yfirlegu að öðlast djúpan og raunverulegan skilning á því umhverfi.

Það sem við vitum og blasir við er að stjórnsýslan á þessu sviði er allt of flókin. Það eru óskýr valdmörk og síðan er eftirlitinu ábótavant.

Þá vil ég endurtaka þetta með frumkvæðið á þessum vettvangi, að gríðarlega mikilvægt er að það sé stofnun eða einhver aðili innan stjórnsýslunnar sem hafi þá ábyrgð að meta framboð þjónustu á markaðnum og hvaða áhrif það kunni að hafa á neytendur, enda eru oft stórir fjárhagslegir hagsmunir í húfi.

Núverandi ríkisstjórn hefur reynt að efla stöðu neytenda eftir hrun. Gott dæmi um það er umboðsmaður skuldara þar sem nú starfa yfir 100 manns að því að aðstoða skuldug heimili við að komast út úr því helsi sem því fylgir að vera í alvarlegum vanskilum. Eins settum við á laggirnar samhliða löggjöf um skuldaaðlögun eftirlitsnefnd. Það var að frumkvæði félags- og tryggingamálanefndar sem við settum þá nefnd á laggirnar sem hefur komið með mjög þarfar ábendingar og haft eftirlit með þeim úrræðum sem verið er að vinna með á fjármálamarkaði.

Ég vil líka taka undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal að að sjálfsögðu þarf að líta til hagsmuna þeirra sem eiga sparnað eins og þeirra sem skulda, enda gerir tillagan ráð fyrir að þetta varði almennt málefni þeirra sem eru í viðskiptum á fjármálamarkaði.

Mörg fjármálafyrirtæki leggja nú mjög hart að sér við að bæta ímynd sína og auka þjónustu við viðskiptavini. Ég vil alls ekki gera lítið úr þeirri viðleitni og veit að mörgum stjórnendum í þeim fyrirtækjum er það mjög umhugað. Það breytir ekki því að þau fyrirtæki eru með miklu sterkari stöðu en þeir sem við þau eiga viðskipti, síðan er það jú hlutverk fjármálafyrirtækja að tryggja arðsemi af rekstri sínum. Þá skiptir máli að þeir sem eru í veikari stöðu og eiga í viðskiptum við þau geti verið vissir um að ekki sé verið að brjóta á rétti þeirra eða veita þeim misvísandi upplýsingar.

Við skulum hafa í huga að þótt margt hafi breyst er það enn svo að fjármálafyrirtæki ganga hart fram í því að markaðssetja vöru sína, eins og til dæmis núna hvað varðar óverðtryggðu lánin. Það minnir sumpart á það þegar gengisbundnu lánin komu á markað, þá voru lægri vextir gylliboðið fyrir fólk að taka þau lán en það lá kannski ekki fyrir hvaða áhætta gæti falist í því til lengri tíma.

Varðandi óverðtryggðu lánin eru á þeim núna fastir vextir til þriggja eða fimm ára. En það liggur ekki ljóst fyrir hvaða stöðu fólk kann að lenda í þegar þeim tíma er lokið þó að fólk geti þá að sjálfsögðu farið yfir í verðtryggð lán en það er kannski að fórna tiltölulega hagstæðum vaxtakjörum núna til þess að fara inn í óverðtryggðu lánin. Ég ætla ekki að leggja dóm á það hvort þetta er gott eða slæmt. Það væri því mjög mikilvægt fyrir neytendur að geta fengið hjá hlutlausum aðila mat á því hversu skynsamlegar þessar ráðstafanir eru.

Svo voru innleidd há veðhlutföll sem til skamms tíma voru hagfelld fyrir heimilin en allir vita að til lengri tíma koma þau ekkert sérstaklega vel við fjárhag heimilanna.

Sama má segja um 40 ára lánin sem eru enn við lýði og þykja sjálfsögð en eru í raun ansi löng lán og valda því að fjármagnskostnaður verður gríðarlega mikill.

Jafngreiðslulán hafa vikið í stað lána með jafnar afborganir. Til dæmis lánar Íbúðalánasjóður eingöngu lán með jöfnum afborgunum. Margt af því fyrirkomulagi sem er á lánveitingum er til þess fallið að lækka greiðslubyrði lántakenda og getur til skemmri tíma litið verið hagfellt en reynist þegar lánveitingin er skoðuð til enda ansi dýrkeypt fyrir lántakendur. Þetta eru flóknir hlutir sem langt frá því allir neytendur hafa djúpan skilning á og þeir verða að hafa aðgang að upplýsingum sem eru hlutlausar og til þess fallnar að tryggja rétt neytenda.

Ég ætla að ljúka þessu, herra forseti, eins og ég byrjaði, á þökkum. Ég er ákaflega ánægð að búið sé að afgreiða málið til síðari umr. Ég vonast til að við getum samþykkt þingsályktunartillöguna í næstu viku og nefndin hafið störf fljótlega og komi neytendamálum á fjármálamarkaði í viðunandi horf.